Fáeinar hugleiðingar um veðrið þessa dagana

Útsynningur með éljagangi á landinu sunnan- og vestanverðu er ekki algengur á þessum tíma árs. Sá sem gengur yfir þessa dagana er þar að auki í kaldara lagi miðað við það sem gengur og gerist. Snjó festir gjarnan á láglendi um stund þegar él ganga yfir og situr jafnvel á jörð mestalla nóttina og fram eftir morgni. Úrkomumagn hefur þó hingað til ekki verið það mikið að verulega hafi snjóað og snjór þar með setið allan daginn á láglendi.

Það sem veldur þessu er útrás heimskautalofts vestan frá norðurhéruðum Kanada. Undir lok vetrar dregur mjög úr afli vestanvindabeltis háloftanna, það gerist þó missnögglega frá ári til árs og ekki alltaf sama daginn. Kuldi norðurslóða hverfur þó ekki á fáeinum dögum né vikum en leggst oft saman í fáeina nokkuð snarpa kuldapolla sem síðan reika langt fram eftir sumri um heimskautaslóðir. 

Hreyfingar þessara kuldapolla eru býsna tilviljanakenndar og óhjákvæmilegt er að þeir hafi einhver áhrif hér á landi, stundum óbeint en stöku sinnum rekur þá nærri okkur - og geta komið úr öllum áttum. Þeir sem koma úr austri eða suðri hafa hlýnað á leiðum sínum en geta valdið umtalsverðri úrkomu. Sá kuldi sem plagar okkur þessa dagana er hins vegar kominn úr vestri. Vestankuldi er nær alltaf vægari heldur en norðankuldi. Að auki er aðsókn kulda úr norðri algengari á þessum tíma árs heldur en úr vestri.

Þó svalt sé nú vantar mikið upp á að um einhvern metkulda sé að ræða. Til að varpa ljósi á það skulum við líta á fyrstu þrjá daga maímánaðar nú. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er +1,7 stig, -2,5 stig neðan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -3,9 stig neðan meðallags þessara sömu almanaksdaga síðustu tíu ára. Þetta eru nokkuð stórar tölur, en samt vitum við til þess að fyrstu þrír maídagarnir hafi verið kaldari en þetta 20 sinnum á 144 árum. Kaldastir voru þeir 1982, þá var að meðaltali -4,0 stiga frost dagana þrjá. Tveir maímánuðir á þessari öld hafa byrjað kaldari í Reykjavík heldur en maí nú, það var 2003 og 2004, ár sem annars voru sérlega hlý. 

Í Stykkishólmi er meðalhiti fyrstu þrjá daga mánaðarins +1,3 stig. Þar vitum við um meira en 40 kaldari tilvik sömu daga, kaldast 1882, þegar meðalhiti daganna þriggja var -5,6 stig. 

Norðaustanlands hefur tíðin verið mildari en hér á Suðvesturlandi. Á Akureyri er hiti daganna þriggja ofan meðallags sömu daga 1961-1990 - en neðan tíuárameðaltalsins. 

En eins og getið var um í upphafi getur þetta veðurlag samt engan veginn talist alveg venjulegt. Miðja vestankuldapollsins er nú á Grænlandshafi, hann er í senn óvenjuöflugur og óvenjunærgöngull. Væri hann staðsettur norðaustan við land yrði hann okkur verulega illskeyttur.

w-blogg040518a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vind í fletinum og hita nú um hádegisbil 4.maí. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og bendir örin á línu 5060 metra.Hún liggur yfir Keflavíkurflugvöll. Þar fór klukkustund áður fram mæling á hæð flatarins og staðfesti hún tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar, hæðin mældist 5060 metrar. Þetta er næstlægsta 500 hPa hæð sem mælst hefur yfir flugvellinum í maí. Þann 3.maí 1963 mældist hún 5010 metrar, og jafnlág og nú 15.maí 1956. 

En við sjáum að ekki er langt í lægri tölur, flatarhæð í miðri lægðinni er ekki nema 4950 metrar - tilviljun ræður því að við fengum hana ekki yfir okkur. Þýðir einfaldlega að slíkt atvik bíður okkar einhvers staðar í framtíðinni. Eins og minnst var á á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum benda endurgreiningar til þess að við höfum fengið yfir okkur miðjur ámóta kuldapolla á árum áður og var minnst á tilvik 1934, 1930 og 1897 í því sambandi. Tilviljun ræður. 

Á kortinu að ofan sjáum við að mjög kalt er í miðju kuldapollsins, frostið rúm -40 stig. Mesta frost sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í maímánuði er einmitt -40 stig. Í dag (4.maí) er mældist það -34,0 stig, en -36,2 í fyrradag. Því er nú spáð að kaldast verði í 500 hPa-fletinum yfir Keflavík á morgun, laugardag, -37 stig rúm - en hæðin verði þá meiri en nú. 

Það loft sem yfir okkur er er mjög óstöðugt eftir langa ferð yfir hlýjan sjó. Hiti í 850 hPa-fletinum hefur þessa daga farið lægst niður í -7,8 stig yfir Keflavíkurflugvelli. Loft sem kemur úr norðri er ekki eins blandað og getur neðsti hluti veðrahvolfsins þá verið mun kaldari en það sem ofar er. Lægsti 850 hPa hiti sem við þekkjum í maí yfir Keflavík er -17,7 stig, tíu stigum lægri en nú. Hann mældist í kuldakastinu mikla í maíbyrjun 1982 og við minntumst á að ofan. 

Spár gera nú ráð fyrir því að mesti háloftakuldinn yfirgefi okkur á mánudaginn og við taki venjulegra hitafar. Það er samt ekki þar með sagt að veðrið verði alveg venjulegt því umhleypingar liggja í loftinu og djúpar lægðir (miðað við árstíma) verða á sveimi um Atlantshafið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 154
  • Sl. sólarhring: 200
  • Sl. viku: 2075
  • Frá upphafi: 2412739

Annað

  • Innlit í dag: 146
  • Innlit sl. viku: 1820
  • Gestir í dag: 134
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband