Umskipti - hæðin gefur eftir

Eftir margra daga samfellda blíðu og óvenjuleg hlýindi virðist nú stefna í umskipti. Hæðin gefur eftir og við fáum yfir okkur lægðardrag úr norðvestri. 

w-blogg070515a

Kortið sýnir stöðuna á hádegi í dag (sunnudag 7. maí), að mati evrópureiknimiðsöðvarinnar. Hæð 500 hPa-flatarins er heildregin, þykktin er sýnd með rauðum strikalínum, en bleikgráir fletir sýna iðu. 

Hæðin er hér við landið, það er sumarþykkt, meiri en 5460 metrar, en þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. En hæðin er að þokast vestur (blástrikuð ör) og verður á þriðjudagskvöld komin vestur undir Baffinsland. Þar er nú lægð sem mun fara sem lægðardrag til suðausturs yfir Grænlands og valda veðurbreytingu hér (grænblá ör).

Lægðardrög sem þessi eru oftast leiðinleg og stundum mjög svo, bæði vetur, sumar, vor og haust. - En samt er fjölbreytni nokkur í gerð þeirra.

w-blogg070515b

Myndin sýnir þrjár dæmigerðar brautir (úr norðnorðvestri), en stærð lægðardraganna skiptir einnig miklu máli. Austasta brautin er gjarnan sú versta og óheppilegasta. Mestar líkur á lofti langt úr norðri sem þar að auki situr lengi. Eftir því sem brautin liggur vestar aukast líkur á að lægðardragið strandi - þá er að jafnaði ekki langt í hlýrri austan- eða suðaustanátt eftir skammvinnt norðaustanskot - jafnvel svo skammvinnt að loft mjög langt að norðan nær ekki að komast að hér á landi. 

Á myndinni eru brautirnar úr norðnorðvestri, en ætli stefna úr vestnorðvestri yfir Ísland sé ekki einna óheppilegust - þá nær lægðardragið ekki að stöðvast fyrir suðvestan land en fer austurfyrir með slæmu norðankasti á eftir.

En hvernig verður þetta nú?

w-blogg070515c

Kannski einhvern veginn svona. Kortið sýnir stöðuna á þriðjudagskvöld (9. maí). Hér er gert ráð fyrir því að miðja lægðardragsins fari til suðurs fyrir vestan land - en ekki yfir það. Það eykur líkur á því að það stöðvist fyrir suðvestan land og að aðalnorðanskotið verði skammvinnt - fremur hlýtt loft úr austri taki aftur völdin (ekki þó eins hlýtt og verið hefur að undanförnu). 

Þeir sem rýna í tölurnar á kortinu sjá að þykktin á þriðjudagskvöld er ennþá meiri en 5400 metrar yfir Suðurlandi, en á að fara niður í um 5300 metra á fimmtudag - sem þá yrði kaldasti dagur „hretsins“. Á Vestfjörðum er þykktin á kortinu um 5340 metrar og segir spáin hana fara niður í 5240 metra á fimmtudag - en það er meðalþykkt í janúar hér við land. Þó það geti talist vel sloppið miðað við þessa stöðu eru samt mikil viðbrigði frá hlýindum undanfarinna daga þegar þykktin hefur gælt við 5500 metra, munurinn er 260 metrar eða um 13 stig á hita í neðri hluta veðrahvolfs. 

En þessi umskipti koma nokkru losi á loftstrauma á svæðinu og ekki gott að segja í hvaða farveg þeir leggjast eftir að þau eru orðin - það gæti samt orðið nokkur bið eftir næsta tuttugustigadegi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

áhugaverð staða hæðarinnar yfir  kanada skildi hún vera nægjanlega oflug svo lægðin skreppi ekki inn grænlandshaf. kaldi bletturin virðist hafa heilmikin áhrif á veðurfar á svæðinu kríngum sig ætli verði ekki blautara á vestanverðu landinu en austanlands ætti að verða þurarra næstu árinn, hvort það verður til góðs verður skemtilegt að spá í

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 7.5.2017 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband