5.2.2018 | 23:05
Af illviðrinu mikla 4. febrúar 1968
Um þessar mundir er þess minnst að hálf öld er liðin frá illviðrinu mikla 3. til 5. febrúar 1968 en þá fórust tveir breskir togarar auk vélbátsins Heiðrúnar II á Ísafjarðardjúpi. Snjóflóð féllu víða, skemmdir urðu af veðurofsa og samgöngur riðluðust. Veðrið skall á nokkuð snögglega seint á laugardagskvöldi og þorrablót stóðu víða yfir - enn muna það margir. Hér verður veðrið rifjað lauslega upp.
Við lítum fyrst á blaðafyrirsagnir. Hin fyrri er úr Alþýðublaðinu þriðjudaginn 6. febrúar og segir frá örlögum togaranna tveggja - talið er að gríðarleg ísing í veðurofsanum hafi valdið því hvernig fór.
Í Morgunblaðinu daginn eftir er sagt frá árangurslausri leit að Heiðrúnu, trúlega hafa örlög hennar verið svipuð og togaranna. Sömuleiðis er hér sagt frá ástandinu á Reykhólum en sá staður varð sérlega illa úti. Veðurharkan varð mest um mestalla Vestfirði, alls staðar þar sem norðanátt nær sér á annað borð á strik og suður um Dali og Snæfellsnes. Mjög hvasst varð víða um land, en ólíkindin í veðrinu voru mest á Vestfjörðum.
Í fljótu bragði virðist rólegt yfirbragð á þessu veðurkorti. Það sýnir stöðuna síðdegis föstudaginn 2. febrúar - þá var aðeins rúmur sólarhringur í að veðrið skylli á. Grunnar lægðir eru á sveimi fyrir suðvestan land - ekki endilega líklegar til stórræða. Þegar nánar er að gáð sést þó tvennt á kortinu sem vekur ugg. Annars vegar er mikil framrás kulda vestan Grænlands - strikalínurnar sýna hita í 850 hPa-fletinum - og að jafnþrýstilínur liggja nokkurn veginn þvert á þær. Hins vegar er mjög hlýtt loft á leið til norðurs við lægðina suðaustur af Nýfundnalandi.
Staða sem þessi er mjög eitruð og sést jafnvel betur á háloftakortinu.
Kuldapollurinn mikli, Stóri-Boli, rennir jökulkaldri bylgju úr vestri til móts við hlýju tunguna sem nálgast úr suðri. Ekki óalgeng staða í sjálfu sér, þó stefnumót sem þetta takist ekki nærri því alltaf - oft fara kuldi og hlýindi á mis og lítið gerist.
En enginn mistök hér.
Sólarhringur liðinn, klukkan orðin 18 síðdegis laugardaginn 3. febrúar. Trúlega kominn stormur á Vestfjarðamiðum - og um það bil að skella inn á land, en vindur almennt hægur á landinu. Lægðin nýja í foráttuvexti beint fyrir sunnan land, kom svo upp að Suðausturlandi um kvöldið og sendi útskot til norðurs um landið.
Um nóttina gerði síðan mikið illviðri af norðaustri um stóran hluta landsins. Austanlands var hláka og fljótlega hlánaði líka víða norðaustanlands.
Kortið sýnir greiningu japönsku veðurstofunnar á hádegi þann 4. Lægðin um 952 hPa rétt við Suðausturland og greina má aðra lægðarmiðju yfir Norðurlandi vestanverðu. Sú greining er rétt, en norðurlandslægðin var þó talsvert snarpari en hér er sýnt og hafði það afleiðingar á hörku veðursins á Vesturlandi.
Þetta er Íslandskortið kl.9. Stóra lægðarmiðjan er fyrir suðaustan land, en önnur miðja er yfir Húnavatnssýslum, þrýstingur á Hjaltabakka er 960,1 hPa, en 984,9 hPa á Hornbjargsvita. Það munar 24,8 hPa. Fjarlægðin á milli er í kringum 1 breiddarstig - samkvæmt því ætti þrýstivindur að vera meiri en 100 m/s - hreint ótrúleg tala. Kannski hefur mesti vindur yfir landi verið meiri en 50 m/s og hviður þaðan af meiri. Athugunarmaður í Æðey taldi vindhraða 14 vindstig þegar mest var.
Svo lítum við betur á tölur á kortinu. Það er -11 til -12 stiga frost á Vestfjörðum - en um frostmark við innanverðan Húnaflóa. Í Reykjavík er -6 stiga frost og glórulaus hríð. Fárviðri er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, sömuleiðis í frosti og glórulausri hríð. Í Vestur-Skaftafellssýslu er vindur hins vegar hægur og hiti ofan frostmarks.
Á háloftakortinu sem gildir líka á hádegi má sjá hvers eðlis er. Hlýtt loft úr suðri og austri þrengir að heimskautalofti við Grænland - það ryðst til suðurs um Grænlandssund og Vestfirði - óvenjukalt vegna gríðarmikils hafíss í norðurhöfum um þetta leyti. Inni á Ísafjarðardjúpi hefur að auki verið kuldi í sjó eftir langvinna kuldatíð - kannski togararnir hefðu þrátt fyrir allt sloppið betur hefðu þeir haldið sig utan þess - þar sem meiri von var um heldur hlýrri sjó - og kannski var veðrið líka enn verra í fallvindum Snæfjallastrandar heldur en utar.
En sjóslysunum hefur verið vel lýst á öðrum vettvangi og verður það ekki reynt frekar hér.
Hér sjáum við gang loftþrýstings og þrýstispannar yfir landinu dagana 21. janúar til 9. febrúar 1968. Rauði ferillinn sýnir lægsta loftþrýsting landsins á 3 klukkustunda fresti - kvarðinn til hægri á myndinni. Síðari hluta janúar gengu nokkrar snarpar og hraðfara lægðir yfir landið, en lægðin sem við höfum verið að fjalla um er í öðru þrýstiumhverfi - hár þrýstingur bæði á undan og eftir.
Gráu súlurnar sýna þrýstispönn yfir landið á 3 klukkustunda fresti - hreyfingar hennar sýna breytingar á vindhraða allvel. Athygli vekur hversu fljótt spönnin breyttist að kvöldi þess 3. Frá því kl. 18 til kl. 21 stökk hún upp úr 6,5 hPa í 18,8 og kl. 3 var hún komin upp í 30,0 hPa. Menn héldu inn til borðhalds á þorrablótum í hægu veðri - en síðan tóku hús að hristast og illfært út og heim. Ritstjórinn minnist nokkurra frásagna.
Það var ekki fyrr en á hádegi þann 5. sem spönnin komst svo niður fyrir 20 hPa aftur - það er langt í frá nein blíða. Algengast er að þrýstibratti sem þessi sé nokkuð dreifður yfir landið - en við sáum hér að ofan að svo var raunar ekki í þetta sinn, hann var langmestur yfir Vestfjörðum - og um tíma einnig yfir Vesturlandi - en mun venjulegri í öðrum landshlutum.
Samfara lægðinni sem fór hjá þann 26. janúar komst spönnin mest upp í 29,9 hPa en það veður var mjög skammvinnt eins og sjá má á línuritinu. Veðrabrigðin sem urðu á Akureyri síðdegis þann dag eru ritstjóra hungurdiska sérlega eftirminnileg. Mikil lausamjöll var á jörðu og þegar norðanáttin skall á rann allt út í eitt á andartaki.
Í þessu janúarveðri er talið að togarinn Kinston Peridot hafi farist við Mánáreyjar - vafalítið vegna ísingar - en hann hvarf reyndar án þess til hans spyrðist.
Fyrir utan sjóskaðana má líka nefna að í veðrinu urðu geysimiklar skemmdir á Vestfjörðum, við Breiðafjörð og á Norðurlandi, bátar skemmdust eða sukku, rafmagnsstaurar brotnuðu. Fjárhús og skúr fuku, sömuleiðis járn af húsum og rúður brotnuðu.
Járnplötur fuku nokkrum af húsum í Stykkishólmi, þar varð talsvert tjón í höfninni, Á kortinu hér að ofan má sjá að þar blés af norðvestri kl.9, mjög óvenjuleg hvassviðrátt í Hólminum.
Í Hvallátrum á Breiðafirði urðu miklir skaðar á fjárhúsum. Stórfellt tjón varð á Reykhólum, allar rúður brotnuðu í kirkjunni og hurðir sprungu, þak tók af hluta barnaskólahússins og þar brotnuðu allar rúður og miklar skemmdir urðu á útibúi kaupfélagsins, fólk varð að flýja húsið Mávavatn vegna skemmda, vélageymsla stórskemmdist á Höllustöðum, bílskúr fauk á Grund og jeppi á Litlu-Grund.
Járnplötur fuku af þökum á Hellissandi og á Rifi, sömuleiðis á Bíldudal. Þak fauk af íbúðarhúsi í Bolungarvík. Járn tók af húsum í Fornahvammi. Hluti þaks á íbúðarhúsi á bænum Nýlendu í Deildardal í Skagafirði fauk. Gríðarlegar síma- og rafmagnslínuskemmdir urðu, mest um landið vestanvert, en einnig urðu rafmagns- og símabilanir austanlands.
Snjóflóð féll úr Strengsgili á Siglufirði á íbúðarhús og eyðilagði það. Mannbjörg varð. Einnig féll snjóflóð féll á bæinn Grund í Reykhólasveit, bar stórgrýti á íbúðarhúsið og tók fjárrétt. Snjóflóð féll einnig á tvo fjárhús á Drangsnesi, um 60 kindur drápust. Snjóflóð féll á bæinn Ketilsstaði við Hvammsfjörð, tók geymsluskemmu og olli talsverðu tjóni. Næstu nótt laskaði snjóflóð heyhlöðu á bænum. Snjóflóð tók sömuleiðis af brúna á ánni Mórillu í Kaldalóni.
Afskaplega hart, hörmulegt og minnisstætt veður.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 123
- Sl. sólarhring: 255
- Sl. viku: 1088
- Frá upphafi: 2420972
Annað
- Innlit í dag: 113
- Innlit sl. viku: 962
- Gestir í dag: 110
- IP-tölur í dag: 109
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Takk fyrir þetta, Trausti. Afskaplega fróðlegt fyrir okkur sem upplifðum þetta veður að geta lesið svona gríðargóða útlistun á "mekanikinni" í þessum voðaatburðum. Það er nokkuð um liðið frá því náttúruöflin hafa byrst sig með sambærilegum hætti og þau gerðu áður og fyrr og vonandi verður langt í að slíkt gerist aftur, en við vorum óþyrmilega minnt á það t.d. í snjóflóðunum 1995 hvað við erum í rauninni vanmáttug með alla okkar tækni og viðbúnað þegar slíkt gerist. Enn og aftur takk fyrir.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 6.2.2018 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.