Meira af miðsumri

Í dag, sunnudag 23. júlí, er miðsumar að fornu tali. Við skulum nú líta á hvort forfeður okkar hafa hitt rétt á - varðandi hita. Í því skyni lítum við á fjölmörg línurit sem taka á málinu - línurit sem ekki margir hafa áhuga á - en látum samt slag standa.

w-blogg230717-tm

Fyrsta myndin sýnir daglegan meðalhita í byggðum landsins á tímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst á árunum 1973 til 2016. Ástæða þess að þetta tímabil var valið er sú að á því eru til háloftaathuganir á Keflavíkurflugvelli - allt upp í hæstu þrýstifleti - við getum því borið saman hitasveiflur uppi og niðri á sameiginlegum tíma. Lóðrétti ásinn sýnir hita. 

Blái ferillinn sýnir meðalhita í byggð frá degi til dags. Hann hækkar nokkurn veginn jafnt og þétt allt fram yfir miðjan júlí. Svo vill þó til að 8. ágúst rétt mer það að vera hlýjastur - en það er líklega tilviljun, 26. júlí er nánast jafnhlýr.

Rauði ferillinn sýnir meðalhámarkshita á landsvísu (alltaf miðað við byggðir landsins). Hæsta meðalhámarkið fellur á 24. júlí. Græni ferillinn sýnir svo meðallágmarkshitann, hann er hæstur 26. júlí. 

Hér skulum við taka eftir því að í öllum tilvikunum er hlýrra 31. ágúst heldur en 1. júní. Ef við göngum út frá því að nægilega hlýtt sé orðið 1. júní til að vori sé lokið og sumar hafið hljótum við að viðurkenna að sumarið stendur vel fram í september. - Eða byrjar það ekki fyrr en á sólstöðum? 

Næst koma fjögur sjaldséð línurit - ef til vill þarf aðeins hugsa til að ná merkingu þeirra.

w-blogg230717mxtx

Búinn var til listi sem sýnir hæsta hita hvers dags á landinu á umræddu árabili - og meðaltal hvers almanaksdags svo reiknað. Lóðréttu strikin tvö sýna mánaðamót júní og júlí, og júlí og ágúst, einnig á næstu myndum. Hér má sjá að hæsti hiti landsins er að meðaltali um 15,5 stig í byrjun júní, um 16 stig í lok ágúst, en nær hámarki eftir miðjan júlí, á þessu tiltekna tímabili 18. júlí. Þessi vísir er þegar farinn að falla fyrir mánaðamót júlí/ágúst.

w-blogg230717mntn

Samsvarandi mynd fyrir meðaltal lægsta lágmarkshita hvers dags á landinu sýnir líka hámark sem fellur snemma á sumarið - en hér er meiri munur á meðaltalinu 1. júní og 31. ágúst en á hámarksmyndinni. Ef til vill má hér sjá árangur sumarhitans við upphitum lands og sjávar. Hann kemur betur fram í næturhitanum heldur en að deginum - þar sem sólargangur ræður meira. 

w-blogg230717-mntx

Nú þarf aðeins að hugsa. Þessi mynd sýnir meðaltal lægsta hámarkshita landsins. Fyrir hvern dag er leitað að lægsta hámarki landsins. Töluverður munur er á honum 1. júní og 31. ágúst. Sjávarkuldi og snjóleysing í innsveitum halda hámarkinu niðri á sumum svæðum landsins framan af sumri - jafnvel þótt sólin sé í ham. Þá má finna einhverja „kalda bletti“. Þessum svæðum fækkar þegar líður á sumarið, sjávarhiti hækkar og snjór hverfur alveg. Hér er „hlýjasti“ dagurinn seint á ferð, 8. ágúst - og ágústlok eru ámóta hlý og tíminn kringum 10. júlí - sumarið aldeilis ekki búið. 

w-blogg230717-mxtn

Svipað á við um hæsta lágmarkshitann - hann fer ekki að falla að marki fyrr en eftir 10. ágúst og um mánaðamót er meðaltalið komið niður á svipaðar slóðir og það var í júnílok - sumarið varla búið. 

w-blogg230717_txm-tnm

Hér hverfum við aftur til fyrstu myndarinnar og reiknum mismun rauða og græna ferilsins á henni, mismun meðalhámarkshita og meðallágmarkshita. Þessi munur er meiri í júní heldur en í hinum mánuðunum tveimur. Dægursveifla hitans er þá stærri - bæði vegna þess að sól er hærra á lofti, en líka vegna þess að loft er þurrara og skýjafar minna. 

w-blogg230717-dtx

Hér má sjá dægurhámörk hitans á landinu. Nær yfir allan þann tíma sem við þekkjum til. Landsmetið frá Teigarhorni (30,5 stig) er í júní. Tímabilið frá því um 20. júní og fram undir 15. ágúst virðist líklegast til stórræða. Það er 16. júlí sem enn hefur ekki náð 24 stigum - einn daga í júlí. Auðvitað kemur að því eitthvert árið. 

w-blogg230717dtn

Samskonar mynd sýnir dægurlágmörkin. Frost hefur orðið í byggð einhvers staðar á landinu alla daga ársins - tíminn frá því í júlíbyrjun fram til 10. ágúst sker sig þó úr. 

Þá snúum við okkur að háloftunum og lítum á þrjár þykktarmyndir. Þykkt á milli þrýstiflata mælir hita. Fyrsta myndin er næst okkur. 

w-blogg230717-vedrahv-nidri

Blái ferillinn sýnir góðkunningja okkar hér á bloggi hungurdiska, þykktina á milli 500 og 1000 hPa-flatanna. Hún rís nokkuð samfellt allt fram yfir 1. ágúst. Þá er miðsumar í neðri hluta veðrahvolfs. Í ágústlok er fallið hafið, hiti er þó svipaður og var í byrjun júlí. Rauði ferillinn mælir hita á milli 850 og 1000 hPa - fyrir neðan um það bil 1500 metra. Í heild er hegðun ferlanna beggja svipaður. 

w-blogg230717-vedrahv-uppi

Hér sýnir rauði ferillinn þykktina á milli 500 og 850 hPa og kemur í ljós að hiti á hæðarbilinu 1500 til 5500 metrar er hæstur nærri miðsumri, það er að segja í síðasta þriðjungi júlímánaðar. Á næsta þykktarbili ofan við, á milli 500 og 300 hPa er svipað uppi á teningnum. Veðrahvolfið virðist því mestallt vera á svipuðu róli - nema kannski má segja að neðsta lagið (undir 1500 metrum) sé seinast á ferðinni - enda að nokkru háð sjávarhitanum - en hann er hæstur í fyrsta þriðjungi ágústmánaðar.

w-blogg230717-heidhvolf

Þá förum við upp í heiðhvolfið. Þar ræður sólarhæð því meiru sem ofar dregur. Rauði ferillinn sýnir bilið á milli 300 og 150 hPa (neðsti hluti heiðhvolfs) og sá blái sneið úr neðri hluta heiðhvolfsins á milli 150 og 30 hPa. Hér bregður svo við að hiti í ágústlok er orðinn lægri en hann var í júníbyrjun - eina dæmi um slíkt á öllum þeim myndum sem við höfum hér litið á. Ferlarnir eru ekki eins að lögun. Sennilega stafar kólnunin sem hefst mjög snemma á bilinu sem rauði ferillinn sýnir af lyftingu heiðhvolfsins - vegna hlýinda niðri í veðrahvolfi. 

Þetta er orðinn langur pistill sem fáir hafa lesið til enda. Ritstjórinn þakkar þeim fáu fyrir þolinmæðina. - En niðurstaðan er sú að forfeðurnir hafi hitt vel í við val á miðsumri. Munum að miðsumar er miðsumar en ekki upphaf haustsins. 

Í eldri pistlum má einhvers staðar finna vangaveltur um árstíðasveiflu háloftavinda. Þeirra lágmark er í fyrstu viku ágústmánaðar eða þar um bil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög fróðlegt og skemmtilegt. Staðfestir þetta ekki nokkuð að miðsumarið sé í seinni hluta júlí eða þar um bil. Gamla tímatalið því mjög rökrétt eins og meira og minna allt í því tímatali enda fólk áður fyrr mun meira meðvitaðara um veðurfarið og náttúrna heldur en nútímamaðurinn sem hugsar fyrst og fremst um það hvort sé grillveður. Mér hefur alltaf fundist ágúst vera aðal sumarmánuðurinn. Tíðarfarið oftast gott, farið að draga verulega úr hafgolunni, berin komin og snjór farinn úr fjöllum. Þessi 8. ágúst er svolítið athyglisverður, pínu stökk upp í meðalhita frá dögum á undan?

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 23.7.2017 kl. 15:13

2 identicon

Í Finnlandi er sú trú að eftir 27 júlí fari að halla að hausti. 

Sveinn Eldon (IP-tala skráð) 23.7.2017 kl. 18:09

3 identicon

mánuður frá jafndægri 21. juní. dagur til eða frá skiptir ekki máli. vissulega veldur 8.águst vissum vonbrigðum, en þettað er meðaltal svo frávikinn eru nokkur. eru ekki svipuð tímalína við önnur jafndægur ársins

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 24.7.2017 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.11.): 162
  • Sl. sólarhring: 388
  • Sl. viku: 2556
  • Frá upphafi: 2411182

Annað

  • Innlit í dag: 133
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 128

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband