Hiti í desember 2016 til febrúar 2017 (alþjóðaveturinn)

Á máli alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar stendur veturinn í þrjá mánuði, desember, janúar og febrúar. Hér á landi verðum við auðvitað að bæta mars við en sá mánuður er oft kaldastur vetrarmánaðanna. 

Hungurdiskar hafa stundum reiknað meðalhita alþjóðavetrarins í Reykjavík og Akureyri og birt línurit. Við skulum líta á þau meðan við bíðum uppgjörs Veðurstofunnar á febrúarmánuði. 

Meðalhiti alþjóðavetrarins í Reykjavík

Meðalhiti nýliðinna þriggja mánaða í Reykjavík reiknast 2,6 stig, það sama og á sama tíma 2013 - og reyndar nánast það sama og 2006 og 2003. Það hefur aðeins einu sinni verið marktækt hlýrra í sömu almanaksmánuðum, 1963 til 1964. - Það má kannski rifja upp að árið 1964 gerði nokkurra daga kuldakast um mánaðamótin janúar og febrúar og snjóaði þá mjög mikið sums staðar um landið vestanvert - þar með á heimaslóð ritstjóra hungurdiska - minna í Reykjavík - en allur sá snjór hvarf á braut á fáeinum dögum í febrúarblíðunni sem hélt svo bara áfram og áfram linnulítið fram undir miðjan apríl. 

Meðalhiti alþjóðavetrarins á Akureyri 1882 til 2017

Svipað má segja um Akureyri. Þar reiknast meðalhiti mánaðanna desember til febrúar 1,0 stig nú, sá þriðjihæsti á öldinni og hefur ekki oft verið hærri. Alþjóðaveturinn var hlýjastur á Akureyri 2006 og 1934. 

Ritstjórn hungudiska hefur verið undirlögð kvefpesterbiti nú um hríð og lítið lát virðist á - hefur því fremur hægt um sig þó mánaðamót séu og gengur eins og aðrir fjölmiðlar í klipu aðallega á endurteknu efni - eða þegir alveg. Lessendur beðnir um að sýna skilning á stöðunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vetur frá september til maí eða stendur hann frá nóvember og út mars, þ.e. yfir fimm mánaðar tímabil?

Samkvæmt Skáldskaparmálum byrjar veturinn í kringum 20. október og lýkur 20. mars (Frá jafndægri er haust, til þess er sól sest í eyktarstað. Þá er vetur til jafndægurs.)

Trausti hefur sjálfur skipt ártíðunum í fjórar (eins og vera ber) og að hver standi í þrjá mánuði. Hann bætti þó um betur eitt sinn og setti einnig inn hitatölur, vildi miða við meðalhita upp á 7,5 stig við sumar og –0,4 stig við vetur.  Þá stendur sumarið í 91 dag (8. júní-11. sept.) og veturinn sömuleiðis (16. des.-27. mars). Vorið stendur þá frá 27. mars til 8. júní og haustið frá 11. sept. til 16. des. Þetta með lengd haustsins er auðvitað hæpið.

Trausti nefndi því einnig ársmeðaltalið (3,6 gráður). Tímabilið fyrir ofan það geti kallast sumar en hitt vetur. Þar vildi hann byrja sumarið þann 6. maí en því ljúki 16. október. Sumarið sé þannig 163 dagar en veturinn 202.

Mér finnst gamla viðmiðið í Skáldskaparmálum eðlilegra en Veðurstofuveturinn, sem reiknar með vetri frá desemberbyrjun og út mars.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 1.3.2017 kl. 08:52

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Athyglisverð leitni - ég fann ekki í fljótu bragði hnattræna útreikninga á þessum þremur mánuðum þ.a. ég skellti í eitt Excel línurit og notaði HadCrut tölur frá 1880 til og með veturinn 2015/16. Þar reyndist leitnin fyrir vetrarmánuðina vera 0,68 gráður á öld (nánast sama leitni og ef meðaltal er reiknað fyrir allt árið).

Leitnin hér á Íslandi fyrir vetrarmánuðina virðist því vera umtalsvert hærri en á hnattræna vísu. 

Brynjólfur Þorvarðsson, 1.3.2017 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband