Í leit að vorinu 8

Að meðaltali blæs vindur af austri hér á landi nær allt árið - að slepptu „áttleysutímabili“ um mitt sumar og við sáum í síðasta pistli. Lengst af er stefnan frekar norðan við austur heldur en sunnan við. Því ræður sennilega Grænland. Lítilsháttar árstíðasveifla er hins vegar í norðanáttinni. Í þessum pistli lítum við fyrst á þá sveiflu, en síðan er það árstíðasveifla vindhraða. 

Norðanþáttur vinds á landinu

Allar vindathuganir frá mönnuðum stöðvum eru greindar í norðlæga- og austlæga vigurþætti. Norðanþátturinn sýnir hversu mikið heildarstefnan víkur mikið frá hreinni austanátt. Ákveðið var að vigurvindur úr norðri teljist jákvæður (bara vegna þess að hann er algengari heldur en sunnanvindurinn). 

Myndin sýnir norðanþáttinn yfir árið, og hálfu betur. Þetta er nú satt best að segja harla órólegt og tölurnar lágar (sjá lóðrétta kvarðann). En þó virðist sem fáein tímabil skeri sig eitthvað úr. 

Um miðjan vetur virðist draga tímabundið úr norðanáttinni þegar við tekur um tveggja mánaða tímabil þegar sunnanátt nær sér meira á strik heldur en á öðrum tímum árs. Þetta eru nokkurn veginn vetrarmánuðirnir þorri og góa - mesti útsynningstími ársins samkvæmt tali eldri heimilda, sem og tími suðlægra vetrarhlýinda. Útsynningur og sunnanhlýindi eru ekki beinlínis líkt veðurlag, en eiga sunnanþáttinn þó sameiginlegan.

Í síðasta vorpistli var ýjað að því að þetta tengdist hegðan háloftalægðardragsins mikla yfir Norður-Amaríku austanverðri - og skulum við bara trúa því.

Í kringum jafndægur að vori dregur mjög úr tíðni sunnanátta - páskatíð tekur við - jú, með sínum frægu hretum - úr norðri. Síðari hluti þessa norðanáttaauka hefst í kringum sumardaginn fyrsta - og stendur til 19. maí (eða þar um bil). Þessi dagur, 19. maí, virðist á einhvern hátt merkilegur - eins og síðar kemur í ljós. 

Í kringum veturnætur á haustin virðist vera annað stutt norðanáttaskeið - ekki víst þó að neitt sé að marka það. 

Næst lítum við á árstíðasveiflu meðalvindhraða landsins.

Meðalvindhraði á Íslandi

Hann breytist með mjög reglubundnum hætti, varla hægt að sjá ákveðin þrep - nema helst í ágústlok, í kringum höfuðdaginn. Þá er þrep. Hugsanlega má greina fleiri, t.d. í kringum sumarsólstöður. 

Við reiknum líka svonefnt festuhlutfall vindsins, hlutfallið á milli meðalvindhraða og vigurvindhraða. Það sýnir hversu fastur hann er á áttinni. Blási vindur af nákvæmlega sömu átt allan sólarhringinn (ekki endilega jafnsterkur) verður festuhlutfallið 1,0. Blási hann beint úr norðri hálfan sólarhringinn, en jafnsterkt úr suðri hinn helminginn er vigurvindhraðinn núll (en meðalvindhraði eitthvað annað). Festuhlutfall þess dags er því 0,0. 

Þrenns konar vindar eru algengastir á Íslandi. Þrýstivindur, sem ræðst af þrýstisviðinu, stefnu þess og bratta, sólfarsvindur, sem taktviss upphitun og kæling lands stýrir þann tíma ársins sem sól er hátt á lofti og þyngdaraflsstýrðir vindar af ýmsu tagi (oftast hægir). 

Þó þrýstisviðið sé hvikult eru breytingar á því sjaldan mjög snöggar (undantekningar auðvitað til). Festuhlutfall sólarhringsins er oftast mjög hátt - oftast því hærra eftir því sem vindur er stríðari - en meira los er á vindi sé hann hægur. Það kemur því ekki á óvart að festa vindsins er minni að sumarlagi heldur en á vetrum.

Festuhlutfall vinds á Íslandi

Myndin sýnir árstíðasveiflu festuhlutfallsins. Það er nánast hið sama stóran hluta ársins - þann tíma sem þrýstivindar ráða nær öllu. Þeir losa nokkuð tak sitt á mjög afmörkuðum tíma árs - frá því um 19. maí til höfuðdags. Þetta er tími sólfarsvinda hér á landi. Vindáttarbreytingar eru þá tíðar milli dags og nætur. Þetta er tíminn sem landið fær helst frið til að „sjá um sig sjálft“, það sem gerist á heimskautaslóðum eða á meginlöndunum miklu skiptir minna máli. 

Á þessari mynd hefst sumarið 19. maí og því lýkur á höfuðdag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

áhugaverð breitíng maí til höfuðdags. hef fundið fyrirþessu senilega sá tími ársinbs sem menn géta spáð best fyrir um veðrið með nokkrum fyrirvara. skldi þettað ekki vera vegna þess að þá er jörðinn að huga að breitíngum fyrir veturinn. það kemur annað tog á veðrið.    

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 25.4.2017 kl. 06:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 910
  • Sl. sólarhring: 1115
  • Sl. viku: 3300
  • Frá upphafi: 2426332

Annað

  • Innlit í dag: 810
  • Innlit sl. viku: 2966
  • Gestir í dag: 792
  • IP-tölur í dag: 729

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband