Glitský

Ritstjóri hungurdiska trúði vart eða ekki eigin augum við sólarlag í dag þegar hann þóttist sjá glitský í norðausturátt yfir Borgarfirði - þau voru ekki með allraskýrasta móti því afarþunn blikubreiða var einnig á lofti - en samt. 

Nú í kvöld var Ingibjörg Jónsdóttir í HÍ svo vinsamleg að vísa á gervihnattamynd sem tekin var um svipað leyti og sýn ritstjórans átti sér stað. Hér að neðan er klippa úr þeirri mynd.

w-blogg030218c

Örin bendir á skýin sem ritstjórinn sá - en annars var mikil breiða glitskýja yfir landinu. Lesendur hungurdiska á fjasbókinni hafa þar sett inn fáeinar ágætar myndir teknar fyrir norðan í dag og í gær - takk fyrir það gott fólk. Sjálfsagt má víðar sjá fleiri myndir á vefmiðlum. 

En staðan í dag er nokkuð óvenjuleg - í gær (föstudag) var glitskýja beinlínis að vænta - hvöss vestlæg átt í öllum hæðum, allt frá jörð og langt upp í heiðhvolf - og að auki kalt í heiðhvolfinu. Tilefni til reglubundinna bylgjusendinga upp á við. Svipuð staða á að verða uppi á morgun sunnudag. Sýning er þá líkleg um landið norðan- og austanvert - en syðra sést ekkert fyrir skýjum.

Í dag var vindastaða hins vegar flóknari - og í fljótu bragði síðri til sýningarhalds.

w-blogg030218a

Þetta kort gildir á hádegi í dag (laugardag). Þar má sjá jafnhæðarlínur 300 hPa-flatarins heildregnar og sömuleiðis hefðbundnar vindörvar. Þunnu rauðu línurnar sýna hvernig hæð 300 hPa-flatarins á að breytast næstu þrjár stundir (flöturinn hækkar), en þær bláu eru dregnar þar sem lækkandi flatar er að vænta. 

Litafletirnir sýna hins vegar vindhraðabreytingu næstu 3 klst. Hún er svo mikil yfir Íslandi að hún sprengir kvarðann. Í hvítu blettunum á vindur að aukast um meir en 100 hnúta (50 m/s). Það sem er að gerast er að veggur af lofti úr suðvestri er að ganga yfir landið rétt neðan veðrahvarfa - og trampar á lægðardragi sem á undan er. Við þetta lyftast veðrahvörfin snögglega og allt þar fyrir ofan kólnar og bylgja myndast. Við sjáum að glitskýabandið yfir landinu (á myndinni) er nokkurn veginn samsíða litasvæðinu á kortinu. 

Nú er ruðningur við norðausturbrún hæðarhryggja eins og við sjáum hér ekki sérlega óalgengur (þó 100 hnúta vindhraðabreyting sé í mesta lagi). Til að búa til glitský þarf frost helst að fara niður fyrir -75 til -78 stig. Venjulega er ekki nægilega kalt í heiðhvolfinu til að atburður af þessu tagi nái að búa til glitský - en er það hins vegar þessa dagana. Við skilyrði sem þessi er skýjamyndun hins vegar mjög algeng við veðrahvörfin - langar skýjapylsur verða til - jafnvel þúsundir km á lengd. 

w-blogg030218b

Hér sjáum við vind og hita í 30 hPa hæð, um 22,5 km ofan við jörð. Glitskýin gætu verið svona hátt uppi - kannski þó eitthvað neðar. Gríðarlegur vindur er þarna uppi og frost á fjólubláa svæðinu er meira en -82 stig - og meira en -90 stig í hvítu blettunum norðaustur í hafi. Fylgjum við jafnhæðarlínunni sem liggur rétt við Suðurland sjáum við að hún fer til skiptis í gegnum blá og fjólublá svæði. Það þýðir að lóðrétt hreyfing loftsins er trúlega töluverð (það kólnar á uppleið en hlýnar á niðurleið). 

Venjulega er það landið sjálft (eða Grænland) sem býr til bylgjuhreyfinguna sem svo myndar glitskýin. Í dag virðist sem málið hafi verið heldur flóknara - ruðningurinn við veðrahvörfin hafi gert það (kannski með hjálp landsins). 

En öll þessi romsa er án ábyrgðar - ritstjóri hungurdiska er ekki sérfræðingur í myndun glitskýja og vel má vera að slíkir kæmust að annarri niðurstöðu um atburð dagsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 153
  • Sl. sólarhring: 223
  • Sl. viku: 1118
  • Frá upphafi: 2421002

Annað

  • Innlit í dag: 135
  • Innlit sl. viku: 984
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 128

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband