28.4.2018 | 23:15
Af árinu 1919
Árið 1919 hefur alltaf fallið nokkuð í skuggann af árinu á undan, en samt á það margs konar veðurtíðindi sem vert er að líta á. Árið var kalt - og tíð löngum stirð, en ekki er þó talað mjög illa um það - trúlega var mönnum létt eftir áföll ársins 1918 og að styrjöldinni og þeim vandræðum sem henni fylgdu var lokið. Minnisstæðustu tíðindi tengd veðri er snjóflóðahrinan mikla í apríl. - Tölur um meðalhita, úrkomu og fleira má finna í viðhenginu.
Hiti var lítillega ofan meðallags þrjá mánuði ársins, maí, júní og júlí, júlí hlýjastur að tiltölu. Hiti var rétt neðan meðallags í janúar, en mars var sérlega kaldur - og einnig nóvember. Sömuleiðis telst einnig hafa verið mjög kalt í apríl, ágúst og september.
Hæsti hiti ársins mældist á Seyðisfirði 7. júlí, 26,3 stig, en sá lægsti í Möðrudal þann 4. mars, -31,5 stig.
Talsvert vantar af hitamælingum einstaka daga í Reykjavík og mælingar féllu niður í Stykkishólmi í ágúst til desember, í eina skiptið frá hausti 1845 á þeim stað. Allmargir kaldir dagar komu þó fram í þeim mælingum sem þó voru gerðar á þessum stöðvum. Kaldir dagar voru margir í mars, sjö í Reykjavík, en sex í Stykkishólmi. Tveir dagar teljast mjög hlýir í Reykjavík, báðir í maí, 9. og 18.
Loftþrýstingur hefur aldrei mælst hærri í október en á Akureyri þann 26. 1919, 1044,7 hPa.
Hér má sjá loftþrýsting við sjávarmál að morgni hvers dags á landinu suðvestanverðu. Vegna eyðu í athugunum í Reykjavík varð að nota athuganir frá öðrum stöðvum suma daga. Óvenjulegt er hversu árstíðasveiflan er lítil. Þó þrýstingur fyrstu mánuði ársins væri e.t.v. ekki sérlega hár fór hann aldrei mjög neðarlega. Á þessari mynd aldrei niður fyrir 970 hPa fyrr en í desember. Þrýstingurinn var hins vegar óvenjulágur um tíma langt fram eftir júnímánuði. Haustið er einnig óvenjulegt. Algengast er að þrýstingur falli nokkuð ört í lok ágúst, en síðan verði nokkuð hik á fallinu seint í október og í nóvember. Í þessu tilviki varð hikið að áberandi þrýstirisi og meðalþrýstingur í október sá fjórðihæsti síðastliðin 200 ár að minnsta kosti - og vakti athygli erlendis eins og lesa má í fréttapistli hér að neðan.
Aðeins fimm dagar teljast óvenjusólríkir á Vífilsstöðum, einn í apríl, einn í júní, einn í júlí, einn í ágúst - og einn í nóvember. Óvenjusólarlítið var í maí, júlí og september. Mars óvenjuþurr vestanlands og maí var úrkomusamur.
Fréttaritið Fram á Siglufirði gefur okkur hina almennu lýsingu ársins 1919 10. janúar 1920:
Tíðarfar hefur verið fremur stirt [á árinu 1919]. Árið heilsaði með vægu frosti og hreinviðri. Snjór var nokkur á jörð og talið hagskarpt víða um land. Veðrátta harðnaði nokkuð snemma í janúarmánuði, mátti þó kalla góða tíð til þorraloka. Í fyrstu viku góu gekk í norðanhríðar með 15 17 stiga frosti hér norðanlands og mátti úr því heita þung veðrátta og snjóasamt um land alt fram yfir sumarmál. Var fönn hér norðanlands orðin mjög mikil og engu minni í þeim sveitum, sem að jafnaði eru snjóléttar. Um páskaleytið hlánaði lítið eitt, en eigi varð sú hláka að notum nema í lágsveitum.
Er hálfur mánuður var af sumri brá til suðaustanáttar og hlýinda. Hélst allgóð tíð fram yfir hvítasunnu og bjuggust menn við hinu besta með sprettu, en eftir hátíðina kólnaði veðrátta mjög og kom þá kyrkingur í gróðurinn. Beið hann þess eigi bætur aftur þó til hlýinda brygði um tíma og var jörð seint sprottin. Sunnanlands gengu hin mestu votviðri síðari hluta vors og þar til 16 vikur voru af sumri eða lengur. Austanlands var veðrátta aftur á móti óvenju hlý og þurr. Sólskin og hreinviðri vikum saman fram yfir miðsumar.
Síðari hluta sumars var hagstæð tíð til sláttarloka víðast um land, nema austanlands, þar gekk til votviðra er á leið. Haustið var framan af heldur stirt og kalt hér norðanlands, en síðari hlutann góð hausttíð. Vetur til ársloka hefir mátt heita góður. Hagskarpt var þó talið víða hér norðanlands nú undir árslokin. Valda því spilliblotar, því snjór er eigi mikill á jörð.
Janúar: Fremur hagstæð og snjólétt tíð. Hiti í meðallagi.
Morgunblaðið segir frá 9. janúar:
Tíðarfarið hefir verið stirt síðan um jól. Hefir snjóað nokkuð og skipst í bleytuhríðar og frost. Er því storka á jörðu og jarðlaust að kalla.
Þann 15. er frétt um snæljós í Morgunblaðinu: Snæljósagangur var mikill hér í allan gærdag frá morgni til kvölds og þann 20. segir blaðið að hláka hafi verið um land allt undanfarna daga. Þann 25. er frétt frá Seyðisfirði: Tíðarfar er framúrskarandi gott, hlákur að undanförnu og auð jörð í sveitum.
Vísir birtir 15. einnig fréttir af þrumum sem urðu í Reykjavík þann 14.:
Þrumur heyrðust hér nokkrar i gær síðdegis og eldingar sáust bjartar, en ekki fylgdi þessu neitt þrumuveður, þó að ekki væru það þrumur úr heiðskíru lofti.
Hálka hefur löngum gert mönnum lífið leitt - sérstaklega þegar hvasst er. Vísir segir þann 19.: Ofsarok og slagviðri gerði hér í gærkveldi, og svo var hált á götum að varla var stætt.
Veðurskeyti höfðu verið bönnuð í heimsstyrjöldinni - allt frá upphafi hennar. Morgunblaðið birti þann 25. janúar frétt um að banninu hafi verið aflétt:
Sunnudaginn milli jóla og nýárs voru fyrst send veðurskeyti héðan af landi til Kaupmannahafnar, eftir 4 1/2 árs bann. Veðurfræðin varð ófriðarþjóðunum að miklu liði, eins og kunnugt er, og þá lögðu Bretar bann við því, að veðurskeyti yrðu send héðan til Danmerkur, því að þá hefðu Þjóðverjar getað fært sér þau í nyt.
Þann 21. fórst báturinn Hersir í roki á Faxaflóa og með honum 5 menn. Undir lok mánaðar (eða þar um kring) fórst bátur úr Eyrarsveit og með honum 5 menn - en vindhviða sögð hafa átt þátt í því.
Á Akureyri varð hluti bæjarins oft fyrir ágangi Glerár - þó um það séu fáar fréttir í blöðum. Kannski svo sjálfsagt og algengt að ekki hefur þótt taka því að geta þess. En í frétt Morgunblaðsins 26. janúar er þess getið að í undirbúningi sé varnargarður við ána:
Varnargarður við Glerá. Nú er verið að undirbúa byggingu hans, búið að taka upp mikið af grjóti og verið að aka því á staðinn, þar sem garðurinn á að hlaðast. Er þetta verk hið þarfasta, því að allur ytri hluti bæjarins liggur undir stórskemmdum af völdum Glerár á vissum tímum árs.
Tíminn lofar tíðina þann 25. janúar:
Muna allir grimmdarfrostin sem voru í fyrra um þetta leyti. Nú hefir verið hláka og blíðveður alla vikuna.
Febrúar: Hægviðrasöm og hagstæð tíð fyrri hlutann, en síðan harðindaskorpa. Fremur kalt.
Ísafold segir þann 8.febrúar:
Veðráttan hefir verið með afbrigðum góð undanfarið, blíðviðri og stillur; gæftir góðar og mokafli þar sem til hefir spurst.
En svo urðu mikil umskipti. Morgunblaðið segir þann 18.:
Kuldaveðrátta er nú mikil um allt land. ... Vatnspípur sprungu víða hér í bænum í gær. Menn hafa átt svo mildri veðráttu að venjast það sem af er vetrinum, að þeir hafa ekki varað sig.
Og 22. segir frá snjókomu í sama blaði:
Snjóað hefir hér með meira móti undanfarna daga. Varð snjóþunginn svo mikill á símlínum hér í grennd að staurar brotnuðu og vírar slitnuðu. Er sagt að 14 staurar hafi brotnað á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Mars: Hríðar nyrðra framan af, en annars nokkuð hagstæð og þurrviðrasöm tíð. Mjög kalt.
Mjög mikið kuldakast gerði í upphafi mánaðarins. Morgunblaðið segir þann 3. mars að höfnin hafi verið manngeng. Þann 5. kemur fram í blaðinu að lögreglustjóri hafi lagt bann við umferð manna um ísinn, en þrátt fyrir það hafi hinir og aðrir verið þar á ferð eftir það. Þess er einnig getið að vatnslaust hafi verið í mörgum húsum í bænum undanfarna daga, jafnvel í öðrum eins stórhýsum og Hótel Ísland.
Tíminn segir frá því þann 5. að flóabáturinn Skjöldur hafi ekki komist inn til Borgarness í morgun vegna þess að fjörðurinn sé lagður svo langt út.
Vísir birti þann 9. bréf ritað þann 3.:
Austanfjalls 3. mars: Nú er hér hörkugaddur og norðanbál. En óvenjulega hefir veturinn samt verið góður og mildur til þessa. Snjór sjaldan legið á jörð til lengdar. Hálfsmánaðarpart nóvember. Hefir þessi góða tíð komið sér vel þar sem nokkurt gras hefir verið á jörðu, því heybirgðir manna voru af skornum skammti eftir sumarið. Bágast eru þær sveitir settar, svo sem Land og Rangárvellir, þar sem grasbrestur var svo mikill, að varla var nokkur blettur ljáberandi, einkum ofan til. Og svo kom askan úr henni Kötlu og eyðilagði þessa litlu grassnöp, sem áður var. Aðalhjálpin í sveitum þessum var sú, að margir áttu gamlar heyfyrningar. Samt er búist við því, að nokkrir bændur í báðum þessum sveitum, komist í heyþröng, einkum þó þeir, er engar gamlar heyfyrningar áttu, enda þótt þeir hafi mikið í sölur lagt til að búa sig undir veturinn.
Þann 9. segir Morgunblaðið frá illviðri sem gekk yfir þann 8. - og þann 10. og 11. eru af því smávegis framhaldsfréttir - dregið úr og í.
[9.} Versta veður var hér í allan gærdag, stórviðri og hríð með köflum. Engar munu þó skemmdir hafa orðið hér að ráði. Í Vestmannaeyjum var verra veður heldur en menn muna
dæmi til í mörg ár. [10.] Símslit urðu nokkur í rokinu í gær. [11.] Vestmannaeyjum, í gær. Í ofviðrinu á laugardaginn [8.] urðu hér feikna miklar skemmdir á síma- og rafleiðslu. Af 70 símastaurum, sem hér eru, eru að eins 10 uppistandandi, og við búið að það taki marga daga að bæta skemmdirnar. Rafleiðslan skemmdist og svo mikið, að öll hús eru ljóslaus. Á höfninni hér urðu sárlitlar skemmdir. Mótorskipið Reginn, eign Þorsteins kaupmanns Jónssonar frá Seyðisfirði, rak á land í Botninum, en þar er sandur, og mun skipið óskemmt. [14.]Fregnirnar um skemmdirnar í Vestmannaeyjum í laugardagsveðrinu [8.3.] hafa verið orðum auknar. T. d. höfðu ekki brotnað nema fáir staurar og rafljósaleiðslan var ekki í ólagi nema einn dag.
Fram (á Siglufirði) segir þann 15. að ís hafi sést um miðja viku úti fyrir Langanesi og Sléttu. Menn á Siglufirði hafi hins vegar gengið á hnjúka á fimmtudag [13.] og ekki séð neinn ís.
Þann 16. eru enn fréttir af þrumuveðri í Morgunblaðinu - í þetta sinn meira alvöru.
Klukkan tæplega 8 í gærmorgun kom hér hið allra mesta þrumuveður, sem menn muna eftir. Var ein skruggan svo mikil og gekk svo nærri, að líkast var því sem allt ætlaði ofan að ríða. Í sumum húsum, sem hafa rafljós, kviknaði sem snöggvast á þeim og brak og brestir heyrðust í öllum leiðsluþráðum. Á Vesturgötu hafði eldingu slegið niður í götuljósker, og víðar mátti sjá vegsummerki þess, að eldingin hafði farið býsna nærri.
Hvergi gerði þrumuveðrið jafn tilfinnanlega vart við sig eins og á loftskeytastöðinni. Laust eldingu niður í loftnet stöðvarinnar og brenndi sundur tvo þræðina af fjórum. En eigi var þar með búið. Eftir tengslunum milli loftnetsins og jarðleiðslunnar fór straumurinn gegn um sveiflubreytirinn (oscillatorinn") með svo miklum krafti, að hann sprakk í smámola. Þeyttust þeir eins og byssuhögl víðsvegar uni vélaherbergið, mölvuðu rúðurnar og skemmdu ýmislegt sem inni var. Hrökk vírbútur í gegn um hurðina á stofunni og var kringlótt gat eftir, líkast því sem kúlu hefði verið skotið á hurðina. Ampére-mælir á jarðleiðslunni eyðilagðist algjörlega og leiðslur kubbuðust í sundur. Var víða sót að sjá á veggjunum, sem leiðslurnar lágu um. Yfirleitt hefði maður getað ímyndað sér að lítil sprengikúla hefði sprungið inni í herberginu. - Ritsíma- og talsímasambandið við landsímastöðina slitnaði og rafljósalamparnir brunnu í sundur.
Vér áttum í gær tal við stöðvarstjórann, hr. Friðb. Aðalsteinsson. Kvað hann undirganginn hafa verið ferlegan, er eldingunni laust niður, og taldi hann líkastan því, sem að loftskeytamastrið væri að falla yfir húsið. Dyravörðurinn var alveg nýfarinn út úr vélaklefanum, er atburðurinn varð, og skall þar hurð nærri hælum, því engum mundi hafa orðið lífs auðið þar inni. Stöðvarstjórinn telur að stöðin muni geta tekið á móti skeytum eftir sem áður. En hins vegar muni það taka nokkurn tíma að koma senditækjunum í lag, og það, sem til þess þarf, verður að fá frá Englandi. En til bráðabirgða telur hann reynandi að setja upp stöðina úr Goðafossi", sem hér er geymd, eða jafnvel að reyna að bæta sjálfa stöðina með tilsvarandi áhöldum úr stöðinni, sem á að fara til Flateyjar. Stöðvarstjórinn segir, að það sé tiltölulega fátítt, að eldingum slái niður í loftskeytastöðvar. Þó hefði þetta komið fyrir við Bergen 1914. Telur hann hægt að varna algjörlega skemmdum á vélum af þrumuveðri með því að láta leiðsluna frá loftnetinu ganga beint í jörð, þegar ekki er verið að nota stöðina. Hafi ekki verið álitin þörf á því þegar stöðin var reist hér, því möstrin séu svo góðir leiðarar, að þau taki venjulega skellinn af loftnetinu.
Svo komu fyrstu snjóflóðafréttirnar af mörgum og slæmum, Tíminn segir frá þann 25.:
Aðfaranótt 16. þ. m. féll snjóflóð á bæinn Strönd i Reyðarfirði. Ragnheiður dóttir bóndans þar, 18 ára að aldri, fórst i flóðinu og hefir lík hennar fundist. Bóndinn, Kristján Eyjólfsson, náðist nær dauða en lifi, hafði brot úr reykháfnum þrengt að honum, komu fram á honum meiðsli og liggur nú rúmfastur. Kona hans, mágur og þrír ungir synir komust heil á húfi úr flóðinu. Eignatjón bóndans metið 7 til 8 þús. kr. Sama dag féll snjóflóð á Eskifirði, jafnaði við jörðu 1 hlöðu og hjall og steinsteypufjós eign Friðgeirs Hallgrímssonar, 2 kýr fórust, 1 bjargaðist. Hesthús fór og, og veiðarfæri, matbjörg og steinolía. Enn fremur hljóp flóðið i gegnum hús í smíðum, eign V. Jensens kaupmanns. - Snjóflóð fyllti og hús á Hrúteyri í Reyðarfirði. - Enn fór snjóflóð í gegnum hús Halls Pálssonar á Fáskrúðsfirði, sama dag. Sagt er að á Fáskrúðsfirði hafi alls brotnað í flóði 8 róðrarbátar. - Loks hljóp snjóflóð á fjárhús í Firði i Mjóafirði og drap 15 kindur og meiddi margar.
En góðir dagar komu. Morgunblaðið segir þann 21.: Vorveður mátti kalla hér í gær, sólskin og logn allan daginn. - En þann 27.: Norðangarð gerði hér í fyrrakvöld með harðviðri sem hélst í allan gærdag. Og þann 29. segir blaðið: Sjávarkuldi er svo mikill þessa dagana að jafnvel í gær krepjaði höfnina hérna.
Aðfaranótt þess 29. brunnu þrjú hús á Seyðisfirði í snörpum norðanvindi og hríð. (Morgunblaðið 30. mars).
Apríl: Lengst af hagstæð tíð syðra, en hríðarveður nyrðra, einkum fyrri hlutann. Kalt.
Slæmar fréttir bárust frá Siglufirði. Lítum fyrst á stutta fregn í Fram þann 5.:
Snjókoma hefur verið mikil í vikunni, en veður frostlaust eða frostlítið, og stillt.
Þann 12. segir blaðið:
Veðrið: Sunnudag [6. apríl] og mánudag mátti heita stillt veður, en þriðjudagsmorguninn [8.] gerði hér ofsaveður á austan, norðaustan, með mikilli fannkomu, er hélst allan þann dag. Hefir sú átt haldist síðan með mikilli snjókomu; og er hér nú afskaplega mikill snjór svo að illfært er húsa milli. Alla vikuna mjög frostlítið.
Ofsaveður gjörði hér síðastliðinn þriðjudag [8.]. Skúr sem Even Johansen vélasmiður hefur haft verkstæði sitt, fauk af grunninum og mölbrotnaði; þakið fauk á ljósleiðslustaur og braut hann, og urðu fyrir þá sök allir á Kambinum að sitja í myrkrinu. - Slík húsfok eru óafsakanleg, og mega þeir menn helst kenna sér um, sem orðið hafa til þess að tefja hér framgang byggingarsamþykktar, því að þar yrðu auðvitað reistar skorður við því að byggð yrðu hrúgatildur, sem fjúka í fyrsta roki og geta ráðið fjörtjóni á mönnum og skepnum og stórskemmt eigur manna. - Því er miður að Even Johansen mun hafa beðið töluvert tjón af þessu.
Ógurlegt snjóflóð féll hér austan fjarðar í nótt [aðfaranótt 12]. Tók yfir um 1000 faðma svæði. Sópaði sjö húsum út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri-Skútu. 16 manns lentu í flóðinu. 7 náðust lifandi eftir 10 tíma. 9 manns ófundið ennþá og talið af. Flóðbylgjan æddi hér yfir á eyri og gerði stórskaða. Tjónið um 1 1/2 miljón kr. Eftir því sem vér best vitum enn þá verða menn fyrst varir þessa voða viðburðar þannig, að um kl.4 í nótt verður vökumaður á M.S. Æskan, sem lá við Lýsisbryggju svokallaða, sjónarvottur þess, að flóðbylgja ógurleg kemur æðandi austan yfir fjörðinn. Sá hann um leið að fjörðurinn var snjóhvítur, og hyggur í svipinn að hafís sé þar kominn. Flóðbylgjan æðir á land upp með afskaplegum aðgangi, og tók t.d. skip þetta sjó inn að lúkugötum um leið og bylgjan reið yfir.
Afleiðingar flóðbylgjunnar urðu hroðalegar. Utan frá Bakkevig og alla leið suður til Roalds eyðilögðust allar bryggjur meira og minna, og svo var afl bylgjunnar mikið að tvö fiskiskip Sam. verslananna, sem á landi stóðu, fluttust úr stað, en mótorbátar og smærri bátar, lágu sem hráviði hér og þar, um eyraroddann, m.b. Georg spónmölvaðast, og mótorbátur sem lá upp við Roaldsbryggju hentist á hvolf.
Er menn sáu þessar aðfarir hér, varð mönnum ljóst að snjóflóð mundi hafa hlaupið úr fjallinu austan fjarðarins, og þaðan stafaði flóðbylgja þessi, en ekkert mátti sjá vegna hríðarsorta og myrkurs, Þegar birta tók af degi rofaði snöggvast svo að sást austur yfir fjörðinn, brá mönnum þá mjög í brún, því að af sjö húsum, sem stóðu hér beint á móti eyraroddanum var aðeins eitt eftir. Eigi gátu menn séð bæinn Neðri-Skútu, eða íbúðarhús er þar stóð fyrir neðan á sjávarbakkanum. Var þá brugðið við svo fljótt sem unnt var. Fjöldi manna fór austur yfir, ef ske kynni að eitthvað mætti aðhafast þrátt fyrir illviðrið, því þar höfðu sjáanlega gerst hörmuleg tíðindi. Þegar menn komu yfir um, sáu menn að afarmikil snjóskriða hafði fallið úr fjallinu fyrir ofan Staðarhól, klofnað á hól nokkrum fyrir ofan bæinn og aðalflóðið hlaupið að sunnanverðu, og Neðri-Skúta lent alveg í suðurjaðri þess, var allt þetta svæði ein auðn, þar stóð ekki steinn yfir steini, og eyðileggingin afskapleg. Síldarbræðsluverksmiðja Evangers og 5 önnur hús þeim tilheyrandi, hús Benedikts Gabríels Jónssonar, og bærinn Neðri-Skúta var alt sópað burtu, og engin lífsmerki sjáanleg á öllu þessu svæði.
Í húsum Evangers bjuggu: Knut Sæther umsjónarmaður og kona hans, og Friðbjörn Jónsson húsmaður með konu og barni, og varð leit að þeim árangurslaus, enda stóðu húsin rétt við sjóinn, og hafa sópast út í fjörð í einni svipan. Í húsi Benedikts Gabríels, bjó hann með konu og 2 börnum, og var sjáanlegt að þar mundi hafa farið á sömu leið. Í Neðri-Skútu bjó Einar bóndi Hermannsson með konu sinni, þrem börnum sínum, fósturbarni og gamalli konu. Menn sáu þegar að hér var sá staðurinn er sennilegast væri að líf leyndist, þó ýmislegt benti til hins gagnstæða þar eð búshlutir og innanstokksmunir höfðu fundist víðsvegar í flóðinu, og mikill hluti bæjarins hafði farið langar leiðir og tæst sundur. Var þá farið að grafa til þess að leita bæjarleifanna, og urðu menn þess varir áður en langt um leið, að eitthvað af gamalli baðstofu mundi vera þar undir, og kunnugir vissu að þar hafði fólkið sofið, Um kl.2 var búið að grafa upp baðstofuna og ná öllu fólkinu lifandi. Þar lá það í rúmum sínum skorðað milli rúma og súðarinnar, sem fallið hafði niður, og hvíldi nú á rúmstokkum og gólfi. Var það mikið þjakað og nokkuð meitt, sem von var eftir 10 tíma dvöl í slíkum heljargreipum, en var þó með ráði og rænu, nema sonur hjónanna Hermann, hann var meðvitundarlaus, lá hann og allur í fönn, var svo fólkið alt flutt að Árbakka, er standur þar litlu sunnar. Vaknaði Hermann þar skjótt til meðvitundar, og gera menn sér nú vonir um að allt fólkið muni komast til heilsu. Sjálfsagt verður leitinni haldið áfram, en því er miður að hún er að sögn þeirra er komið hafa á vettvang, vonarlítil.
Tjónið af öllu þessu er stórkostlegt, fyrir utan mannslífin. Auk allra þessara húsa sem upp hafa verið talin hefur fjöldi annarra mannvirkja austan fjarðarins eyðilagst, bæði bryggjur og uppfyllingar. Húsin voru flest full af tómum tunnum, og þar lágu einnig um 1000 föt af lýsi, og fjölda margir snurpinótabátar, sem alt hefur meira og minna eyðilagst, og mun óhætt vera að fullyrða að tjónið sé ekki minna austan fjarðarins og vestan, en 1 til 1/2 miljón krónur.
Fólkið í Skútu hefur misst aleigu sína, að undanteknum fáeinum kindum sem voru í húsi lítið eitt sunnan við bæinn, og slapp, 2 kýr bóndans voru dregnar dauðar upp úr fönninni í dag.
Ekki voru þetta öll voðatíðindin - Fram segir frá þann 19. apríl:
Tíðin: Sunnudag [13.] og mánudag sama snjókoma og mikill stormur, alltaf norðaustan. Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag [17.] mjög gott veður, sólbráð hvern dag og hiti. Í gær kólnaði nokkuð aftur með snjókomu; áttin norðvestan; frost í gærkvöldi 3 gráður. í dag er rosaveður þvervestan,en bjart og frostlaust.
Snjóflóð í Þorgeirsfirði um síðustu helgi; hljóp á fjárhús, á bænum Kaðalstöðum [þessi bær mun vera í Hvalvatnsfirði], eign Björns Líndals á Svalbarði, sópaði því burt og grandaði á 2 hundrað fjár, mestmegnis sauðum. Snjóflóð í Ólafsfirði fyrra föstudag [11.]; brýtur fimm símastaura, muna menn ekki eftir því að snjóflóð hafi fallið á þeim stöðvum áður, vestan fjarðarins.
Voðasnjóflóð enn, 9 manns ferst. Þriðjudag 15. þ.m. komu menn úr Héðinsfirði hingað og sögðu þau hryggilegu tíðindi, að í Héðinsfirði hefðu fallið mörg snjóflóð um síðustu helgi, og tvö þeirra orðið mannsbanar. Hið fyrra þeirra snjóflóða féll laugardaginn 12. þ.m. um kl.3 síðdegis úr svokallaðri Víkurbyrðu, og fórst þar bóndi frá Vík Páll Þorsteinsson að nafni, maður á besta aldri, frá konu og 1 barni, var hann á heimleið frá beitarhúsunum í Vík. Allir bændurnir þrír voru á beitarhúsunum þennan dag en Páll heitinn varð þeirra fyrstur til heimferðar - og skildi það. Lík hans var ófundið er síðast fréttist. Snjóflóð hafa oft fallið á þessum stað og orðið mönnum að bana; árið 1841 fórust í snjóflóði á sama stað 2 giftir bændur frá Vík, Jón Jónasson og Jón Jónsson, voru þeir einnig á heimleið frá beitarhúsunum.
Síðara flóðið féll um kl. tvö á sunnudaginn úr fjallinu fyrir ofan Ámá, fremsta bæ í Héðinsfirði hljóp það á fjárhús í túninu á Ámá og fórst þar Ásgrímur sonur Erlends bónda 24 ára gamall. Í flóðinu lentu einnig 37 ær og fórust flestar. Annar maður var nýgenginn frá fjárhúsinu til annars fjárhúss skammt frá, það hús slapp hjá flóðinu. Héðan fóru menn til Héðinsfjarðar á þriðjudaginn, ef hugsanlegt væri að einhverju yrði bjargað, fundu þeir eftir nokkra leit Ásgrím örendan í heytóft áfastri fjárhúsinu og 8 ær lifandi.
Mótorbátur frá Hofsós hafði verið veðurtepptur hér í Siglufirði alllengi. Þriðjudaginn, síðdegis [15.], hélt hann heimleiðis og morguninn eftir bárust þau skeyti hingað frá honum, að hann hefði eigi séð bæinn Engidal, er hann sigldi þar hjá, og enga mannaferð þar, en þóttist aftur á móti hafa séð að snjóflóð mundi hafa fallið upp undan bænum. Var þá þegar brugðið við héðan; og sendur vel mannaður mótorbátur vestureftir. Gerðu menn sér þó vonir um að hér hefði eigi fallið snjóflóð sem að grandi hefði orðið, því í manna minnum hafði ekki snjóflóð hlaupið á þessum stað, hugðu menn fremur að bæinn hefði fennt í kaf, því eigi sést af sjó utan.
Önnur varð þó raunin á, því þaðan átti maður eftir að frétta máski hroðalegustu viðburðina. Hafði afarmikið snjóflóð fallið um þveran dalinn, og síðan ofan eftir honum, hlaupið á bæjarhúsin og grafið þau, en eigi náð peningshúsum er stóðu nær sjónum. Sást þar ekkert líf heima við, þar er bærinn hafði staðið, nema hundur einn, sem var þar á vakki. Sáu menn hvar héppi hafði grafið sig upp úr flóðinu, og að hann var blóðugur og rifinn á löppunum. Haus á dauðu hrossi sást upp úr fönninni og kofarústum rétt fyrir neðan bæinn. Var þegar farið að moka upp bæjarrústirnar, og er þar skemmst af að segja að heimilisfólkið alt 7 manns fannst þar örent í bæjarbrotunum undir 4 til 5 álna þykku flóði. Var fólkið allt í rúmunum, svo snjóflóðið hefur fallið á náttarþeli, og miklar líkur til að verið hafi sömu nóttina og voðaflóðið féll hér í Siglufirði, því líkin voru mikið farin að rotna. Seint um kvöldið var búið að ná öllum líkunum, og voru þau flutt hingað til Siglufjarðar á fimmtudagsmorguninn.
Af skepnum fórust þarna: 2 kýr, 1 hross, 6 kindur, 2 hundar og köttur. Fjárhúsin stóðu utar og neðar í túninu og hafði þau ekki sakað. Fullorðna féð og hross höfðu legið við opið og því farið út þegar veður batnaði enda virtist því líða nokkurn veginn vel. Í öðru húsi voru lömb og eitt hross, hafði það eigi komist út því húsið var birgt, og voru lömbin svo hungruð að þau höfðu étið ull hvert af öðru, mold úr görðum og veggjum og taglið af hrossinu, en virtist vel lifandi.
Þegar birti upp var hafin leit eftir líkum þeirra sem fórust hér í Siglufirði, hefur síðan verið leitað alla daga og nætur með hverri fjöru, og eru nú 6 lík fundin, lík Knud Sether, og konu hans, Benedikts Gabríels, konu hans og eldri dóttur, og lík Guðrúnar konu Friðbjarnar. Héraðslæknirinn fullyrðir að fólkið héðan hafi allt dáið samstundis, en sumt af Engidalsfólkinu hafi ef til vill lifað eitthvað, en telur þó öruggt að meðvitund þeirra sem ekki hafi dáið þegar í stað, hafi horfið álíka fljótt og meðvitund þeirra sem lenda í kæfingu. Læknirinn álítur því að vér megum vera fullvissir um það að dauðinn hafi komið að fólkinu meðvitundarlausu, og að ekki geti verið að ræða um þungt helstríð, þeir sem eitthvað hafi lifað eftir að slysið bar að höndum hafi liðið jafn hóglega yfrum sem hinir, sem þegar í stað létu lifið. Alla dagana hafa mótorbátar og smábátar verið á ferð fram og aftur um fjörðinn, að tína saman síldartunnur og timburrekald, munu hafa náðst um 1500 tómar síldartunnur og allmikið af timbri mjög brotið og sundurtætt, mikið af því aðeins eldsmatur. Höfnin hefur verið hroðaleg útlits þessa daga, full af óhreinni krapstellu, spítnarusli og tunnum. Innan til mun hún og alls ekki vera trygg til umferðar stærri skipum, eins og stendur. Menn vita alls ekki hve langt vélar og járnbitar hafa henst út á fjörðinn, því það hefur ekki verið hægt að rannsaka enn þá. Ekki var unnt að vinna að björgun á höfninni í gær vegna veðurs. Tjónið hefur heldur ekki verið hægt að gjöra upp nákvæmlega enn þá.
Og enn snjóflóð. Morgunblaðið segir frá þann 26.:
Borðeyri, í gær. Annan páskadag [21.4.] féll snjóflóð á Leikskálum í Haukadal í Dalasýslu. Drap það 110 ær, eyðilagði fjárhús, mikið af heyi og helming túnsins. Kuldi og norðaustan stormur í gær og í dag.
Þann 14. segir Vísir frá snjóþyngslum á Seyðisfirði:
Snjór er nú meiri um allt Norður- og Austurland en menn muna til. T.d. er sagt að snjórinn sé viða tveggja metra djúpur á götunum á Seyðisfirði. Óttast menn mjög snjóflóð þar eystra og sagt að menn hafi flúið sum húsin sem hættast er.
Daginn eftir segir í Vísi:
Frá Seyðisfirði barst sú fregn í gær, að snjór hefði runnið þar fram á Fjarðarströndina fyrir utan kaupstaðinn og yfir eitt hús. Var fólk flúið úr húsinu og óvíst um hverjar skemmdir hafa orðið.
Þann 19. kom fram að annað flóð hafi einnig fallið á Fjarðarströndinni á Seyðisfirði og brotið 3 símastaura.
Undir lok mánaðar bárust aftur fréttir af hafís - óljóst er hvort hafíss varð vart við Súgandafjörð eða hvort aðeins var um lagnaðarís af fjörðunum að ræða. Morgunblaðið segir frá þann 28.:
Frá Raufarhöfn er símað, að frá Hraunstanga á Melrakkasléttu hafi sést allmikill hafís, en sýn til hafs verið slæmt, svo að eigi sé hægt að segja með vissu um það, hvort hér sé um meiriháttar ísrek að ræða, eða aðeins hroða. Frá Brekku í Núpasveit er símað, að hafís sé að reka inn Axarfjörð að austan, en íslaust sé frá Mánáreyjum til Grímseyjar, að því er séð verði. Frá Hraunum í Fljótum er tilkynnt að íshroði sé þar fram undan, en ekki mikill.
Svo kom leysing. Fram segir frá 3. maí:
Tíðin hefir verið fremur óstillt þessa viku. Fyrripartinn var góð leysing og tók mikið upp, en síðari part vikunnar hefir verið talsverð snjókoma, og nokkurt frost.
Þrjú vatnsflóð. Leysing var svo mikil í Svarfaðardalnum um síðustu helgi [26. til 27. apríl] að 3 vatnsflóð æddu þar á sléttlendinu og gerðu skaða. Á Syðra-Garðshorni hljóp vatnsflóð á fjárhús með 13 kindum, kippti því upp af grunni, og drukknuðu allar kindurnar. Á Ytra-Garðshorni hljóp vatnsflóð í fjós, drukknaði þar kálfur, en kúnum varð bjargað, á sama bæ tók flóðið nokkuð af heyjum og skemmdi peningshús. Á Blakksgerði hljóp vatnsflóð á bæjarhúsin og hálffyllti þau, en gerði lítinn skaða. Fullorðinn karlmaður lenti þar í flóðinu og barst með því um 200 faðma, áður en hann bjargaðist úr því. Ekki voru vatnsflóð þessi í neinu sambandi við ár eða læki, en snjórinn var afskaplega mikill og leysingin snögg.
Apríl lauk kuldalega. Morgunblaðið segir frá þann 1.maí: Blindhríð var hér í bænum um tíma í gær og kom aldrei jafndimmur bylur í vetur. Mun það sjaldgæft að slíkt veður sé hér viku af sumri. [Sumardagurinn fyrsti var þann 24.].
Maí: Nokkuð votviðrasamt syðra, en annars hagstæð tíð. Fremur hlýtt.
Mánuðurinn byrjaði kuldalega. Morgunblaðið birti þann 3. fréttir frá Borðeyri og Blönduósi. Meðal annars fleiri snjóflóðatíðindi úr Dölum:
Borðeyri, í gærmorgun [2.]. Hér hefir verið hríðarveður í tvo undanfarna daga og kominn nokkur snjór, en áður var hér snjólaust að kalla mátti. Lagís er á öllum firðinum hér innan við Borðeyri. Vélbáturinn Ingibjörg" kom til Blönduóss í fyrradag og hafði hvergi orðið var við hafís á leið sinni frá Reykjavík. Tvö snjóflóð féllu nýlega í Laxárdal. Kom annað á bæinn Hornstaði og skemmdi þar túnið nokkuð. Hitt kom á bæinn Gröf, en gerði litlar eða engar skemmdir. Veturinn hefir verið ágætur hér um slóðir, hefir útibeit verið góð víðast hvar og bændur því vel birgir að heyjum. Hafa þeir og sparað þau allmikið með því að gefa síld til fóðurbætis. Sýslufundur Strandasýslu stendur yfir þessa dagana.
Blönduósi í gær. Hér mátti heita blindhríð í fyrradag [30.apríl], og eins var hríðarveður í gær, en þó nokkru bjartara. Í morgun [2.] var hríðarfjúk, en þó bjart veður, en um miðjan dag skall á með hríðarbyl, og má nú heita versta stórhríð af hánorðri. Þó er ekki mikið frost. Nokkur jörð hefir verið að undanförnu hér í niðursveitunum, en fram til dala er mikill snjór og hagleysi. Eru bændur þar að komast í heyþrot, en hér í grennd eru flestir allbirgir enn. Útlitið er þó hið ískyggilegasta.
Fleiri fréttir bárust af hafís. Morgunblaðið segir þann 5. og 8.:
[5.] Frá Arnarfirði var símað í morgun, að kútter Elisa", eign þeirra Proppébræðra, hefði komið þangað inn nokkuð brotinn. Sagði skipið að mikill hafís væri úti fyrir, alla leið suður fyrir Arnarfjörð. Segir og í skeytinu, að illt útlit sé þar vestra. Á Norðurlandi er grenjandi stórhríð. Sterling liggur á Sauðárkróki og getur ekkert aðhafst vegna veðurs.
[8.] Hafís frá Skaga að Barða. Vb. Ingibjörg kom hingað í gær beina leið frá Steingrímsfirði. Hafði séð óslitinn ís alla leið frá Horni og suður fyrir Arnarfjörð, en eigi var hann svo þéttur, að hætta væri að sigla í gegn um hann. Þegar báturinn fór framhjá Horni, sá hann yfir ísinn mörg siglutré inni á Hornvík, og sýndist eigi betur, en skipin hefði hleypt þar upp í sand undan ísnum. Á Ísafirði var hafís kominn inn að Tanga í gær. Vb. Hvítingur frá Akureyri kom hingað í fyrrinótt. Hann segir jafnan, samfelldan hafís frá Skaga að Barða hjá Dýrafirði. Fram undan Aðalvík og Ísafjarðardjúpi var ísinn svo þéttur, að eigi voru tiltök að sneiða milli jakanna, heldur varð báturinn bara að sigla beint á ísinn. Mikinn snjó sagði hann fyrir norðan og bændur í Siglufirði uppiskroppa að heyjum.
Sunnanhláka var í gær um land allt. Er vonandi að framhald verði þar á, og getur þá verið að betur rætist úr en á horfðist um skepnuhöld bænda.
Undir lok mánaðar voru betri horfur. Morgunblaðið þann 26.:
Öndvegistíð er nú um allt land og bestu horfur. Er allt útlit fyrir, að betur fari með skepnuhöld en á horfðist fyrir mánuði, því hey voru víða orðin afar lítil.
Morgunblaðið segir þann 12. júní frá því að steinsteypubrúin á Giljá í Húnavatnssýslu hafi fallið í leysingum (dagsetningar ekki getið). Hún var nýbyggð að heita mátti.
Vísir segir 4. júní frá skriðuföllum í Langadal (dagsetningar ekki getið):
Aurskriður féllu nýlaga á túnin á Strjúgi og Gunnsteinsstöðum í Langadal i Húnavatnssýslu og gerðu mikið tjón. Hafði skriðan lagt undir meira en helming túnsins á Strjúgi, að sögn, en minna af Gunnsteinsstaðatúninu, og loks urðu nokkrar skemmdir af skriðum á jörðinni Æsustöðum.
Júní: Byrjaði vel, en síðan komu hret. Úrkomutíð á Suður- og Vesturlandi.
Fram lýsir tíðinni nyrðra vel í fjórum stuttum pistlum:
[5.] Það sem af er vikunni hefur verið öndvegistíð, logn hér inni, og hitar miklir, en loftþykkt einatt, og útifyrir vestanátt.
[14.] Hvítasunnudagarnir [8. og 9.] voru kaldir báðir og norðanátt; var hríðarslitringur hvítasunnudag en festi þó engan snjó. Á þriðjudag og miðvikudag hlýtt og stillt veður, fimmtudagsnótt [12.] gerði ofsaveður sunnan og gátu bátar ekki róið þann dag. Í gær blíðuveður. Í dag stillt en fremur kalt, en stormur útifyrír.
[21.] Kuldaveðrátta alla þessa viku þokur tíðar og norðanátt ríkjandi, hefir þó ekki fest hér snjó. Hefur verið kalt um allt land, einkum á Suður- og Vesturlandi. Fennt niður í mið fjöll syðra, og á Ströndum varð alhvítt niður að sjó fyrripart vikunnar.
[28.] Fyrripart vikunnar hægviðri og sólfar lítið. Hvass á sunnan á fimmtudaginn [26.]. Í gær rigning einkum seinni partinn og í gærkvöld og snjóaði ofan í miðjar hlíðar í nótt. Í dag er að birta upp og veður stillt en kalt.
Fyrsta vikan var líka góð syðra. Morgunblaðið segir frá þann 5.:
Ágæt sprettutíð er nú hér sunnanlands, og þarf tæplega goðaeyru til þess að heyra grasið spretta. Haldi þessu áfram, verður þess ekki langt að bíða, að tún hér í bænum verði sláandi.
Það kólnaði með hvítasunnunni og Morgunblaðið segir frá kulda um miðjan mánuð - fyrst þann 14.: Kuldatíð hefir verið hér undanfarna daga og jafnvel gengið á með éljum öðru hvoru. Sólskin var þó lengst af í gær, en kuldastormur allan daginn. Þann 16. kemur fram að einnig er um óþurrka að ræða: Óþurrkatíðin, sem verið hefir hér fram að þessu, hefir þegar valdið allmiklu tjóni ,hér, þar sem víða er ekki enn farið að sá í matjurtagarða vegna bleytu. Og kuldarnir síðustu daga hafa komið kyrking í allan gróður, sem kominn var. Þann 19. segir Morgunblaðið frá Hólmavík þann 17. að þar væri alhvít jörð niður í sjó og fannkoma.
Vísir segir frá þann 18. júní: Mikil rigning var hér í morgun. Frost var hér afafaranótt mánudagsins [17.] sem sjá má merki á trjám og blómum í görðum.
Júlí: Óþurrkatíð á Suður- og Vesturlandi, en góð tíð norðaustanlands framan af. Fremur hlýtt, einkum norðaustanlands. Íshrafl var á Húnaflóa.
Sunnanlands var kvartað um óþurrka, dæmi er frétt í Morgunblaðinu þann 8.:
Gott veður var hér i gærmorgun og sá til sólar, en slíkt er nú orðið sjaldgæft, enda varð sólskiníð endasleppt, því að komin var rigning laust eftir hádegi og rigndi allan daginn. Vegna óþurrkanna horfir til vandræða með fiskverkun og töður eru þegar farnar að skemmast á túnum hér.
En þann 12. sagði blaðið: Þurrkurinn kom í gær. Hans hefir lengi verið beðið með óþreyju. Fiskur lá undir skemmdum vegna óþurrka.
Tíminn segir sama dag:
Brá til norðanáttar og þurrks í gær. Hefir mjög lítið sprottið undanfarið hér syðra vegna kulda, en á Austur- og Norðurlandi hafa verið óvenjumiklir hitar. Sláttur er byrjaður almennt hér um slóðir.
Þann 16. júlí birti Morgunblaðið frétt af afleiðingum Kötlugossins:
Í vor sendu flestar sveitir í Vestur-Skaftafells- og Rangárvallasýslu menn inn í óbyggðir til þess að skoða afrétti. Hafa þeir sömu söguna að segja, nær allir: Afréttirnir eru svo stórskemmdir að ekki er viðlit að reka fé þangað í sumar. Skástu blettirnir, sem áður voru, eru undir ösku, og varla sést nokkurt stingandi strá svo langt sem augað eygir.Afleiðingin af þessu verður sú, að allur sauðfénaður í þessum sveitum verður að vera í heimahögum í sumar. En þeir eru verri undir en vant er, vegna öskufallsins í fyrrahaust. Bændur eystra hafa því ekki bitið úr nálinni einn, hvað snertir Kötluspellin.
Nú berast enn ótíðindi að austan. Alla síðustu viku hafa þurrkar verið og norðanátt í Skaftafellssýslu, en eigi höfðu þeir staðið lengi er mistur fór að sjást í lofti og ágerðist það eftir því sem á leið. Á laugardaginn var [12.] voru Skaftfellingar nokkrir á ferð á Mýrdalssandi og var þá mistrið svo mikið að skuggsýnt var á sandinum um miðjan daginn. Skaftártungan hefir orðið verst úti af þessu nýja öskufalli. Þar var jörð orðin græn og falleg, en síðan mistrið fór að gera vart við sig hefir komið kyrkingur í allan gróður og lauf fölnað á skógi. Á Síðunni hefir mistrið einnig spillt miklu.
Þann 17. segir Morgunblaðið að seinni partinn í gær hafi kólnað mjög í veðri og snjóað hafi í Esjuna. Þann 19. er enn kvartað um þurrkleysi fyrir austan fjall og þar sé heyskapur óvíða byrjaður. Síðan segir: Versta veður var fyrir norðan og vestan í fyrradag og kváðu ýmis síldarveiðaskip hafa orðið fyrir tjóni - misst bæði báta og síldarnet. Vísir segir sama dag að á Ísafirði hafi hvítnað niður undir sjó. Snjór hafi fallið víða um Norðurland.
Þann 8. ágúst birti Vísir fregn um skriðuföll i Eyjafirði:
Föstudaginn 18. júlí gerði fádæma rigningu um Eyjafjörð og féll þá aurskriða mikil á engjaspildu í Öxnafelli og tók af um 100 hesta engi. Sama dag féll önnur skriða skammt frá Munkaþverá, sem tók af eitthvað af kúahögum þar i Tungunum, og drap að minnsta kosti 5 kindur.
Þann 27. segir Morgunblaðið að 33 stiga hiti hafi verið á Þingvöllum kl.4 í gærdag.
Fram segir ísfréttir þann 19.júlí: Haft er eftir skipum sem að sunnan hafa komið að töluvert hrafl sé í Húnaflóa, en annars höfum vér eftir selveiðara sem kom norðan og vestan úr höfum nú í vikunni, að hann varð ekki var við ís hér nálægt landi fyrr en kom í Húnaflóa, mætti þá ísspöng þessari út af Horni og náði hún nokkuð austur á flóann. Er vonandi ekki um meiri ís að ræða að sinni.
Ágúst: Úrkomusamt syðra framan af, en síðan skipti um og varð mjög óþurrkasamt á Norðausturlandi, en syðra gerði góðan þurrk. Fremur kalt.
Morgunblaðið birtir þann 10. bréf úr Álftaveri dagsett þann 10.ágúst:
Úr Álftaverinu er oss skrifað 3. þ.m. að þar sé besta tíð. Þurrkur og sólarhiti daglega. Grasspretta góð og útlit hið besta með heyföng.
Fram á Siglufirði fjallar um ótíð í pistli þann 23.:
Frá sunnudagsmorgni [17.] og fram á aðfaranótt föstudags [22.] mátti heita að væri sífelld úrkoma. Alla daga kalt og versta hrakveður með norðanstormi, og sjógangur eins og í verstu haustgörðum. Snjóaði í fjöll öðru hvoru, og miðvikudagsmorgun [21.] var hér hvítt niður að sjó. Í gærdag birti til og var dágott veður allan daginn. Eins og nærri má geta, gengur heyskapurinn báglega í þessari tíð. Hey var þó orðið nokkurn veginn þurrt hér í kring á laugardaginn og náðist þá eitthvað inn, en seinni part dagsins tók að rigna og kom ofan í flatt hjá mörgum. Hér vesturundan hefir tíðin víst verið með svipuðu móti og snemma í vikunni fréttist að snjóað hefði ofan undir bæi í Miðfirði og sama er að heyra að sunnan - þar hefir líka snjóað í fjöll. Það má segja, að hér hafi enginn hlutur verið þurr á þessu sumri nema vatnsæðarnar í höfuðstaðnum. Þær hafa verið haldnar þorsta og þurrki þó að allt annað hafi orðið vatnsósa af óþurrkum er Fram skrifað úr Reykjavík. Hinsvegar segja blöðin að hagstæð veðrátta hafi verið á Suðausturlandi og sama hefir heyrst af Austfjörðum.
En aftur leit betur út syðra. Morgunblaðið segir frá 2. september:
Þerritíð hefir verið um alt Suður- og Vesturland síðustu vikur og má segja að vel horfi nú með heyskap, ef tíðin helst áfram. Grasspretta er yfirleitt dágóð, svo útheysskapur verður væntanlega vel í meðallagi.
September: Óþurrkar og jafnvel snjókoma norðaustanlands, en betra annars staðar. Fremur kalt.
Tíminn segir þann 3.: Tíðin hefir verið afbragðsgóð undanfarið um Suðurland, þurrkar og blíða. En næturfrost hafa að mestu eyðilagt kartöflugras hér um slóðir.
Og þann 17. segir Tíminn að Stormar og stórrigningar hafa verið hér undanfarna daga. Stutt sumar fyrir okkur suðurnesjabúa.
Morgunblaðið birtir þann 15. september grein um veðurlag. Margt er ágætt í greininni. Athyglisverðast ef til vill að höfundinum finnst hafa verið hlýtt (jöklar á undanhaldi) nema rétt upp á síðkastið - en ekki gengu spár um kaldari tíð, meiri ís og framgang jökla þó eftir:
Menn skyldu ætla að i sama landinu væri nokkurnveginn sama veðurlag, þannig að ekki væru stórvægilegar breytingar þegar litið er á stærri tímabil. Menn hafa einlægt vitað að það koma sérstaklega góð eða ill misseri eða ár inn á milli, og það undrast enginn. En ætla skyldi að á sama breiddarstigi væri veðurlagsútkoman eftir t.d. 5 ár og þar yfir nokkurn veginn jöfn. En svo er auðsjáanlega ekki, að minnsta kosti ekki hér á Íslandi og þá væntanlega heldur ekki annarsstaðar, þar sem veðurlag þó er stöðugra.
Veðurlagstímabilin virðast vera alllöng og jafnvel geta náð yfir áratugi. Þetta er nauðsynlegt að hafa hugfast einkum hér á landi þar sem öll afkoma manna er svo afskaplega háð veðurlaginu. Ísárin koma ekki á strjálingi eitt og eitt inn á milli. Það koma margra ára tímabil sem eru í raun og veru kaldari en önnur og þá er ísinn ætíð nærri og þarf þá minna til að honum takist að umlykja landið. Íslensk náttúra á sér einn óskeikulan meðalhitamæli og það eru skriðjöklarnir. Frá ári til árs munar litlu á því hvar jökulmörkin liggja. En ef hlýindi ganga ár eftir ár þá hækka þau, en ef kuldatímabil hefir gengið yfir, þá færist jökullinn fram.
Á síðustu 30 árum hafa jökulmörkin færst aftur allmikið að því er sögnum ber saman um víðsvegar að á landinu. En nú eru líkindi til að við séum komnir inn í kaldara tímabil og að þess megi nú vænta að jökulmörkin færist fram og að hafísmörkin færist nær landinu. Eitt sem bendir á að hafísinn sé nú nær en áður, er hin óstöðuga veðrátta, sem hefir verið síðustu árin. Áður voru hægviðri og stillur miklu tíðari, en þó komu aftur á milli ofsaveður, sem brutu skip og ollu ýmsu tjóni. Nú eru einlægt þessir jöfnu sólarleysisnæðingar og langt síðan reglulegt ofsaveður hefir komið. Loftið er síþrungið köldum sagga, og það er einmitt merki um að landsins forni fjandi" sé ekki fjærstaddur.
Fyrr á tímum héldu menn að afstaða plánetanna hefði áhrif á svo margt hér á jörðunni og þá ekki síst á veðurlagið. Vísindin þykjast ekkert um þetta vita. En vísindaleg rannsókn er heldur ekki svo gömul, að þess verði vænst af henni að hafa leitt í ljós neitt verulegt í þessum efnum. - En hvað er líklegra en að þessi löngu tímabil í veðurlaginu stafi einmitt frá einhverju utanaðkomandi og þá helst afstöðunni innan vors eigin sólkerfis? - Hvað er líklegra en það, að einmitt staða systurhnatta jarðarinnar hafi áhrif á þá segulstrauma og önnur aflform, sem menn ætla að ráði svo miklu um veðurlagið?
Athygli vísindanna á þessu er nú óðum að glæðast og þess að vænta að þeim takist smátt og smátt að leiða í ljós einhver óyggjandi sannindi þar að lútandi.
Þann 23. varð allmikill jarðskjálfti nærri Reykjanesvita og skemmdi vitann. Þetta var hluti af hrinu sem víða varð vart á Suðvesturlandi.
Október: Góð tíð, en fremur köld.
Fram segir frá tíð, fyrst þann 4. október, en síðan þann 11.:
[4.] Ennþá sama sagan hvað tíðina snertir, bleytuhríðar og stormar daglegt brauð. Í gærmorgun var komin hér sunnan landsunnanstormur, sem hélst allan daginn og fylgdi honum hiti svo hér leysti alt föl upp í mið fjöll, og vonuðust margir eftir bata. En í morgun vakna menn við að alhvítt er niður að sjó, og áttin þvervestan, svo enn er útlitið skuggalegt. Sunnanstormurinn sem hér var í gær, náði yfir land allt og var víða ofsaveður. Af Akureyri hefir frést, að þar á pollinum slitnuðu bátar og ráku hér og þar, og eitt hákarlaskip Höephners strandaði.
[11.] Þótt útlit væri hið versta síðasta laugardag breyttist veðrátta mikið um síðustu helgi. Hefir alla vikuna verið landátt og hlýindi var hér í gær t.d. 13 gráðu hiti. Snjólaust er orðið upp á fjallatoppa. Í dag indælis veður. Mótorbátur fórst nýlega frá Mjóafirði, líklega í sunnanrokinu síðastliðinn föstudag [3.], og drukknuðu þar fjórir menn. Einnig fórst sama dag lítill mótorbátur frá Norðfirði, og drukknuðu allir mennirnir 4.
Morgunblaðið segir þann 11.: Þoka óvenjudimm kom hér í fyrrakvöld og hefir haldist síðan. Var svo dimmt um hádaginn í gær að rétt grillti milli húsa.
Einhver mæða er í Morgunblaðinu þann 25. - síðan er sagt frá skipsskaða:
Veturinn heilsar í dag. Mun mörgum finnast sem lítið hafi veríð um sumar á síðustu missirum og því lítils að sakna. ... Aðfaranótt fimmtudags [23.] strandaði danskt seglskip. Activ" frá Marstal hjá Mýrum, fram undan Knarrarnesi og drukknuðu allir menn sem á skipinu voru. Skipið var á leið til Borgarness með timburfarm til Kaupfélags Borgfirðinga. Sást til þess frá Akranesi á miðvikudaginn. Var það þá komið þar upp undir, en sneri svo inn í Borgarfjörð og héldu menn að það mundi komast heilu og höldnu. En veður var hvasst um nóttina og hefir það þá hrakið upp á skerin fram undan Mýrunum. Er það hættulegur strandstaður og sjaldan að strandmenn bjargist þar, enda hefir og sú orðið reyndin á nú. Skipið var lítið og er búist við því að á því hafi ekki verið nema 56 menn.
Fram segir þann 1. nóvember:
Öndvegistíð um land allt. Logn og sólskin hér hvern dag og væg frost um nætur, hafa slíkar stillur ekki þekkst hér undanfarin þrjú ár.
Nóvember: Hægviðrasamt lengst af og tíð talin hagstæð þrátt fyrir að mjög kalt væri.
Tjörnina í Reykjavík lagði snemma í mánuðinum - eða jafnvel fyrir mánaðamót. Morgunblaðið segir þann 10. frá því að skautaferðir séu þar nú á hverjum degi miklar og á sunnudag [9.] hafi unga fólkið skemmt sér þar vel. Hins vegar hafi síðan ryk töluvert lagst á ísinn - og að ístaka standi yfir.
Þann 25. segir Morgunblaðið frá slysi í Reykjavík:
Í ofsaveðrinu í gærmorgun vildi til slys, sem er einstakt má heita í sinni röð hér í bænum. Í steinhúsi sem verið er að byggja á Skólavörðuholtinu við Baldursgötu höfðu gaflarnir verið byggðir á laugardaginn var. Voru þeir úr holsteini, lagðir í steinlím. Var það skiljanlega ekki orðið þurrt, en veggurinn léttur fyrir. Stóðst gaflinn ekki storminn í gærmorgun en féll til grunna og varð einn maður, sem var við vinnu við húsið undir honum og beið bráðan bana.
Þann 27. greinir Morgunblaðið frá tjóni á Ísafirði - en getur ekki dagsetningar, (hún kom fram í Vísi daginn eftir):
Tjón nokkuð varð á bryggju einni á Ísafirði [aðfaranótt laugardags í fyrri viku, [22.]] Ofsarok var á, en skipið Undina, sem lá við bryggjuna sligaði hana allmjög og skemmdi, svo nokkur hundruð tunnur af síld, sem voru á bryggjunni runnu í sjóinn. Tjónið kvað vera töluvert mikið. Magnús Thorberg á bryggjuna.
Þann 29. nóvember segir Fram frá snjóflóðum:
Símfrétt af Blönduósi hermir að nýskeð hafi 2 snjóflóð fallið í Húnavatnssýslu. Annað á Móbergi í Langadal og hitt á Kirkjuskarði í Laxárdal. Fórust 9 hross á öðrum bænum en 8 á hinum, en annan skaða gerðu þau eigi. Ekki muna menn að snjóflóð hafi fallið á þessum stöðvum áður, svo tjóni hafi valdið.
Desember: Miklar hríðar um norðvestan- og norðanvert landið síðari hlutann, en annars hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Morgunblaðið segir þann 4. frá óvenjuháum loftþrýstingi á Íslandi í október:
Samanburður á 1880 og 1919. Það er synd að segja, að harðindatíð hafi verið hér, það sem af er vetrinum. Þvert á móti mun óhætt að fullyrða, að sjaldan hafi verið jafn gott haustveður um allt Ísland eins og nú og síðan veturinn hófst, Hefir tíðin mátt heita ágæt, þótt umhleypingasamt hafi verið með köflum. En það er enn langt til vors, og muna megum vér veturinn í hittifyrra. Þá komu frostin ekki fyrr en eftir hátíðar. En svo harður var sá vetur, að honum var líkt við frostaveturinn 188081. Og nú er verið að spá hörðum vetri. Hefir la Cour skrifstofustjóri hjá veðurathuganastöðinni í Kaupmannahöfn vakið athygli manna á því hve loftvog hafi staðið óvenjulega hátt á Íslandi síðan í októbermánuði. Segir hann að sama máli hafi verið að gegna í október og nóvember 1880. Þá hafi loftvog á íslandi alltaf staðið í 76080 [mm], en veturinn þar á eftir var ógurlega harður eins og allir vita. Þó segir veðurfræðistofan að þetta sé ekki nema ágiskun ein, að þessi vetur muni verða eins harður.
Enn skemmdust bryggjur. Fram segir frá þann 13.desember:
Stöðugar bleytuhríðar með austan ofsaroki annað veifið. Í rokinu aðfaranótt fimmtudagsins [11.], slitnaði frá bryggjum Skonnortan Esther, en gat stöðvað sig á höfninni. Tvær bryggjur sem hún var bundin við brotnuðu töluvert, en skipið slapp óskaddað.
Sama dag segir Morgunblaðið frá óvenjulega ákafri snjókomu í París - látum þessa frétt fylgja hér:
Tuttugu sentímetra djúpur snjór í París! Jafnvel hin æruverða veðurfræðistofnun borgarinnar man ekki eftir öðru eins, þrátt fyrir það þótt minni hennar nái 75 ár aftur í tímann. Og auk þess kemur þetta fyrir í nóvember! Einu sinni fyrir langa löngu er sagt að í þessum milda mánuði hafi komið fyrir fjórir krapahríðardagar. Nú er hinn seytjándi dagur mánaðarins og í sjö daga hefir verið blindhríð.
Að kvöldi þess 17. varð strand í Skerjafirði, Morgunblaðið segir frá þann 19.:
Í afspyrnurokinu í fyrrakvöld strandaði danskt seglskip á Lönguskerjum í Skerjafirði og brotnaði þar mjög. Skip þetta heitir Valkyrien" og er frá Korsör í Danmörku. Var það á leið hingað frá Ibiza á Spáni með saltfarm til hlutafélagsins Kol & Salt. Hreppti skipíð aftakaveður í hafi, enda sóttist því leiðin illa norður eftir.
Jólaösin er nú byrjuð í búðunum fyrir nokkru. En veðrið hefir dregið úr henni síðustu dagana. Fólk hefir reynt að koma sér hjá að fara út, enda hefir færið á götunum ekki verið ginnandi heldur.
Á aðfangadag jóla segir Morgunblaðið frá veðri (á einkennilegan hátt):
Jólaveður. Að undanförnu hafa verið hér verstu umhleypingar og stórviðri meiri en flestir muna. En í gær brá til stillingar og sögðu gamlir menn, að nú væri hann að búa sig undir jólaveðrið og fátækraþurrkinn, því að það bregst aldrei, hversu vond og hvikul, sem tíðin er, að á Þorláksmessu eða aðfangadag kemur þurrkur handa þeim, sem ekki eiga til skiptanna.
Í ofviðrinu um daginn slitnuðu öll símanetin á Seyðisfirði og um 20 símastaurar brotnuðu. Einnig allmargir rafmagnsstaurar. Samskonar bilanir áttu sér og stað víðar á Austfjörðum.
Þann 20. greinir Fram frá heimsendaspádómi - innan um fréttir af tíðinni:
Fremur óstillt veðrátta þessa viku, sem og heldur ekki er furðulegt, ef marka skyldi nokkuð spádóm þess ameríska stjörnuspekings, sem spáð hafði jafnvel heimsendir þessa dagana frá 17. til 20. þ.m., eða minnsta kosti ýmsum skelfingum sem á jörð vorri áttu að dynja af áhrifum af stórfeldum sprengingum út í geimnum, áttu hér að koma fellibyljir, eldgos, jarðskjálftar, sjávarflóðbylgjur æða á land, og fleiri hremmingar. Í nótt sem leið var hér og um land alt suðvestanrok, afspyrnuveður, reglulegt heimsenda-rok(!) En hvergi er frétt um skaða.
Vísir segir frá jólaveðrinu þann 27.:
Hægviðri og snjókoma var hér á jóladag, en rigning í gær og bæði blautt og hált umferðar.
Lýkur hér að sinni umfjöllun um tíðarfar og veður ársins 1919.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 29.4.2018 kl. 02:07 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 729
- Sl. sólarhring: 815
- Sl. viku: 2524
- Frá upphafi: 2413544
Annað
- Innlit í dag: 682
- Innlit sl. viku: 2282
- Gestir í dag: 668
- IP-tölur í dag: 652
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.