6.4.2018 | 20:46
Af árinu 1839
Ekki eru margar línur um árið 1839 í riti Þorvaldar Thoroddsen, Árferði á Íslandi í þúsund ár, aðeins 6 og teknar nær orðrétt úr fréttaritinu Gesti vestfirðingi (1. árgang 1847). Gestur segir um árið:
Árferði í góðu meðallagi, norðanáttir að staðaldri, oftast þurrviðri, en lítil úrfelli; grasár varð því í lakara lagi, en nýting góð. Sjáfarafli allsæmilegur, nema í Dritvík, þar varð hlutarhæð að eins 50 til 110, fiskar.
Við skulum nú reyna að grennslast nánar fyrir um tíðarfar þessa árs. Það er merkilegt fyrir einmitt það sem pistill Gests segir. Þurrviðri vestanlands og þrálátar norðanáttir. Jón Þorsteinsson mældi enga úrkomu i september. Er það eini úrkomulausi mánuðurinn í allri mælisögu höfuðborgarinnar. Ef til vill hefðu nútímaaðferðir þó skilað einhverju. Í ágúst mældist úrkoman aðeins 4 mm og aðeins 376 mm samtals allt árið. Hætt er við að þurrkur af þessu tagi væri nú kenndur hnattrænni hlýnun - enda alvarlegur. Árið áður var ekki mikið betra hvað þetta varðar - en um það fjöllum við vonandi síðar.
Enginn mánuður ársins telst hlýr, en hiti var þó ofan langtímameðaltala í Reykjavík í apríl, ágúst og september. Sérlega kalt var í janúar og febrúar og svo einnig í desember, en líka kalt í mars, maí og október. Tölur má finna í viðhengi.
Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík árið 1839. Þar má sjá að hitafar vetrarins var órólegt og frost fór alloft niður fyrir -10 stig. Mest var frostið -20 stig þann 18. febrúar - og á gamlársdag (næsta vetur) fór það niður í -16. Allmargir hlýir dagar komu um sumarið og fór hiti fjóra daga í 20 stig, 13., 21., 22. og 28.júlí, en skortur var á mjög hlýjum nóttum í þurrkunum.
Enda skila engir sérlegir hlýindadagar (á langtímavísu) sér í net ritstjóra hungurdiska - en aftur á móti 18. kaldir. Oft langt mál er að telja þá alla upp, en þrír komu í röð 6. til 8. janúar, aðrir þrír 29. til 31., enn þrír í röð 17. til 19. febrúar og fjórir í röð 24. til 27. desember. Síðasta frost að vori var 27. maí og fyrsta haustfrostið 25. september, en hiti hafði þó farið niður í frostmark 31. ágúst, 1. og 2. september.
Jón getur engrar úrkomu frá og með 26. ágúst til og með 3. október - og ekki heldur frá 14. júlí til og með 5. ágúst - og eftir smáúrkomu þann 6. var þurrt til þess 25.
Jón sendi danska vísindafélaginu skýrslur sínar tvisvar á ári - með haustskipum í september og vorskipum í mars. Hann segir í athugasemd með haustskýrslunni 3. september - (þá var reyndar mánuður eftir af þurrkatíðinni):
Det vil af denne Sommers Observationer erfares af den har været overordentlig tör, i det mindste 12te Julii til 31 Augusti, ligesom og at det har været særdeles behageligt og stadigt Vejr i den Tid, og Barometeret ligeledes har vist mindre Foranderlighed, en ellers i Almindelighed, her er Tilfældet.
Eða í lauslegri þýðingu:
Sjá má af veðurathugunum þessa sumars að það hefur verið sérlega þurrt, að minnsta kosti frá 12. júlí til 31. ágúst. Að auki hefur veðrið verið sérlega stöðugt og þægilegt á þessu tímabili og loftvogin hefur sömuleiðis hreyfst minna en venjulegt er hér um slóðir.
Tínum nú til aðrar heimildir - og byrjum á Brandstaðaannál:
Eftir nýár snjógangur og vestanátt. Jólastorkan linaðist í lágsveitum, svo snöp varð. Með febrúar kom jörð að austanverðu í dölum. Í miðjum febrúar skipti um til norðanáttar með miklum hörkum. Rak þá hafís fast að landi. Var í þeim mánuði ei kafaldslaus dagur til uppsveita, með jarðbanni og líkt í dölum móti austri. 4.-6. mars kom jörð mót vestri og 12.-14. í sveitum og fór þá frá hafísinn. Einmánuður varð hinn besti og blíðasti, er menn mundu til, 8.-16. apríl stöðug heiðarleysing. Var þá að mestu unnið á túnum og litkuðust sum.
Með sumri spilltust veður með fjúkslyddum og frostum og óstöðugu veðri til 9. maí, að gróður og góðviðri kom. Eftir fardaga stillt og náttfrostasamt. Lagðist ísinn þá að aftur. Um Jónsmessu komust skip hér á höfn. (s131) Í júlí þurrkar, en stormar og kuldar ytra með gróðurleysi. Sláttur byrjaði með hundadögum. Gekk hann seint á túnum og harðlendi, því nú varð mesta þurrkasaumar og oft sterkir hitar. Grasvöxtur varð góður á flóum og flæðiengi og heyskapur æskilegur, en hinir fengu í minna meðallagi, en notagóðan heyafla. Sláttartími varð langur, því réttir urðu 26. sept.
Haustið varð allgott. 1. og 10. okt. snöggleg fönn, er tók fljótt af. Undravert þótti hér, að úti á Skaga ásamt norðurútkjálkum urðu, einkum í september, norðanþokur og þerrileysi, svo skemmdir urðu á heyi. Í nóvember góð vetrartíð til 26., að fönn lagði á og með desember frostleysur og snjókyngja. 6. gjörði norðanrigning mikla og jarðlaust fyrir hross og fé í lágsveitum. Til hálsa náðu hross niðri. Þar eftir voru stöðugar norðanhörkur með og kafaldsbarningur til nýárs og hríð á jóladaginn. Voru þá flest hross á gjöf komin. (s132)
Í annál 19 aldar (Pétur Guðmundsson) segir m.a. um árið 1839:
Vetur var mjög mislægur, kallaður góður í Þingeyjar-, Vaðla- og Skagafjarðarsýslum, en harður í Húnavatns-, Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Árnessýslum. Kom þó víðast góður bati á góu og tók eigi eftir það fyrir jörð, og eftir páska kom æskileg hláka. [Páskadagur var 31. mars]. Vorið var víðast kalt og stormasamt; varð því gróður lítill og heyfengur í minna lagi. Nýting góð og hagfellt veður, einkum um túnaslátt, nema í Þingeyjar- og Vaðlasýslum. Haustið var ofviðra- og hretasamt. Voru kýr venju fyrr teknar á gjöf og lagði vetur snemma að. Spilliblota gerði á jólaföstu og skáru margir af fénaði þeim, er þeir höfðu ætlað sér að setja á, og þótti flestum nyrðra viðskilnaður ársins voðalegur, en betra var um sauðajörð á Suðurlandi.
Bjarni Thorarensen amtmaður og skáld sat um þessar mundir á Möðruvöllum í Hörgárdal, amtmannshúsið nefndist Frederiksgave (líka nefnt Friðriksgáfa).
Frederiksgave 14-2 1839 (Bjarni Thorarensen):. Hafís sást í janúar en hvarf aftur austur og norður fyrir Sléttu, vetur umhleypingasamur með sífelldri vestanátt, svo eg er hræddur um að sá hvíti komi aftur og heimsæki okkur eins og hin árin. (s140)
Jón Þorsteinsson segir í athugasemd með vorskipaskýrslunni, dagsett 28. febrúar (í lauslegri þýðingu):
Veturinn hefur annars verið mjög hvassviðrasamur og kaldur. Loftvogin oft staðið undir 27 tommum [975 hPa] og hitinn oftar en einu sinni farið niður í -15°R [-18°C] og mest í -16°R [-20°C].
Hér koma svo nokkrar tilvitnanir í samtímabréf:
Bessastöðum 3-3 1839 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s179) Hér er nú mikið harður vetur og soddan sultur og seyra, að eg man ekki slíkan í tuttugu ár.
Frederiksgave 28-7 1839 (Bjarni Thorarensen):: Grasvöxtur hér vesæll og þaðanaf verri í Múlasýslum sökum kulda af landnyrðingum. (s167)
Frederiksgave 2-9 1839 (Bjarni Thorarensen): Vor kalt, bærilegur, kafli frá fardögum til Jónsmessu, en síðan oftast kalt, því hafísinn er harla nærri, því grasvöxtur er með versta slag, sumstaðar ekki betri en 1835, nokkrir, einkum sumstaðar í Þingeyjarsýslu, eiga fyrningar af heyjum frá því í fyrra, en í vestra parti amts þessa verður ástandið að því leyti lakara sem fyrningar eru minni af því næstliðinn vetur var þar úr hófi áfreðasamur. (s247)
Frederiksgave 7-9 1839 (Bjarni Thorarensen): Illa horfist víða á í haust vegna grasbrestarins einkum í vestra parti amts þessa og jafnvel hér, því fyrningar voru litlar afþví vetur var áfreðasamur, en betra í Þingeyjarsýslu hvar vetur var hagkvæmari og fyrningar töluverðar. (s143)
Bessastöðum 25-9 1839 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s184) Besta og hagfelldasta sumar, logn og þurrkar, má kalla gengið hafi í ellefu eða tólf vikur, fiskur mikill hér, en grasbrestur ...
Laufási 9-10 1839 [Gunnar Gunnarsson] (s86) Umhleypingsstormar þeir í fyrra héldu við af og til, til þess hallaði út vetri, eða þó réttar sagt með góukomu. Veturinn varð víðast snjóalítill, svo margir eftirlétu hér töluvert af heyjum. Hafís var á flækingi hér úti fyrir frá miðjum febrúar og til þess að komið var langt fram á vor. Það fór að gróa snemma, eða um sumarmálaleyti í vor, en sá gróður fór bráðum aftur vegna norðlægra kulda þræsinga og hríðarhreta í millum, svo að í sumar varð mesti grasbrestur hér nyrðra, einkum í þessari sýslu, hvar ogsvo voru svo miklir óþurrkar, einkum síðan áleið sumar, að töluvert er ennþá úti sumstaðar af heyi, sem líklega er orðið eður verður að litlum notum framar.
Frederiksgave 10-10 1839 (Bjarni Thorarensen): Bréfsefnið er að segja þér örgustu ótíðindi úr öllum eystri hluta amts okkar, nefnilega svo staklegra óþurrka sökum sífelldra landnyrðinga að töður lágu enn óhirtar í septembermánaðarlok á Sléttu ... (s147)
Bessastöðum 28-10 1839 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s185) Eftir það þægilegasta sumar höfum við líka sæmilega gott haust ...
Frederiksgave 15-2 1840 (Bjarni Thorarensen): Tíðindin eru hvorki góð né mikil. Vetur um allt amtið með verstu jarðbönnum frá nóvemberlokum til nú. Hey lítil og skemmd. ... Hafís kominn og farinn vesturmeð en í þetta sinn er hann borgarís mest og því lengra að, vona ég því að þetta verði seinasta hafísárið einsog það 7da. ... Það dómadags snjóflóð kom útí (s148) Siglufirði á sjó niður að honum sletti upp hinumegin svo skip sem þar stóðu uppi brotnuðu nokkur í spón en hin löskuðust og sjór fór þar inní kaupmannshúsin. (s149)
Í lokin sagði Bjarni frá snjóflóðinu merkilega sem féll á Siglufirði á Þorláksmessu 1839. Í annál 19. aldar (s126) segir að flóðið hafi fallið fyrir framan Staðarhól í Siglufirði ofan í sjó og yfir fjörðinn, sem er hér um bil 400 faðmar á breidd og 20 faðma djúpur, og ruddi sjónum undan sér upp á land fyrir framan kaupstaðarhúsin, losaði um 7 skip á hvolfum, stór og smá, og skemmdi eða braut þau meira og minna.
Að vanda er ekki auðvelt að ráða í veðurbækur Jóns í Möðrufelli, en þó má sjá að hann segir janúar hafa verið í heldur lakara lagi og febrúar líka. Í mars hafi veðrátta hins vegar verið góð nema fyrstu og síðustu dagana og aprílmánuð segir hann yfirhöfuð í betra lagi. Maí hafi verið mjög kaldur, júní nokkuð skárri, en þó segir hann 29. júní að nýliðin vika hafi verið andköld með næturfrostum oftast. Júlí og ágúst sömuleiðis andkaldir. September yfir höfuð bágur, en samt ekki stóráfellasamur. Október óstöðugur, nóvember í meðallagi, en desember mátt heita harður og hin ákaflegustu frost. Árið allt hafi verið í bágara lagi.
Í ísannál sínum (Árferði á Íslandi) segir Þorvaldur Thoroddsen frá ferð Jónasar Hallgrímssonar á skipi til Norðurlands í júní 1839:
Það vor var Jónas Hallgrímsson á ferð frá Kaupmannahöfn til Akureyrar og 12. júní sáu þeir hafís 14 mílur fyrir austan Langanes, veður var kyrrt en svarta þoka og hrím og ís á reiða skipsins; þó þeir væru tvær mílur frá ísnum, heyrðist þaðan brak og brestir og niður eins og af brimhljóði, þó var blæjalogn og ládeyða. Daginn eftir varð ísinn fyrir þeim, svo þeir komust eigi fyrir Langanes fyrr en 16. júní, tveim dögum síðar náðu þeir opi Eyjafjarðar og urðu að brjótast gegnum íshroða inn í fjörðinn. (s395)
Í annál 19. aldar er langur listi slysa sem urðu á þessu ári, bæði á sjó og landi. Sum þeirra tengdust greinilega veðri. Sagt er frá miklum hrakningum sem fáeinir bátar lentu í undan Snæfellsnesi og á Breiðafirði laugardaginn fyrsta í þorra. Segir m.a.:
Dimmviðri var austan um morguninn, en veður buldi í fjallinu. Komust allir til veiða og lögðu sumir er fyrstir komu, tvö köst, en hinir eitt. Brast þegar á hið mesta æsingsveður, er menn drógu seinna kastið. Sagði Andrjes Bjarnason, húskarl Ólafs Sívertsens prests í Flatey, að aldrei myndi hann þvílíkt veður um 18 vetur, er hann hafði verið undir Jökli og 12 af þeim formaður (s124).
Tveir menn urðu úti fyrir jólin í Húnavatnssýslu (s126) og tveir nærri Raufarhöfn. Maður varð úti á Höfðaströnd 7. desember og annar á Þorláksmessu í Sléttuhlíð í Skagafirði.
Þess má að lokum geta að árið þótti illviðrasamt á Bretlandseyjum og snemma í janúar gekk þar yfir gríðarlegt ofviðri í tenglum við eina dýpstu lægð sem þar hefur sýnt sig (þrýstingur innan við 930 hPa).
Ritstjóri þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á texta Brandstaðaannáls og Sjöfn Kristjánsdóttur fyrir að greiða úr athugasemdum Jóns Þorsteinssonar. Bréfatilvitnanir eru flestar úr útgáfum Finns Sigmundssonar á bréfum fyrri tíma - og er vísað í blaðsíðutöl þeirra rita.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 1.9.2020 kl. 16:44 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 96
- Sl. sólarhring: 240
- Sl. viku: 1061
- Frá upphafi: 2420945
Annað
- Innlit í dag: 88
- Innlit sl. viku: 937
- Gestir í dag: 87
- IP-tölur í dag: 86
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.