Svipað áfram - eða?

Svo virðist sem hlýrra verði í komandi viku heldur en verið hefur - sérstaklega þá á Norðaustur- og Austurlandi. Þeirra hlýinda mun væntanlega gæta minna hér um landið suðvestanvert vegna þrálátra suðvestlægra átta. Korti dagsins er ætlað að sýna í grófum dráttum hvað er á seyði.

w-blogg270518a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd í litum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þetta kort er aðeins öðruvísi en þau sem við oftast höfum fyrir augunum að því leyti að hæðar- og þykktargildi eru meðaltöl 50 spáa sem evrópureiknimiðstöðin hefur gert og gilda allar síðdegis á fimmtudag 31.maí. Ef vel er að gáð má sjá á kortinu daufar strikalínur. Af þeim má ráða eins konar óvissu í spánni - vísi um það hversu mikið spárnar 50 greinir að um hæð flatarins í hverjum punkti. Óvissan er greinilega mest nærri lægðarmiðjunum tveimur suður í höfum - trúlega er bæði óvíst hvar þær verða - og einnig greinir spárnar að um það hversu öflugar þær eru. 

Hér takast fjögur kerfi á. Í fyrsta lagi hæðin hlýja við Suður-Noreg. Litlu munar að hlýindi hennar nái hingað til lands. Suður í hafi er önnur hlý framsókn - austan við lægðina við Nýfundnaland. Á milli hlýindanna er söðull - hvorug hlýja framsóknin nýtist okkur að marki svo lengi sem við sitjum í eða mjög nærri honum. Kalda loftið er síðan enn nokkuð öflugt vestan Grænlands og sækir líka að - þó því sé ekki beinlínis spáð yfir okkur veldur nærvera því samt því að hlýja loftið úr suðri á engan veginn greiða leið til okkar - sæki það nær vex vestanáttin í háloftunum til muna - og venjulega táknar slíkt dumbungsveður um landið vestanvert - og endar slíkur leikur oftast í kaldri norðanátt á þessum tíma árs. 

En lítum líka á „aðalspá“ evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir sama tíma (síðdegis á fimmtudag):

w-blogg270518b

Við sjáum hér öll sömu atriði og á fyrri mynd - en þó er sá munur að hér er dálítill kuldapollur norðan söðulsins fyrir sunnan land. Hvað skyldi sá blettur vera að gera af sér? 

Og við lítum líka á álit bandarísku veðurstofunnar:

w-blogg270518c

Hún hefur líka fundið kuldapollinn litla - hann er trúlega raunverulegur - en meðalspáin segir okkur að hann geti verið hvar sem er á nokkuð stóru svæði. 

Öll kortin eru þó sammála um að við verðum í gula þykktarlitnum - þeim sem táknar sumarið. Það er sum sé mætt á svæðið og spár segja að hiti fari vel upp fyrir 20 stig norðaustanlands næstu daga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 912
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3302
  • Frá upphafi: 2426334

Annað

  • Innlit í dag: 812
  • Innlit sl. viku: 2968
  • Gestir í dag: 794
  • IP-tölur í dag: 731

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband