Hreinsar frá?

Þegar þetta er ritað er enn eitt landsynningsillviðrið um það bil í hámarki um landið vestanvert. Mjög hvasst er víða og sömuleiðis gríðarleg úrkoma - (mismikil þó eins og gengur). Lægðin sem veldur er um 940 hPa í miðju, en rúmlega 1040 hPa hæð yfir norðanverðri Skandinavíu heldur á móti. Það er forn þumalfingurregla að birtist 16 jafnþrýstilínur eða fleiri á sama norðuratlantshafskortinu sé þar einhvers staðar fárviðri. - Nú eru þær um tuttugu. 

En lægðin grynnist hratt til morguns og hörfar - hæðin styrkist að vísu og leitar til vesturs - en morgundagurinn, laugardagur 24. febrúar, virðist þó ætla að verða skárri en dagurinn í dag. Kuldaskil lægðarinnar eiga að komast alveg austur fyrir land síðdegis. 

En hæðin vill sitt - áhrifasvæði hennar er austan við skilin og eigi hún að ná völdum hér verður hún að senda þau vestur fyrir aftur - eða að minnsta kosti að skera þau í sundur. Reiknimiðstöðvar hafa verið nokkuð ósammála um smáatriði þeirrar sóknar en kortið hér að neðan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna um hádegi á sunnudag (25. febrúar).

w-blogg230218a

Sé eitthvað að marka þetta er sunnanveðrið um það bil að ganga aftur. Líkur eru þó á að það verði talsvert linara en það var í dag og að mesta úrkoman fari vestan við land. - En það er sum sé ekki alveg búið. Svo gætu smáatriði í framhaldinu orðið skemmtileg. Reiknimiðstöðin segir þessi skilaátök nefnilega eiga að halda áfram - allt þar til á fimmtudag í næstu viku. Hádegisspárunan í dag segir skilin þá koma enn aftur - úr norðri og töluverðan kuldaþræsing í kjölfarið. Ekki er þó víst að hægt verði að halda þræði í þeirri sögu allri. 

En hæðin á að fara yfir 1050 hPa á mánudag og þriðjudag. Háloftahæðin yfir (sem stjórnar) verður þó farin að laumast vestur á bóginn - verður á sunnudag við Færeyjar, við austanvert Ísland á þriðjudag, komin til Suður-Grænlands á fimmtudag og um næstu helgi langt vestur í Ameríku. Fari svo opnast brautir norðlægra og kaldra vinda til Íslands.

En lítum til Evrópu. Mikill kuldi streymir þar til vesturs frá Síberíu.

w-blogg230218b

Kortið sýnir stöðuna síðdegis á sunnudag - einmitt í þann mund sem sunnanveðrið snýr aftur til okkar. Litirnir sýna þykktina - í svalri sumarstöðu hér á landi - kuldinn leikur hins vegar um mestalla Evrópu - og á eftir að fara vestar.

Það er þægilegt að fylgjast með hita með því að skoða breytingar á þykktarkortum því þykktin er lítt trufluð af landslagi og hinir stóru drættir sjást mjög vel. Aftur á móti verðum við ætíð að hafa í huga að þó gott samband sé á milli þykktar neðri hluta veðrahvolfs og hita í mannheimum víkur oft nokkuð frá. 

Loft sem streymir yfir snævi þakið land hlýnar lítt og þannig er því varið með Síberíuloft sem kemur til Evrópu beint úr austri eða norðaustri. Hiti neðst í veðrahvolfinu hefur tilhneigingu til að vera lægri heldur en almennar þykktarþumalfingursreglur segja til um. Hiti á kalda svæðinu á kortinu er því trúlega lægri en hann væri við sömu þykkt hér við land. 

Hér á landi er (oftast) kaldara í norðanátt heldur en í vestanátt við sömu þykktartölur. Nóg um það.

Vísindamenn gerðu sér grein fyrir sérkennum austankuldans í Evrópu þegar á 18. öld og töluðu um kaldan, mjóan ás sem geti teygt sig allt til suðvesturhluta Pýrenneaskaga - jafnvel með samtímahlýindum í Skandinavíu og óróa við Miðjarðarhafið. - Ritstjóri hungurdiska minnist þess að hafa einhvern tíma séð kuldaásinn teygja sig allt suðvestur til Kanaríeyja frá Rússlandi - en vonandi sleppa eyjarnar nú.

Aftur á móti senda reiknimiðstöðvar þykktina á Bretlandi niður undir 5000 metra - slíkt er óvenjulegt þar um slóðir (og kannski ólíklegt að af verði) - hún fer ekki svo neðarlega hér á landi á hverjum vetri. Íslandsmetið (á tíma áreiðanlegra háloftamælinga) er um 4900 metrar - svipað og sjá má í fjólubláa blettinum yfir Rússlandi á kortinu (ekki svo mjög óalgeng þykkt þar um slóðir). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 123
  • Sl. sólarhring: 255
  • Sl. viku: 1088
  • Frá upphafi: 2420972

Annað

  • Innlit í dag: 113
  • Innlit sl. viku: 962
  • Gestir í dag: 110
  • IP-tölur í dag: 109

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband