Um norðanhvassviðrið (eða þannig)

Nú geisar hríð um landið norðanvert - og víða er hvasst, verður jafnvel hvassara um tíma á morgun. Við veltum okkur aðeins upp úr því (ekki auðlæsilega að vísu).

w-blogg241117a

Hér er eitt af lóðréttum sniðum harmonie-líkansins. Það liggur um landið þvert, frá austri til vesturs, eins og sjá má á litla kortinu í efra hægra horni. 

Hálendi landsins sést sem grár flekkur neðarlega á myndinni - þar stingur Hofsjökull sér hæst upp í um 820 hPa hæð, en hæsti flötur sniðsins er 250 hPa, í um 10 km hæð. Vindörvar sýna vindhraða og vindátt (á hefðbundinn hátt), en vindhraðinn er að auki sýndur í lit - til áhersluauka. Mjög mikill vinstrengur er hægra megin á myndinni, yfir landinu austanverðu, en lengst til vinstri - nokkuð fyrir vestan land er vindur hægur. Í Austurlandsstrengnum er vindur meiri en 32 m/s og upp í 36 til 38 m/s þar sem mest er. 

Það vekur athygli að hægra megin á myndinni er vindurinn mestur neðarlega, á frá 750 hPa og niður fyrir 950 hPa. Þetta köllum við lágröst (þar til betra orð og fallegra finnst). Fyrir ofan hana er vindur minni - og á bletti mjög lítill. 

Vinstra megin er vindurinn hins vegar mestur ofarlega - þar má sjá í mjóa röst með vindhraða yfir 40 m/s í um 9 km hæð. Sá vindur liggur alveg ofan á mun hægari.

Heildregnu línurnar sýna mættishita. Mættishiti vex (nær) alltaf uppávið (hlýtt loft liggur ofan á því kaldara). Ritstjórinn hefur sett rautt strik inn á myndina til að sýna hvar loftið í 500 hPa-fletinum er kaldast í sniðinu. Línan sem merkt er 292 er hvergi hærri á myndinni en einmitt nærri línunni - en er neðar til beggja hliða. 

Þetta sést vel á síðari myndinni.

w-blogg241117b

Hér sést vel hvernig læna af köldu lofti liggur yfir Vesturlandi, en hlýrra loft er til beggja handa. Litirnir sýna hitann - kvarðinn skýrist sé kortið stækkað. Örvarnar benda báðar út frá kulda til hlýrra lofts.

Við sjáum (á vindörvunum) að vindur blæs úr norðri á öllu því svæði sem örvarnar ná yfir. Við sáum á sniðinu að 500 hPa-flöturinn er ofan við eystri vindröst þess (þá til hægri), en neðan við vestari röstina (þá til vinstri). Töluverður hitabratti er til beggja átta við kaldasta beltið. Á smábletti yfir Breiðafirði er frostið meira en -36 stig, en er aftur á móti um -28 stig þar sem hægri örin endar úti af Norðausturlandi, svipað eða aðeins meira hlýnar í hina áttina. 

Meðan hæðarsviðinu sjálfu hallar öllu til austurs (og norðausturs allt til lægðarmiðju) hallar hitasviðinu sitt á hvað. Halli þess suðvestur af landinu er samstefna hæðarsviðinu - þar sér hitasviðið til þess að vindur við jörð er minni en í háloftum, austan við kalda ásinn er halli sviðanna hins vegar gagnstæður - þar bætir hitasviðið í vind við jörð. 

Ekki var þetta alveg einfalt - en þrekmikil veðurnörd gefa því samt gaum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband