Að jafna sig

Veðrið er nú að jafna sig eftir stórátök helgarinnar (sem við sluppum reyndar furðuvel frá). Lægðin stóra grynnist og þokast jafnframt til austurs og suðausturs (eins og algengast er).

w-blogg170118a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á fimmtudag. Lægðin er enn mjög stór - en hefur grynnst verulega og þrýstilínum umhverfis hana hefur fækkað að mun. Við sjáum að stórt svæði fyrir sunnan land er nánast þrýstilínulaust. Strekkingur er í Grænlandssundi - eins og oft er - þar liggja leiðir heimskautalofts langt úr norðri - einhvers staðar verður það að fá að renna fram. 

Illskeytt lægð er yfir Norður-Þýskalandi á hraðri leið austur. Hún hefur dýpkað og slaknað á víxl í spám undanfarna daga - í augnablikinu virðist ætla að verða minna úr henni heldur en útlit var fyrir um tíma - en samt er varla rétt að afskrifa hana - það borgar sig ekki að hringla mikið með veðurspár sagði einn af lærimeisturum ritstjóra hungurdiska í gamla daga. En það voru að vísu aðrir tímar - aldrei spáð lengra en tvo sólarhringa fram og ekki sama rými til hringls og nú er - þegar í raun og veru hringlar mikið í (svo hávaði verður af). 

Rauð ör hefur verið sett inn á kortið - bendir hún á skemmtilegt úrkomuband undan Vestur-Noregi þar sem mætast landloft að austan og sjávarloft að vestan. Band þetta er kyrrstætt langtímum saman, allt fram á laugardag - sé að marka reikningana - þjónustuþyrlur olíuiðnaðarins þurfa trúlega að fljúga í gegnum það (og fara væntanlega létt með). 

Svo má benda á að -5 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins kemur úr vestri inn yfir Írland - þetta er varla mjög venjulegt - línan sú kemur oftast úr norðri eða austri þar um slóðir. Enda er írska veðurstofan með bæði snjókomu- og vindaðvaranir í gildi - spáð er snjókomu á öllum svæðum nema Munster (suðvesturland þeirra). 

Ný lægð handa okkur er svo á sveimi við Nýfundnaland - en allt of langt er í að eitthvað handfast verði um hana sagt - enda ekki til ennþá - svipað og ofurhæðin sem verið er að spá yfir Síberíu um helgina - yfir 1070 hPa (ekki víst að slíkt rætist). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg220125a
  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 580
  • Sl. sólarhring: 671
  • Sl. viku: 2959
  • Frá upphafi: 2435401

Annað

  • Innlit í dag: 532
  • Innlit sl. viku: 2642
  • Gestir í dag: 511
  • IP-tölur í dag: 491

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband