Hefur hægt á hlýnun hér á landi?

Það skal tekið skýrt fram í upphafi þessa pistils að reikningarnir hér að neðan teljast til dellu. Málið er bara það (svo notað sé tískuorðalag) að ámóta dellu ber nánast daglega fyrir augu þeirra sem fylgjast með umræðum um loftslagsbreytingar. 

Ef fáeinir stakir kaldir dagar koma í röð birtast umsvifalaust fullyrðingar um að svonefnd hnattræn hlýnun hafi greinilega stöðvast - ef svalur mánuður sýnir sig magnast þær að mun. Því er svosem ekki að neita að hins öfuga gætir einnig nokkuð - því miður. 

Eftirfarandi hálffullyrðingu var varpað fram í athugasemd á fjasbókarsíðu hungurdiska fyrr í dag (20. ágúst): „Hlýnunin er í það minnsta mjög hæg þennan áratuginn!“ - En er hún það?

Það er reyndar svo (eins og ítrekað hefur verið fjallað um á þessum vettvangi áður) að hnattræn hlýnun er eitthvað sem tekur tíma - hún er að jafnaði ekki meiri en svo á hverju ári að mælingar heillar aldar þarf til að greina hana frá breytileika þeim sem skekur veður og veðurlag frá ári til árs. Undanfarna tvo til 3 áratugi hefur hún að vísu verið svo mikil að víða um heim hefur „merki“ hennar heyrst betur og betur - þar á meðal hér á landi. - En til allar hamingju er hún þó enn ekki meiri en svo að hún yfirgnæfir ekki allar aðrar sveiflur. Þegar og ef hún fer að gera það er sannarlega illt í efni. 

En hvernig á að reikna hvort hægt hafi á hlýnun þennan áratuginn? Það verður e.t.v. hægt að svara þeirri spurningu af einhverju viti eftir 20 til 30 ár - en ekki nú. Jú, það er hægt að reikna og það er hægt að fá útkomu - en lítt er að marka slíka reikninga.

Við skulum samt framkvæma þá - eða eina gerð þeirra - því úr mörgu er að velja.

w-blogg200817a

Þessi mynd sýnir daglegan meðalhita í byggðum Íslands frá 1.janúar 2006 til 19. ágúst 2017. Við sjáum að hiti er lágur á vetrum en hærri á sumrin - árstíðasveiflan yfirgnæfir allt annað. - Það kemur hún líka til með að gera sama hversu mikið hlýnar í framtíðinni og gerði það líka á ísöld. - En við skulum nú samt reikna leitnina í gegnum myndina - rauða línan sýnir hana. - Útkoman er harla ótrúleg og samsvarar 7,3 stiga hlýnun á 100 árum. Ef okkur dytti í hug að trúa þessu gætum við með engu móti sagt að hægt hefði á hlýnun - hún virðist snaróð. 

Gildran liggur í því að tímabilið sem valið var byrjar að vetrarlagi - en endar á miðju sumri. - Þetta nægir til að reikningarnir skila þessari (vonandi) fráleitu hlýnun. 

Við skulum losna við hluta vandamálsins með því að bæla árstíðasveifluna. Það gerum við með því að reikna 365 daga-keðjumeðaltöl hitans og reiknum leitni hans (það má strangt tekið ekki heldur - en samt er stöðugt verið að sýna slíka reikninga í umræðunni).

w-blogg200817b

Eftir sérlega flatt tímabili frá 2006 til 2013 hrökk hitafarið í annan (og eðlilegri) gír - yfir í meiri sveiflur. Reiknum við leitni á þessar tölur er útkoman 2,0 stig á öld, meir en tvöfalt á við hraða heildarhlýnunar frá því að mælingar hófust. Hefur hlýnunin þá hægt á sér? 

Að lokum lítum við á sömu tölur - en byrjum í árslok 2010 og reiknum hraða hlýnunar síðan þá.

w-blogg200817c

Jú, hér reiknast leitnin enn meiri, 3,6 stig á öld, milli þreföld og fjórföld meðalhlýnun frá upphafi mælinga. 

Hefur hlýnunin þá hægt á sér? 

Eins og áður sagði eru flokkast útreikningar sem þessir sem vafasamir. Við skulum enn ítreka það sem ítreka virðist þurfa nánast daglega: Veðurlag einstakra daga, mánaða, ára og jafnvel áratuga segir lítið sem ekkert um hnattræna hlýnun. Hún sýnir sig hins vegar í lengra samhengi. Þegar hún fer að sýna sig á annan hátt, t.d. með stöðugum og órjúfandi straumi hitameta og öfgaveðri er vís voði á höndum. Þökkum fyrir meðan svo er ekki. Líklegt er að næstu áratugi liggi ýmsar óvæntar veðuruppákomur í leyni - bæði þær sem túlka má sem aukinn þunga hlýnunar sem og þær sem verða túlkaðar á hinn veginn - að hlýnun hafi stöðvast.

Aðalgreinar hungurdiska (hingað til) um hitaleitni hérlendis birtust 28. apríl og 1. maí 2016 og 25. og 26. janúar 2017. Þær eru vitlegri en þessi - og ritstjórinn telur þær auðvitað skyldulesningu. -  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú alveg út í hött! Fyrr í greininni varar þú við að byrja mælingar um hávetur (og enda á hásumri). Þá verði skekkja mjög mikil (tekur dæmi af því, þ.e. hlýnun upp á 7,3 gráður á öld (frá ársbyrjun 2006) sem þú sjálfur viðurkennir að sé út í hött!). Samt gerir þú sömu vitleysuna með því að byrja tímabilið 2011 um hávetur (um áramót). Samkvæmt þessari "aðferð" samsvarar tímabilið 2011-2017 (hlýnunin samsvari 3,6 stiga hlýnun á öld!) í raun kólnun upp á 3,7 gráður á öld ef miðað er við sömu byrjun 2006-17 (7,3 stig)!

 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 20.8.2017 kl. 17:08

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það er víst aldrei nógu oft hamrað á þessu að vitrænar mælingar á hnatræni hlínun eru vandasmari en svo að veðurvitar í netheimum finni sanleikan í því, svo ekki sé talað um þegar þarf að fara að greina á milli hlýnunar af mannvöldum og öðrum orsökum.

Og enn verra verður að finna dómara í því á því sem þú kallar "straum hitameta og öfgaveður" ?

Guðmundur Jónsson, 20.8.2017 kl. 17:37

3 identicon

ekki veit ég hvernig hnettinum líður. en hitt virðist vera staðreind að öfgar í veðurfari virðast vera að aukast. hefur veðurstofa aðgang að skyrslum bandaríkjahers um ransóknaflug yfir grænlandshafi fyrr á árinu. væri eflaust gaman að skoða þær 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 21.8.2017 kl. 06:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 38
  • Sl. sólarhring: 710
  • Sl. viku: 3787
  • Frá upphafi: 2428618

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 3379
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband