Snjókoman mikla syðst á landinu 2. maí 1948

Ritstjóri hungurdiska var í gær minntur á að nú væru liðin 70 ár frá snjókomunni miklu í Vestmannaeyjum og Mýrdal 1. til 2.maí 1948. Þetta er einhver ákafasta maísnjókoma (að magni til) sem mælst hefur hér á landi. 

island_1948-05-02-09

Kortið sýnir veðrið kl.9 að morgni þess 2.maí. Snörp smálægð er skammt undan Suðurlandi. Mikil fannkoma er syðst á landinu, smáél austanlands í hafáttinni, en heiðskírt norðantil á Vestfjörðum. Víða er frost.

Þá þegar mældist snjódýptin á Stórhöfða 40 cm. En mikið snjóaði eftir það og gerði Sigurður Jónatansson vitavörður og athugunarmaður tvær snjódýptarmælingar til viðbótar þá um daginn og ritaði í veðurskýrslu. Fyrst kl.12, en þá var dýptin komin í 60 cm, og kl.18 mældist hún 70 cm - nærri því eins og algeng skrifborðshæð. Morguninn eftir hafði aðeins sjatnað og dýptin þá mældist 65 cm. 

Veðurathuganir frá Stórhöfða 1. og 2. maí 1948 eru í viðhengi þessa pistils. Þar kemur fram að snjókoman byrjaði fyrir kl.9 þann 1. og stóð samfellt þar til eftir kl.21 þann 2. 

Þetta mun vera næstmesta snjódýpt sem nokkru sinni mældist á Stórhöfða. Mest varð hún 90 cm í mars 1968. Nokkrum sinnum hefur snjóað mikið á Stórhöfða í maí, snjódýpt var þar t.d.33 cm þann 1.maí 1981 og 20 cm þann 7.maí 1980. 

Snjókomunnar gætti á suðurlandsundirlendinu en annars var hún langmest á svæðinu frá Sólheimasandi austur á Síðu, auk Vestmannaeyja. Dýptin var ekki mæld á athugunarstöðvunum á Loftsölum og Vík í Mýrdal. En úrkoman í Vík mældist samtals 33,4 mm að morgni 2. og 3.maí. 

Dagblaðið Tíminn birti mánudaginn 3.maí tvær fréttir af snjókomunni:

Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Hér um slóðir gerði geysilega fannkomu. í fyrrinótt og framan af degi i gær, svo menn muna ekki annan eins snjó í mörg ár. Vindur var af norðri og norðaustri, en ekki hvassara en svo, að rétt dró í skafla. Er nú yfirleitt snjór í klyftir og jafnvel í mitti. Nær fannfergi þetta frá Jökulsá á Sólheimasandi austur á Síðu. Klukkan sex í morgun var tveggja stiga frost, en slaknaði móti sól. Samgöngulaust er í byggðarlaginu eins og gefur að skilja í slíku fannkyngi, og getur varla kallast fært milli húsa. Allir bændur voru búnir að sleppa sauðfé sínu, og er ekki enn vitað, hversu því hefir reitt af, en þó ekki búist við, að það hafi fennt, jafn lygnt og var.

Og undir fyrirsögninni: „Meiri snjór í Eyjum en sést hefir í áratugi“ segir:

Þau undur hafa gerst, að bifreiðaumferð í Vestmannaeyjum nær stöðvaðist vegna snjóa í gær og flugvélin getur ekki hafið sig á loft af flugvellinum þar vegna fannar. Venjulega sést varla snjór í Vestmannaeyjum á vetrum, og var einnig svo síðastliðinn vetur. En í fyrrinótt og fyrrihluta dags í gær kyngdi þar niður svo miklum snjó að þar er nú hnédjúp fönn yfir allt á jafnsléttu. Hefir ekki komið þar svo mikill snjór í 10-20 ár. Ekki er viðlit fyrir flugvélina að komast á loft af flugvellinum vegna snjósins (svo), og ekki er hægt að hreinsa völlinn með ýtum, þar eð um malarvöll er að ræða, enda engin tæki til slíks í Eyjum, meðal annars vegna þess, að alls ekki hefir verið búist við slíku fannfergi á vellinum.

Þó snjódýpt hafi oft mælst meiri en 70 cm á landinu í maí hefur það magn oftast verið fyrningar úr fyrri mánuðum - alla vega að hluta til. Metið er 204 cm sem mældust á Gjögri 1.maí 1990. Líklegt er hins vegar að snjókoman í Vestmannaeyjum og Mýrdal í maíbyrjun 1948 sé ein sú allra mesta á landinu í þeim mánuði. 

„Ástæða“ þessarar miklu snjókomu var kuldapollur sem kom úr vestri. Samspil rakrar austlægrar áttar í neðstu lögum veðrahvolfs og kaldrar vestanáttar efra olli því að lóðrétt jafnvægi lofts raskaðist, raka loftið lyftist og þéttist og féll síðan til jarðar sem snjór. 

Þess má geta að fjórum árum síðar, 1952, festi snjó á Stórhöfða 2.júní. Snjódýpt varð þó ekki meiri en 2 cm. Af þessu má sjá að snjókoma er langt í frá óþekkt syðst á landinu í maí og kemur einnig fyrir í júní. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 156
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 2077
  • Frá upphafi: 2412741

Annað

  • Innlit í dag: 148
  • Innlit sl. viku: 1822
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband