30.4.2018 | 21:27
Af árinu 1894
Árið 1894 taldist hagstætt - miðað við það sem almennt gerðist á síðari hluta 19. aldar. Júlí og apríl voru hlýir, sá síðarnefndi einn hlýjasti apríl 19. aldar og í 7. sæti hlýrra aprílmánaða allra tíma. Hiti var einnig yfir meðallagi í júní, ágúst, september og nóvember. Desember var kaldastur að tiltölu. Það var almennt hlýrra að tiltölu um landið norðan- og austanvert heldur en suðvestanlands. Að vanda má finna tölur í viðhenginu.
Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 2.júlí, 28,8 stig. Ástæða er þó til að efast um þá tölu, sjá um það hér að neðan í umfjöllun um hitana í júlíbyrjun. Mesta frost ársins mældist einnig í Möðrudal, -26,7 stig þann 23.janúar.
Ekki fundust nema þrír mjög kaldir dagar á árinu í Reykjavík, 22.janúar og 11. og 13.febrúar. Tveir dagar voru óvenjuhlýir, 1. og 2. júlí. Sömu dagar voru einnig óvenjuhlýir í Stykkishólmi, þar voru köldu dagarnir líka þrír, tveir í janúar og einn í desember (21.).
Þann 18.maí mældist hæsti loftþrýstingur sem vitað er um í maímánuði hér á landi, 1045,0 hPa. Mælingin var gerð á Akureyri. Loftþrýstingur var óvenjuhár að meðaltali í september, sá næsthæsti í þeim mánuði frá upphafi mælinga, en þá var sérdeilis þurrt austanlands. Loftþrýstingur gekk nokkuð öfganna á milli því hann var óvenjulágur að meðaltali í þremur mánaðanna, í febrúar (fimmtilægsti febrúarþrýstingur frá upphafi), í júní (6.lægsti) og í nóvember (7.lægsti).
Loftþrýstiórói var sérlega mikill í desember, meiri en í nokkrum öðrum desember frá upphafi mælinga. Ekki að undra að kvartað væri um umhleypinga. Mesta breytingin milli daga var þegar þrýstingurinn féll um -60,2 hPa milli 27. og 28. desember.
Maí var almennt mjög þurr, og einnig var þurrt í september, en þó var nokkuð kvartað um rigningar í þeim mánuði sums staðar á Suðvestur- og Vesturlandi.
Ísafold (5.janúar 1895) gefur okkur yfirlit:
Fremur var það blítt en strítt um land allt, þótt verulegri árgæsku hefðu menn ekki af að segja nema norðanlands og austan, einkum um heyannir. Vetur vægur og voraði snemma. Kalt var þó vorið sunnanlands og óvenju þurrviðrasamt. Með fardögum brá til votviðra syðra, er stóðu allt sumarið með litlum hvíldum og ollu slæmri nýting og rýrð á heyjum. Um Norðurland og Austfirði aftur ágætisheyskapur, grasspretta góð og nýting afbragð. Haustveðrátta sömuleiðis góð nyrðra og framan af vetri, en syðra umhleypingar miklir og skakviðri; frosthægð mikil. Skepnuhöldum hefir stórspillt í haust gamall vágestur bænda, bráðafárið á sauðfé, nú með skæðasta móti. Sjávarafli mjög rýr á þilskip, betri á opnum bátum. Á Austfjörðum dágóður afli þegar beita fékkst, og síldveiði nokkur. Haustafli góður á Austfjörðum og Eyjafirði. Vetrarafli rýr sunnanlands; vorvertíð góð við Faxaflóa og víðar. Haustið allt og fyrri part vetrar aflalaust við Faxaflóa.
Janúar: Ekki óhagstæður mánuður. Suðlægar áttir framan af, en síðan norðlægar með vaxandi fannkomu austanlands og norðan. Fremur kalt.
Árið byrjaði með hagstæðri tíð. Þjóðólfur segir þann 19. janúar:
Hafíshroði sá, er kominn var við Norðurland snemma í f.m., hvarf aftur um áramótin, með því að þá brá til blota og góðviðra, svo að jörð var orðin auð víðast hvar og sjór íslaus.
Þjóðviljinn ungi rekur tíðina vestur á Ísafirði í stuttum pistlum. [11.1.] Sífelldir suðvestanrosar, ýmist rigningar eða kafalds-blotar gengu hér fram yfir nýárið; en á þrettándanum var hreint og stillt veður, og hefir síðan verið öllu stöðugri tíð. [17.1.] Síðan á þrettándanum hefir daglega haldist sama einmuna tíðin til lands og sjávar, logn og frostlint veður, rennihjarn i byggðum og óbyggðum, og því enda greiðara yfirferðar, en á sumardegi. [23.1.] Tíðarfar breyttist 19. þ.m., er hann gerði allsnarpa norðan-hriðu, er hélst til 22. þ.m. [31.1.] Ekki varð nema stutt veðrahlé 22. þ.m., því að daginn eftir var hann aftur skollinn á með norðanbyl og frosti; hefir síðan verið allstirð tíð.
Grettir segir þann 29.janúar frá skiptapa á leið frá Sléttu í Jökulfjörðum til Ísafjarðar þann 12. Sex voru á.
Garðar segja þann 14.febrúar um tíðarfar fyrri hluta í janúar í Reykjavík:
Fyrri hluti mánaðarins var óvenjulega blíður mestallur, svo sem vordagar væri eða mild haustveðrátta. Oft 67 daga hiti á daginn.
Og í Austra þann 3. febrúar má lesa eftirfarandi:
Seyðisfirði 2.febrúar 1894. Tíðarfarið hefir nú í meira en hálfan mánuð verið mjög illt og úrkomusamt, og mátt heita meiri eða minni hríðar á degi hverjum, svo snjór er viða kominn ákafloga mikill, svo varla verður um jörðina komist nema á skíðum.
Í sama blaði eru snjóflóðafréttir úr Seyðisfirði:
Snjóflóð féll hér nokkuð um Fjarðaröldu þann 31. f.m. um það bil er snjóflóðið mikla féll, yfir gamla Hótelgrunninn og útí sjó fyrir utan Glasgow", en ekki gjörði það neitt mein mönnum eða skepnum, enda var það miklu minna en hið fyrra, frá 1885. og tók sig víst upp nokkru neðar í fjallinu. Þetta snjóflóð tók skúr sem stóð þar sem Hótelið hafði staðið, braut hann og flutti viðina útí sjó.
Og þann 10. og 19.febrúar birti Austri enn snjóflóðafréttir:
[10.] Snjóflóð hafa auk þess er kom hér á Ölduna, fallið víða hér í firðinum, en ekki gjört mikinn skaða nema á Markhellum fyrir utan Selstaðavík, þar sem það tók fiskihús og fiskiskúr, og á beitarhúsunum frá Dvergasteini tók snjóflóð þak af hlöðu en ekki mikið af heyinu. Á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði tók snjóflóð nær 50 hesta af heyi og drap 33 sauði, er voru í húsinu. Maður varð úti a Fjarðarheiði, og er enn ófundinn.
[19.] Snjóflóð hafa einnig komið i Mjóafirði. Í Hvammi fór snjóflóðið yfir bæinn, en ekki sakaði. Á Hesteyri tók snjóflóð bát á hvolfi, er var fennt yfir og bundinn við niðurfrosin stórtré, og fiskiskúr með nokkru af fiski í og ruddi öllu út á. sjó. Í Firði tök snjóflóð hlöðu ofan að veggjum og drap 3 kindur i húsinu.
Febrúar: Nokkuð stormasamt og snjóþungt um vestanvert landið, en betra eystra. Fremur kalt.
Ísafold birtir 31. mars bréf úr vestanverðri Barðastrandarsýslu, dagsett 8. febrúar:
Frá því fyrir þrettánda og fram í fyrstu viku þorra var blítt og stillt veður, með litlu frosti og stundum (11. og 12.) allt að 5° hiti. Þá kom allhart norðanveður í rúma viku, með töluverðu frosti. Núna um umliðna helgi, föstuinnganginn, setti niður allmikinn snjó af útsuðri og bleytti, svo nú er haglaust fyrst á vetrinum. Hefir nú í nokkra daga verið rosaveður og sífelldur snjógangur.
Þjóðviljinn segir frá tíð vestra í nokkrum smápistlum: [7.2.] Síðasta vikutíma hefir haldist óstöðug tíð, oftast kafaldshríðir, en frostlint veður. [14.2.] Ekki vill tíðin enn breytast til batnaðar, norðan kafaldshríðir síðasta vikutíma. Haglaust má nú heita hér vestra, og fjörubeit engin, með því að fjaran er öll undir móð. [21.2.] 15. þ.m. sneri til suðvestanáttar með hláku, eða snjó-blota. [28.2.] Norðan hret með all-mikilli fannfergju, og nokkru frosti hefir verið lengstum þessa síðustu viku.
Enn féllu flóð. Austri segir 21. mars frá krapaflóði í Breiðdal 16. febrúar:
Hinn 16. febrúar kom snjóflóð á bæinn á Höskuldsstöðum í Breiðdal, sem lenti mest á bæ bóndans Einars Gunnlögssonar, er var nær læk þeim er flóðið kom úr. Fjós er efst húsa með dyrum upp að fjalli og vatnshús til hliðar, einnig með útdyrum, og úr því liggja beinar dyr fram á hlað. Snjóflóðið braut niður vatnshúsið og fór fram um allan bæinn, svo að hálffylltust göngin eldhús, búr og baðstofudyr, svo ekki varð komist úr baðstofunni nema út um glugga. Timburhús er neðst í þorpinu, þríloftað, og braut flóðið tvo glugga á miðloftinu, sem vissu að fjalli, og hálffyllti lítið herbergi, er var við annan gluggann. Kjallarinn nærri fylltist af vatni. Fjósdyrnar brotnuðu upp og fylltist fjósið i miðja súð af snjó og vatni. Í fjósinu voru tvær kýr, tarfur og kálfur nýalinn, sem allt náðist lifandi, nema kálfurinn. Einnig braut snjóflóðið inn töðuhlöðu með á að giska tuttugu lestum af töðu í, hérumbil helmingurinn náðist þurr af henni, en meiri og minni skemmdir yfir allt túnið fyrir ofan bæinn það sem sést fyrir flóðinu, sem er viða svo þykkt á, hefir borið grjót og sand, en þó mun það vera verkandi.
Fólk var allt á hentugum stað svo það sakaði ekki. Í bæ Hóseasar kom að eins nokkur snjókrapi í fjósíð, svo nautin stóðu rúmlega í kvið i því. Snjóflóðið hafði tekið sig upp á svokallaðri Hólamýri í fjallinu sem er stór en þó með litlum halla, en hallar öll að þröngu gili sem endar fáa faðma frá bænum. Hafði komið svo mikill krapi í mýrinni uns allt fór á stað.
Í sama tölublaði Austra er sagt frá því að tveir menn hafi orðið úti á Eskifjarðarheiði samferða póstinum. Dagsetningar atburðar ekki getið.
Ísafold segir þann 18.apríl frá snjóflóði í Norðfirði 5. eða 7. febrúar - og síðan einnig af Höskuldsstaðaflóðinu:
Á bæinn Þiljuvelli í Norðfirði hljóp snjóskriða þann 5. eða 7. Misstu þar tveir bændur mikið af eigum sínum eða 80 gemlinga, 19 ær og 1 hest. Báðir lentu bændurnir í flóðinu, og komst annar úr því hjálparlaust, en hinum var bjargað meðvitundarlausum en óskemmdum. Samt hefir hann þó legið lengi á eftir.
Á Höskuldsstöðum í Breiðdal hljóp snjóflóð, og vatnsflóð á eftir. Hefði ekki snjóskriðan hlaupið fyrst, hefði allur bærinn farið, að sögn manna. Það sem hlífði var það, að snjóskriðan hafði myndað hrönn við bæinn, sem vatnsflóðið skall á, og kastaðist því til hliðar, svo ekkert sakaði. Engan skaða gjörði flóðið, nema það braut inn þak á hlöðu og mölvaði glugga úr timburhúsi og fyllti það af vatni. Á bæ þennan hefir aldrei hlaupið, svo menn viti til, fyrr en nú.
Ísafold segir 24. mars frá veðri í Vestmannaeyjum:
Vestmannaeyjum 12. mars 1894: Veturinn hefir eigi verið snjóa- né frostamikill. ... Veðrátta hefir yfir höfuð verið ákaflega stormasöm, einkum í febrúarmánuði; þá gengu næstum sífelldir suðvestan- og vestanstormar. Mesta aflaleysi hefir hér verið í allan vetur.
Mars: Nokkuð stormasamt á Vestur- og Norðurlandi. Úrkomusamt syðra. Hiti í meðallagi.
Þjóðólfur segir frá marsíðinni þann 6.apríl:
Tíðarfar hefur mátt heita mjög gott hér á Suðurlandi næstliðinn mánuð. Að vísu hefur verið nokkuð umhleypingasamt en frost ekki teljandi og er það sjaldgæft í marsmánuði.
Þjóðviljinn ungi birti frétt af Snæfellsnesi þann 20. apríl:
Úr Snæfellsnessýslu er oss ritað 19. mars: Sá atburður varð á bæ einum, Geirakoti í Neshrepp innri, að bóndi týndi fjárhúsi sínu í snjóinn, með 40 kindum í; var mokað af 4 mönnum í 2 daga, og fannst þá húsið, fé allt lifandi, en hús og tóft sligað mjög af snjóþyngslunum. Sex álnir voru niður að húsinu. Hafði bóndi byggt þetta hús í haust í skjóli undir háu barði.
Og í sama blaði (á Ísafirði):
Sama öndvegistíðin sem verið hefur hér vestra síðan á páskum [25.mars], hefir haldist þessa síðastliðnu viku.
Apríl: Góð tíð, úrkomusöm syðra. Hlýtt.
Ísafold birtir 5. maí bréf úr Barðastrandasýslu vestanverðri, dagsett 9. apríl:
Alla sjöviknaföstuna var veðrátta mjög storma- og úrfellasöm, og allan þann tíma var haglaust, frostvægt yfir höfuð, en mjög mikil fönn komin síðast. Um páskana hlánaði, og
hafa hagar góðir verið síðan, en úrfella- og stormasamt, þangað til í gær og í dag er stillt veður. Jörð má heita alauð orðin í byggð; að eins snjór í giljum og lautum.
Og 12. maí birtir Ísafold nokkur bréf frá því í apríl:
[Húnavatnssýsla 20.apríl]: Tíðarfar var i allan vetur mjög óstöðugt, svo að þó hagar væru, notaðist það ekki vegna illviðra, og hafa því hey gengið upp með meira móti; úr páskum brá algjörlega til góðviðra og hefir það haldist síðan. Þegar hlákurnar byrjuðu kom mjög mikill vatnsgangur sem á sumum stöðum gjörði töluverðar skemmdir; til dæmis er flæðiengi það, sem liggur með Blöndu beggja vegna, stórkostlega skemmt af aur og möl, sem áin hefir borið á það.
[Hrútafirði 27.apríl] Tíðarfar hefir verið hið besta síðan á páskum. Farið er að votta töluvert fyrir gróðri í túnum og útiverk væru sjálfsagt almennt byrjuð, ef veikindin hömluðu ekki. [Mjög slæm inflúensa var á ferð um landið].
[Vestmannaeyjum 28.apríl] Í marsmánuði var veðrátta mjög stormasöm. Fyrri hluta mánaðarins var oftast norðanátt, síðari hlutann nærri stöðugar sunnanáttir; þessi mánuður hefir einnig verið mjög vindasamur, og hefir vindstaðan ýmist verið austlæg eða suðlæg.
Þjóðólfur birtir 11. maí bréf úr Áshreppi í Rangárvallasýslu dagsett 19.apríl:
Veturinn, sem endaði í gær, má teljast meðal hinna mildari, mjög frostalítill síðan sólstöður, en að vísu mjög úrkomu- og vindasamur; síðan páska mesta öndvegistíð til landsins, nú orðin hálfgræn jörð. Heybirgðir hjá almenningi mjög miklar.
Þann 7. varð skiptapi á Eyrarbakka, þrír menn fórust. (Þjóðviljinn ungi 30.apríl). Þann 5. fórst hákarlaskip norður á Ströndum - áttæringur frá Hellu á Selströnd, 10 fórust. (Ísafold 9. maí).
Jónas Jónassen segir í eftirmælum aprílmánaðar (birtust 5.maí): Í síðustu 20 árin hefir veðrátt í aprílmánuði aldrei verið eins hlý og nú þetta árið, er það einstakt, að aðeins skuli hafa verið 2 frostnætur (í bæði skiptin -1) allan mánuðinn.
Maí: Þurrviðrasamt svo háði gróðri, en hiti í meðallagi.
Ísafold lýsir tíð þann 16.maí:
Þessi mánuður kaldari miklu að sínu leyti en apríl var. Frost á nóttu öðru hvoru, og veldur talsverðum gróðurhnekki. Hafísfréttir engar sannspurðar, en líklegt, að hafís sé eigi allfjarri landi og valdi kulda þessum.
Austri skrifar 18. maí:
Veðrátta var fremur köld um hvítasunnuleytið [13.maí] og nokkur snjókoma i sumum sveitum, svo töluvert hefir dregið úr hinum ágæta gróðri er kominn var á undan hvítasunnuhretinu. En nú er aftur hlýrra, svo jörð tekur vonlega bráðum við sér aftur.
Þjóðviljinn ungi segir einnig frá kaldri tíð þann 16.maí - og segir þá líka frá fjársköðum um mánaðamótin næstliðnu:
Tíðin hefir í þ.m. verið fremur köld, oftast verið frost um nætur, og öðru hvoru snjóað, enda er hafísinn sagður skammt frá landi. Stórkostlegum fjárskaða varð Gísli bóndi Steindórsson á Snæfjöllum fyrir 1. þ.m.; hann missti 100 fjár í sjóinn, 48 roskið og 52 veturgamalt; hafði það brimrotast í vestan-rokinu, sem þá var í svonefndri Drangsvík, skammt frá bænum á Snæfjöllum.
Í lok mánaðarins, þann 31. segir sama blað:
Mjög lítill gróður er enn kominn hér vestra, enda hafa nú lengst gengið sífelldir þurrkar, og oftast frost um nætur.
Júní: Votviðri á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt, einkum fyrir norðan.
Í Ísafold, 9.júní segir af umskiptum í veðri:
Eftir fádæma langvinna þurrka í vor brá til votviðra hér um slóðir fyrir viku. Hefir mikið hleypt fram gróðri á þeim tíma, þó að heldur svalt hafi verið samt, eins og áður. Líkt er að frétta af veðráttu að norðan nú með Thyra, en hvergi þó getið um hafís; hún varð hans hvergi vör.
Austri segir frá því þann 22. júní að þann 17. hafi franskt fiskiskip rekið á land í ofviðri á Vopnafirði - náðist út aftur en svo lekt að varla flýtur.
Heldur kalt varð um tíma. Þjóðólfur segir þann 22.: Veðurátta hefur verið mjög köld undanfarna daga, hryssingskalsi og allmikil úrkoma. Í fyrrinótt [aðfaranótt 21.] snjóaði niður í miðja Esju og á Akrafjall og er það sjaldgæft hér syðra um þetta leyti.
Austri segir af góðri tíð þann 30.júní:
Veðrátta er nú mjög góð, hitar miklir, 20°R, í skugganum og ágætir gróðurskúrar i milli hér í fjörðunum en allt þurrara upp á Héraði og tún viða, brunnin.
Júlí: Óþurrkasamt vestanlands, þó þurr vika í lok mánaðar. Mjög góð tíð nyrðra. Hlýtt. Um mánaðamóti júní-júlí gerði mikla hitabylgju um mestallt land. Hún stóð þó ekki lengi.
Myndin sýnir hita á klukkustundarfresti í Reykjavík dagana 30.júní til 4. júlí. Dagsetning er sett við hádegi hvers dags. Á þessum árum var síriti í mælaskýlinu í Reykjavík. Á ýmsu gekk reyndar með reksturinn en hann var alla vega í góðu lagi þessa hlýju daga. Eins og sjá má fór hitinn yfir 20 stig tvo daga í röð, 1. og 2. júlí og sá þriðji byrjaði vel, hiti kominn í 17,5 stig klukkan 7 um morguninn (sólartími, 8:30 að okkar hætti). Síðan sló á, vindur hefur farið að blása að utan.
Hitabylgjan náði til mikils hluta landsins, veðurstöðvar voru að vísu ekki margar en flestar þeirra sýna yfir 20 stiga hita að minnsta kosti einn dag. Hæsta talan sem sést í veðurskýrslum er úr Möðrudal, 28,8 stig, en það er vafalítið of hátt. Svo virðist sem óbein geislun hafi haft áhrif á mælinn á staðnum í miklu sólskini á þessum árum. En hiti fór annars hæst í 24,9 stig á Akureyri og 24,8 á Möðruvöllum.
Blöðin segja frá hitunum. Þjóðólfur segir þann 4.: Óvenjulega miklir hitar hafa verið hér næstliðna 3-4 daga, hæst 25°C. Jónas Jónassen segir að þann 2. hafi verið óminnilegur hiti. Þjóðviljinn ungi segir einnig frá óvenjulegum hitum á Ísafirði (6. júlí): ... var hér 20-30 stiga hiti á Reaumur í skugganum 1.-2. þ.m. Þjóðólfur segir þann 3.ágúst í bréfi úr Seyðisfirði að síðustu dagana af júní og framan af júlí voru hér óvanalega miklir hitar, um 20°R í skugganum. 20°R eru 25°C.
Góðar hitabylgjur komu endrum og sinnum á landinu á 19. öld. Hugsanlega gefst tækifæri til að sinna þeim betur á þessum vettvangi síðar.
Jónas Jónassen segir frá miklum skruggum í Reykjavik aðfaranótt 9. júlí.
Ísafold lýsir tíðinni þann 25.júlí:
Hér er enn mikil óþurrkatíð um Suðurland, og mun lítið sem ekkert hirt af túnum, enda byrjaði sláttur seint, óvíða fyrr en í 13. viku hér i suðursýslunum, því grasspretta var fremur slæm, vegna hinnar miklu kalsaveðráttu í fyrra mánuði, þótt vætan væri nóg þá, en langvinnir þurrkar þar á undan.
Í sama tölublaði er pistill frá Vestmannaeyjum:
Með 4. degi júnímánaðar varð gagngjörð breyting á veðuráttu, þá var lokið þerrinum, sem staðið hafði allan maímánuð, og hefir síðan gengið stöðugur rosi allt til þessa dags, hafa síðan komið að eins 6-7 þurrir dagar. Hinn litli saltfiskur, sem þveginn var um fyrri mánaðamót, er því enn eigi kominn inn í búðina, og er það mjög bagalegt fyrir alla hlutaðeigendur; hey hrekst í úteyjum, en túnasláttur er eigi byrjaður.
Undir lok mánaðar komu þurrir dagar syðra - Ísafold segir þann 28.: Í gær skipti loks um veður. Sólskinsþerrir í gær og í dag. Voru töður úti hér sunnanlands, hvert strá hér um bil, og eins í vestursýslunum nyrðra ...
Ágúst: Óþurrkasamt vestanlands, en ekki þó stórrigningar. Hagstæð tíð nyrðra. Fremur hlýtt.
Austri segir frá því þann 2.ágúst að síðustu vikuna hafi heyþurrkar verið ágætir. Ekki var jafngott syðra og þann 15. segir Ísafold: Þerrir var hér á sunnudaginn 12. og aftur í gær og dag góður eftir langvinna óþurrka eða þerrileysi hér syðra.
Ísafold birtir þann 29. bréf úr Barðastrandasýslu dagsett 3. ágúst. Þar segir m.a.:
... hefir yfir höfuð verið hin besta grassprettuveðrátta, oftast hægviðri og hlýviðri, en fremur vætusamt, þótt eigi hafi verið stórfelldar rigningar; þokur tíðar með úða. Þerrir var þó dágóður núna um mánaðamótin, einkum 2 síðustu daga. Hæstur hiti var 1. júlí 18° R og 2. júlí 20°R, sem er hæstur hiti, er ég man eftir hér. Sökum hinnar hagstæðu gróðrarveðráttu síðan á leið vorið og síðan hefir grasvöxtur yfir höfuð orðið í góðu lagi. Tún munu um það leyti alslegin og hirt víðast, og hefir nýting á túnum mátt góð heita, þar sem taðan náðist nær því öll síðustu daga; en þá voru fyrir þerridagana sumstaðar eða viðast öll túnin i heyi.
Og enn er kvartar Ísafold undir lok mánaðar (29.):
Enn haldast hér rosar og rigningar, þar með í dag, sjálfan höfuðdaginn. En að norðan er að frétta ágæta tíð, nóga þurrka. Vestanlands sömuleiðis hagstæðari veðráttu.
Grettir segir frá sumrinu vestra í pistli þann 6. september:
Grasvöxtur verið með besta móti í Ísafjarðarsýslu í sumar, og þó að yfirleitt hafi verið fremur votviðrasamt, þá hafa þó komið á milli svo góðir þerridagar, að allt útlit er fyrir, að nýting verði allgóð og heyskapur í besta lagi.
September: Mjög þurrt um landið norðaustan og austanvert, oft úrkomusamt syðra. Fremur hlýtt.
Þjóðólfur birti þann 12.október bréf úr þremur landshlutum dagsett nokkru fyrr:
Húnavatnssýslu 24.september: Tíðarfar í sumar með besta móti, grasspretta ágæt, heyfengur því með besta móti hjá bændum.
Barðastrandarsýslu (vestanverðri) 2.október: Tíðarfar hefur verið mjög rigningasamt og þar af leiðandi heyskapur ekki meira en í góðu meðallagi og misjafn þurrkur og má búast við að hey verði mikilgæf.
Seyðisfirði 3.október: Sama öndvegistíðin hefur haldist hér fram á þennan dag og muna menn naumast eftir jafnhagstæðri veðuráttu og verið hefur hér í sumar.
Október: Óstöðug tíð framan af syðra, en annars hagstæð. Hiti í meðallagi.
Ísafold þann 8.október: Enn haldast stórrigningar og rosar hér syðra, en bestu tíð að frétta úr öðrum landsfjórðungum.
Grettir á Ísafirði þann 10.október:
Haustið hefir það sem af er verið óvenjulega hlýtt, og það svo. að aldrei hefir enn fest snjó á fjöllum að heita megi, hvað þá heldur niðri í byggð. Vikuna sem leið, var sumarhiti, 10°-12° á R Jafnan hefir verið mjög rigningasamt þennan tíma. Þó hefir tekið út yfir þrjá síðustu dagana, enda er nú farið að verða kaldara í veðri, og virðist hann nú vera að ganga til norðurs.
Þann 31.október lýsir Grettir síðari hluta mánaðarins:
Veðuráttan hefir þennan mánuð verið hin besta og blíðasta, stillingar og hægviðri og oftast þíðviðri eða þá lítið sem ekkert frost. En hinn 30. þ. m. hljóp hann í norður með miklum stormi, en þó vægu frosti og svo að segja engri snjókomu.
Sumarið var þurrt norður á Sléttu. Þaðan er skrifað 21.desember og birt í Austra 30.janúar 1895:
... tíðin var ágæt hér í sumar, svo menn muna ekki eftir eins góðu sumri, óvanalega þurrksamt hér á Sléttu, svo menn voru ráðalausir með að slá tún sín fyrir þurrkum. Víða skemmdust tún her vegna þurrka, brunnu stórkostlega sum og voru því í löku meðallagi. Aftur þau sem votlend voru, spruttu.
Jónas Jónassen segir (3.nóvember) að ökklasnjór hafi verið í Reykjavík þann 31.október, jafnframt fyrsti snjór vetrarins.
Nóvember: Hagstæð tíð nyrðra, en óstöðug og úrkomusöm syðra. Fremur hlýtt.
Þjóðviljinn ungi segir frá veðri og mannsköðum vestra í frétt þann 12.nóvember (nokkuð stytt hér):
Sami sveljandinn hefir haldist stöðugt, síðan veðrið skall á 30. f. m., uns loks fór nokkuð að slota í gærdag; 4. þ.m. sneri hann sér meira í austrið, og hafa síðan haldist hlákur og frostleysur hér vestra. Þriðjudaginn 6. þ.m. drukknaði sýslunefndarmaður Bjarni Jónsson í Tröð í Álftafirði; hann var á heimleið innan frá Hlíð í Álftafirði við annan mann á bát, og var kominn nokkuð út fyrir Langeyri, svo að örstutt var heim; en með, því að veður var hvasst um daginn, hvolfdi bátnum á siglingu skammt frá landi. ... Samfylgdarmanni Bjarna, vinnumanni hans norskum, vildi það til lífs, að hann gat hjálpað sér með sundi, og var honum bjargað.
Annar mannskaðinn varð á Dýrafirði þriðjudaginn 30. f.m., og drukknaði þar óðalsbóndi Guðmundur Hagalín Guðmundsson á Mýrum, og húshjónin Sigurður Bjarnason og kona hans Sigríður Guðbjartardóttir, sem í vor höfðu flust frá Hálsi á Ingjaldssandi, og reist sér nýbýli milli jarðanna Lækjaróss og Mýra; var fólk þetta á heimleið úr Haukadal, og mun hafa verið langt komið áleiðis yfir fjörðinn, er norðanrokið skall á þann dag, og hafa farist á siglingu skammt undan landi frá Mýrum.
Ísafold birtir 19.desember bréf úr Strandasýslu dagsett 14.nóvember. Þar segir fyrst af sumri þar um slóðir (nokkuð stytt hér) og síðan af hausttíðinni:
Sumarið var með allra bestu sumrum, sem hér koma, og hlýtt og mátulega votviðrasamt, því þerrir var ávallt við og við, svo hey nýttust ágætlega; grasvöxtur var góður og heyskapur því almennt í betra lagi; en fólk var víða með færra móti; það gjörir sjórinn og lausamennskan. ... Tíðin hefur verið mjög góð í haust, og það sem af er vetrinum; er jörð alauð enn neðra, en snjór aðeins á fjöllum og þó lítill; það hefir verið stormasamt um tíma, en ávallt frostlítið og kafald að eins einn eða tvo daga. Fé gengur allt gjafarlaust enn, en almennt er farið að hýsa.
Þann 29.desember er bréf úr Barðastrandasýslu vestanverðri í Ísafold, dagsett 19.nóvember:
Haustveðráttan hefir verið mjög vindasöm og óróleg, mjög vætusamt framan af, og náðu sumir eigi inn síðustu heyjum fyrr en um miðjan október; en ávallt hefir verið fremur hlýtt í veðri. Norðanveður mikið kom um mánaðamótin síðustu, er hélst um 3 vikur, stundum með aftakaroki, t.a.m. 3. og 4. þ.m., en aldrei varð frost yfir 4°R um daga. Í ofviðri þessu fuku bátar og skip á sjó út og glugga tók úr húsum.
Enn meiri mannskaðar urðu vestra og segir Þjóðviljinn ungi frá þeim þann 23.nóvember, auk þess að greina frá tíðinni:
Síðan síðasta nr. kom út, hefir tíðin verið fjarskalega óstöðug, en oftast frostlaust veður; og þó að stöku sinnum hafi verið logn og besta veður að kvöldi hefir hann fyrir næsta morgun verið skollinn á með ofsaroki, og gengið úr einni áttinni í aðra; til sjávarins hefir því verið mesta hættutíð, nema einna stilltast veður þessa síðustu vikuna.
Mannskaðinn einn, - sá þriðji hér i sýslu á rúmum hálfsmánaðartíma varð í Bolungarvíkinni laugardaginn 17. þ. m., fórst 5 mannafar, og drukknuðu allir 5 mennirnir, er á voru; formaður var Sigurður Jónsson á Breiðabóli. Höfðu þeir Sigurður róið til fiskjar snemma aðfaranóttina 17. þ.m., og var þá eigi að veðri; en um kl.2 um nóttina, skall á versta veður, og hleyptu þá 1-2 skip, er róið höfðu úr Víkinni, í Ósvör; en Sigurður hefir farist á Víkinni, því að þegar birta tók um morguninn, fannst bátur hans rokinn á Mölunum, og lík tveggja skipverjanna sáust þá einnig sogast fram og aftur í brimgarðinum. Í norðanhretinu í öndverðum þ.m. fórust 3 hestar á Langadalsströnd; hafði tvo þeirra fennt, en einum skellti veðrið um. - Ýmsir sjómenn, er lóðir áttu i sjó, hafa og misst mikið af veiðarfærum í garðinum.
Austri lýsir tíð mánaðarins þann 29.:
Tíðarfar hefir að undanförnu verið eins blítt og á sumri væri, og þann 25. nóvember var hér 9° hiti á R hitamæli.
Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 30. að þann 23. hafi dengt niður miklum snjó en alloftast sé þó frostlaust. Tíð sé mjög óstöðug og enginn dagur til enda tryggur þótt stillt veður sé að morgni.
Desember: Óstöðug og fremur köld tíð.
Þjóðviljinn ungi segir frá því 22.febrúar 1895 að tveir menn hafi orðið úti í desember, annar á Snæfellsnesi þann 19., en hinn í Árnessýslu (dagsetningar ekki getið). Einnig hvarf kona í Borgarfirði, sögð týnd í Hvítá.
Austri segir þann 18.:
Tíðarfar hefir allt fram að því fyrir fám dögum verið hið blíðasta og stormar venjufremur litlir, snjór varla verið teljandi nema á fjöllum uppi. En nú síðustu dagana hefir veður kólnað og dálítið snjóað, en þó hafa engar hríðar verið og snjókoma enn lítil eftir því sem hér er venjulegt um þetta leyti.
Mikil illviðri gerði um jólin og milli jóla og nýárs. Austri segir frá þann 31.:
Á jólanóttina var hér stórviðri, einkum útí firðinum, og fauk þá þak af fjárhúsi á Dvergasteini. Nóttina milli þess 28. og 29. geisaði hér eitthvert það mesta ofveður og fauk i því Vestdalseyrarkirkja að mestu af grunninum, og stórskemmdist, en skrúðhúsið slitnaði frá kirkjunni í heilu lagi, en brotnaði þó eigi. Ýmsar aðrar skemmdir urðu á húsum, bátum og bryggjum.
Þann 15. janúar birti Austri frekari fréttir af veðrinu:
Auk þessara sorglegu kirkjuskemmda feykti þetta ofviður stórum skúr frá húsi Sigurðar Eiríkssonar á Búðareyri, tók uppí háaloft og mölbraut nýjan fiskiskúr út á Eyrum, er Ólafur Jónsson á Búðareyri átti, og skemmdi nokkra báta og bryggjur meira eða minna hér í firðinum. Í þessu ofviðri, er sjálfsagt hefir gengið yfir allt Austurland, sleit gufuskipið Imbs" upp á Eskifirði frá 4 akkerum. Hleypti það síðan upp í kaupstaðarfjöruna, en hafðist þó þaðan út aftur og kom hingað á nýársdag með sýslumann Tulinius. Í sama veðrinu sleit og upp af hinni makalausu höfn Austurlandsvinarins" inní botni Reyðarfjarðar gufuskipið Colibri", er missti öll akkeri og rak útundir Sómastaði í Reyðarfirði og þar i land, þó lítt eða ekki skemmt, og er vonandi, að það hafi náðst út aftur. Í ofviðrinu rifnuðu nætur og tapaðist síld úr þeim.
Þjóðólfur segir frá veðrinu í frétt 4.janúar 1895:
Aðfaranóttina 28.des. var hér syðra ofsarok af útsuðri með geysimiklum sjávargangi af stórstraumsflóði, svo að elstu menn þykjast varla muna jafnmikið hafrót og sterkviðri. Urðu allmiklar skemmdir af því hér í bænum: Tveimur bryggjum sópaði alveg burtu en flestar skemmdust til muna, þar á meðal hin marglaskaða bæjarbryggja. Kolageymsluskúr við W. Christensens verslun féll gersamlega að grunni, og hliðin á bryggjuhúsinu" brotnaði annarsvegar og tók þar út nokkrar vörur. Búð Helga kaupmanns Helgasonar beið þó einna mestar skemmdir, brotnuðu hliðveggirnir beggja megin að neðanverðu, og skemmdist þar allmikið af vörum, 50-60 sekkir af mjöli, nokkuð af kaffi og sykri m.fl. Fiskiskútuna Sleipni", eign Guðna bónda á Vatnsnesi, tók út af stakkstæði og rak upp annarsstaðar, allmikið brotna.
Hjá Jóni bónda í Skildinganesi brotnaði sexmannafar í spón og tveir bátar til muna. Víðar urðu og skemmdir á skipum og sjávargarðar löskuðust meira og minna. Geymsluhús í Hvassahrauni skekktist í hafrótinu og tók þar út allmikið af matbjörg jarðarábúendanna. - Um fjárskaða í veðri þessu hefur ekki frést, nema hjá Jóni bónda Ólafssyni á Bústöðum, fátækum manni. Hann missti um 20-30 fjár, er rotaðist í fjörunni undir klettunum í Fossvogi. - Austanfjalls (á Eyrarbakka og þar í grennd) kváðu ekki hafa orðið neinar verulegar skemmdir af veðrinu, enda kveðið þar miklu minna að því.
Austri birtir bréfkafla Hornafirði 30.janúar 1895, bréfið dagsett á gamlársdag:
Tíðarfar hefir verið mjög óstöðugt nærri því síðan með vetrarbyrjun, ýmist útsunnan hryðjur og hörð norðaníhlaup í milli, en sjaldan samt mikið frost, mest 10°. Þ. 28. þ.m. gjörði óttalegt norðvestanrok svo allt ætlaði úr greinum að ganga, samt hefir ekki frést að skaðar hafi orðið hér nærlendis í því veðri.
Ísafold birtir 19.janúar bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett á gamlaársdag:
Það sem af er vetri þessum hefir tíðarfar verið mjög óstöðugt, oft rigningar mjög stórgerðar eða þá frost og snjór; hefir fénaður því talsvert hrakast, einkanlega þar, sem lítt hefir verið hirt um að hýsa hann eða heyja, en í sumum sveitum sýslu þessarar mun eigi enn vera farið að gefa fullorðnu fé eða hrossum.
Lýkur hér í bili yfirferð um 1895.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:38 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 132
- Sl. sólarhring: 235
- Sl. viku: 1097
- Frá upphafi: 2420981
Annað
- Innlit í dag: 120
- Innlit sl. viku: 969
- Gestir í dag: 116
- IP-tölur í dag: 115
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.