Kaldur ruðningur úr vestri?

Ástæða er reyndar fyrir spurningarmerkinu í fyrirsögninni. Aðallega vegna þess að loftið sem um ræðir er ekki svo óskaplega kalt - eða verður það ekki þegar hingað er komið. Aftur á móti hefur verið óvenjuhlýtt upp á síðkastið. Apríl það sem af er sá næsthlýjasti á öldinni og reyndar ekki margir í fortíðinni hlýrri heldur. 

Því má segja að vorið hafi nú um tíma farið nokkuð fram úr sér og boðið upp á hita sem venjulegur er um og eftir miðjan maí. Það eru því viðbrigði fari hitinn niður í meðallag eða jafnvel lítillega undir það. Tilfinningin er því sú að kalt sé í veðri.

En lítum á stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin stingur upp á að hún verði síðdegis á laugardag 28.apríl.

w-blogg270418a

Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar en þykkt sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Meðalþykkt um miðjan apríl er um 5290 metrar yfir landinu - á mörkum grænu og bláu litanna. Um miðjan maí er hún hins vegar komin upp í 5350 metra. Þetta segir okkur að á laugardaginn verði þykkt lítillega undir meðallagi. 

Leifar kuldapollsins Stóra-Bola eru hér vestan Grænlands og eiga víst (sé að marka spár) að senda afleggjara í átt til okkar - þá í gervi einskonar útsynnings. Þykktin fer þá neðar - jafnvel niður undir 5200 metra þegar kaldast verður eftir helgina - sem er reyndar svo algengt í maí að varla telst til tíðinda (teldust frekar tíðindi í júní). 

Ætli við sættumst ekki á að flytja spurningarmerkið framar í fyrirsögnina og breytum henni í „Kaldur (?) ruðningur úr vestri“. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það stefnir í svala daga svona að minnsta kosti er það ekki. Kröfurnar gagnvart veðrinu eru orðnar alveg ótrúlegar. Frost í einhverja daga á miðjum vetri og þá fer nánast allt á hliðina, ef ekki er bjart og kyrrt eftir páska þá er talað um leiðindatíð og svo sé nú ekki talað um sumarið þegar allt annað tíðarfar en 15-20 stiga hiti, sól og logn er bara alls ekki boðlegt. Mér finnst t.d. búin að vera afburðatíð sl mánuð eða svo, logn eða hægur vindur flesta daga, hiti nálægt frosti á nóttunni en oft 5-10 stig á daginn og betra hlýustu dagana fyrir nokkru. Mætti jafnvel rigna meira. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 27.4.2018 kl. 11:54

2 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Trausti, Átti bágt með að trúa hlýjum apríl, fannst helvíti kalt stundum. Skoðaði svo meðalhitann í Hólmsá við Gunnarsholt og sá að hann var sá mesti síðan 2007, 4,6 gráður bæði árin. Í fyrra var hitinn 3,4 og 4,4 í hitteðfyrra. 2015 var hann 2,7, enda var lélegt laxveiðiár, af smálaxi, árið eftir.  

Jón Kristjánsson, 27.4.2018 kl. 22:14

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Sæll sömuleiðis Jón. Gaman að heyra af ánum. Fyrsta aprílvikan var frekar köld, en síðan hlýnaði til muna og vorið fór langt framúr sér (í bili að minnsta kosti). 

Trausti Jónsson, 27.4.2018 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg160424b
 • w-blogg160424a
 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (18.4.): 21
 • Sl. sólarhring: 445
 • Sl. viku: 2263
 • Frá upphafi: 2348490

Annað

 • Innlit í dag: 19
 • Innlit sl. viku: 1982
 • Gestir í dag: 19
 • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband