Í leit að vorinu 9

Landið bregst misjafnlega við vorinu. Fjallað hefur verið um það áður á hungurdiskum, en við skulum samt rifja eitthvað upp. 

Árstíðasveifla hitans er ekki jafnstór á öllum veðurstöðvum landsins, né eins í laginu. Hver stöð á sér vik frá meðaltali landsins í hverjum mánuði. Við lítum á landfræðilega dreifingu útgilda á árstíðasveiflu þessara vika. (Hljómar vel - ekki satt).

Ekki kemur á óvart að tiltölulega kalt er inn til landsins á vetrum og þá er hiti þar lægstur miðað við landsmeðaltalið. Öðru vísi er farið á sumrin, þá er hiti inn til landsins hærri en landsmeðalhitinn. Á sumrin er kalt við sjóinn en þar er tiltölulega hlýtt á vetrum. Til viðbótar þessum almennu og lítt óvæntu sannindum koma smáatriði á óvart.

w-blogg240417a

Kortið veitir svar við því hver sé „hlýjasti“ mánuður ársins á ýmsum veðurstöðvum - miðað við landsmeðaltal. Sums ataðar á landinu sunnan- og suðvestanverðu er það apríl - þar vorar fyrr en annars staðar á landinu. Víða norðanlands er júní „hlýjastur“ miðað við landsmeðaltalið - snjór er bráðnaður af láglendi - innar og ofar er það júlí sem stendur sig best - það gerir júlí líka í uppsveitum á Suðurlandi. 

Veturinn er hlýr að tiltölu við strendur landsins - miðað við landsmeðaltal. Strendur á Norður- og Austurlandi eru „hlýjar“ í janúar, og suðaustur- og suðurströndin í febrúar og mars. Á landinu norðvestanverðu er það hins vegar nóvember. 

Munur á sólarhringsmeðalhita í Reykjavík og í Stykkishólmi

En við erum hér að einbeita okkur að vorinu. Reykjavík er „vorstöð“ - þá er þar hlýrra að tiltölu en annars staðar á landinu. Berum hana saman við tvær aðrar stöðvar og veljum Stykkishólm og Akureyri. 

Myndin að ofan sýnir mismun á sólarhringsmeðalhita í Reykjavík og Stykkishólmi alla daga ársins (og 6 mánuðum betur). Mestur munur á hita stöðvanna er á vorin - hámarkið er á hörpu. - Frá og með miðjum maí slaknar á muninum. Þetta er tímabil norðaustannæðinga, loftþrýstingur er hár, þurrar norðlægar áttir tíðar. 

Hitamunur stöðvanna minnkar síðan eftir því sem líður á, nokkuð jafnt og þétt þar til lágmarki er náð í nóvember - fyrri mynd sýndi „nóvemberhlýindi“ um Breiðafjörð og Vestfirði. Þetta eru áhrif frá sjónum, geymsla hlýinda sumarsins - nýtur þeirra svo í janúar austur með Norðurlandi og suður með Austfjörðum? Eru þau komin til stranda Austur-Skaftafellssýslu í mars? Eða fellur mismunarferill hita í Reykjavík og Stykkishólmi að einhverju leyti saman við útbreiðslu hafíssins í Grænlandsundi? Sjáum við hana hér? 

Ritstjórinn á einhvers staðar ámóta mynd sem ber saman Reykjavík og Hornbjargsvita og lítur hún svipað út.

En lítum nú á Norðurland. Við veljum Akureyri, en hefðum getað valið Skagafjörð - annað svæði þar sem júní er hlýjastur miðað við landsmeðaltalið - útkoman er þar hin sama (um það í fornum hungurdiskapistli). 

Munur á sólarhringsmeðalhita í Reykjavík og á Akureyri

Hitamunur Reykjavíkur og Akureyrar er allt annar en sá sem við sáum á fyrri mynd. Um 1,5 stigi hlýrra er í Reykjavík en á Akureyri að vetrarlagi, en munur hita staðanna er lítill á sumrin. Það merkilegasta við myndina er að skiptin á milli vetrar og sumars eiga sér stað nánast á einum degi, 19. maí. Minna má á að hátt í 70 ár af mælingum liggja hér að baki. Það er varla tilviljun að þetta er einmitt um það leyti sem þrýstivindurinn slakar á taki sínu á landinu - og landið sjálft tekur við stjórninni (sjá fyrri pistil) - en væntanlega kemur snjóleysing á Norðurlandi einnig við sögu. Haustið kemur ekki alveg jafn snögglega. 

Þó myndin af „kaldasta mánuði ársins“ - miðað við landsmeðaltal - komi hér málinu ekkert við skulum við láta hana fljóta með til gamans.

w-blogg240417b

Inn til landsins er veturinn kaldastur að tiltölu, ýmist desember, janúar, febrúar eða mars. Vor og snemmsumar er „kaldast“ strendur landsins, sumarið á Austfjörðum og með suðurströndinni til Reykjaness. Nóvember í lágsveitum á Suðurlandi. Ágúst á höfuðborgarsvæðinu. Allt saman rökrétt á einhvern veg (eða er það ekki?).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 897
  • Sl. sólarhring: 1114
  • Sl. viku: 3287
  • Frá upphafi: 2426319

Annað

  • Innlit í dag: 797
  • Innlit sl. viku: 2953
  • Gestir í dag: 780
  • IP-tölur í dag: 718

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband