Skýjabrún

Þeir sem horfðu til himins á Vesturlandi í dag (laugardag 21. apríl) gætu hafa veitt því athygli að langt yfir lægri skýjum lá blikubakki um allt austurloftið - en bjart var til vesturs. Í aðalatriðum var bakkinn á svipuðum slóðum allan daginn. Við skulum líta á gervihnattahitamynd sem tekin var nú í kvöld (fengin á vef Veðurstofunnar).

w-blogg210418a

Bakkinn „hringar sig“ í kringum lægð sem er suðsuðaustur af landinu. Lægðin hreyfist til norðausturs - en bakkinn helst á svipuðum slóðum þar til lægðin er komin hjá. Þó við orðum þetta svona - hringar sig - er það e.t.v. ekki mjög nákvæmt orðalag. Við látum okkur þó hafa það. Eins og venjulega er norðanátt vestan við lægðarmiðjuna - við sjávarmál. Í þeirri hæð sem blikan er á ferð er hins vegar sunnanátt.

w-blogg210418b

Hér má sjá sjávarmálsveðurkort. Vindörvar eru á kortinu ásamt sjávarmálsþrýstingi (heildregnar línur), úrkomu og fáeinum jafnhitalínum 850 hPa-flatarins (strikaðar). En sunnanáttin efra - hversu langt er upp í hana? Háloftaathugun sem gerð var rétt fyrir hádegi yfir Keflavíkurflugvelli sýndi vindáttaskipti í rúmlega 4 km hæð. Þar fyrir ofan var rakt lag - þar voru skýin þá í snarpri suðvestanátt, um 25 m/s. Nú undir miðnættið hafði sunnanáttin hörfað upp í 6 km og raka loftið var horfið (til austurs). Stöðin var komin vestur fyrir skýjabakkann - rétt eins og sjá má á gervinhattamyndinni. 

Þetta sést nokkuð vel á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir 300 hPa-flötinn og gildir kl.21 í kvöld.

w-blogg210418c

Flöturinn er hér í um 8840 metra hæð yfir Keflavík - norðvestanátt vestan við (sjá jafnhæðarlínurnar sem eru heildregnar - og vindörvar) - en sunnanátt austan við. Litirnir sýna hitann. Brúnu litirnir marka hærri hita en þeir grænu (kvarðinn skýrist nokkuð sé myndin stækkuð). Hlýindin vestan við land - einmitt á svæðinu hreina vestan blikunnar - sýna að þar ríkir niðurstreymi - mjög fjandsamlegt skýjum - mun kaldara er hins vegar yfir landinu - þar er uppstreymi - sem býr til blikuna. Mörkin milli upp og niðurstreymissvæða eru skörp - skýjabrúnin er það líka.

Allrahlýjast er þó á bletti sunnan lægðarmiðjunnar - þar hafa veðrahvörfin dregist niður - og vegna þess að þessi hlýi blettur og lægðarmiðjan sjálf eru ekki sammiðja gæti lægðin (niðri við sjávarmál) dýpkað nokkuð til morguns á leið sinni til Noregs (en það er önnur saga).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 68
  • Sl. sólarhring: 334
  • Sl. viku: 1641
  • Frá upphafi: 2466201

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 1505
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband