Óvenjuhlýtt loft yfir landinu

Nú (laugardag 11.febrúar) nálgast óvenjuhlýtt loft landið. Ritstjórinn man trauðla hlýrra í febrúar - en gengur þó hratt hjá eins og jafnan. 

Við lítum fyrst á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 síðdegis á sunnudag.

w-blogg110217a

Jafnþykktarlínur eru heildregnar - þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er mjög óvenjulegt að þykktin verði meiri en 5500 metrar yfir landinu í febrúar. - Hefur þó að sögn rétt komið fyrir. Hæsta febrúarþykkt í námunda við landið í bandarísku endurgreiningunni er 5520 metrar - rétt suðaustan við land í illviðrinu mikla 16. febrúar 1954. 

Mesta febrúarþykkt sem við vitum um í háloftaathugun yfir Keflavík er 5510 metrar sem mældust í hlýindunum miklu 7. febrúar 1960 - og elstu veðurnörd kannast við. Á kortinu hér að ofan er þykktin yfir Keflavík tæplega 5500 metrar - en meiri en 5540 metrar á stóru svæði við landið austanvert. - Þetta er mjög óvenjulegt - en er bara spá ennþá.

Litirnir sýna hita í 850 hPa sem verður þegar kortið gildir í um 1500 metra hæð yfir landinu. - Hæsta talan á kortinu er um +14 stig - í niðurstreymi við norðurbrún Vatnajökuls. Landslagið í líkaninu er ekki alveg raunverulegt þannig að ekki má taka þessa tölu allt of bókstaflega. - en á kortinu er hiti í 850 hPa meiri en +10 stig á allstóru svæði yfir Austurlandi - gæti vel orðið reyndin. 

Hæsti hiti sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavík í febrúar er 8.2 stig. Það var 15. febrúar 1955. Þannig stendur á núna að þetta met verður varla slegið - kannski fer hlýrra loft hjá stöðinni - en hittir varla í athugun (en þær eru aðeins tvær á sólarhring). 

Hæsti hiti sem mælst hefur í 700 hPa yfir Keflavík í febrúar er 0,0 stig. Það var í áðurnefndum hlýindum 7. febrúar 1960. Rétt aðeins er hugsanlegt að það verði slegið nú - því það á að verða hlýrra en þetta yfir Keflavík í allnokkrar klukkustundir - en hitting þarf. 

Við skulum líka horfa á 850 hPa mættishitaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.15 á sunnudag. Mættishita reiknum við þannig að loft er tekið og dregið (þurrinnrænt) niður í 1000 hPa þrýsting. Við það hlýnar það um 1 stig á hverja 100 metra niðurdráttar. 

w-blogg110217b

Litirnir sýna mættishitann, en heildregnu línurnar sjávarmálsþrýsting. Í niðurstreyminu við norðurjaðar Vatnajökuls er mættishitinn +28,0 stig. Sá væri hitinn í 1000 hPa ef hægt væri að koma loftinu þangað niður óblönduðu. Sjávarmálsþrýstingur er um 1024 hPa yfir Austurlandi, sjávarmál er því um 190 metra undir 1000 hPa og komið alveg þangað niður væri loftið orðið tæplega 30 stiga heitt. 

Þó þessi ákveðni hitatoppur sé bundinn niðurstreymi sem e.t.v. er alls ekki til nema í líkaninu er mættishitinn samt yfir 20 stig á mjög stóru svæði yfir Norður- og Austurlandi og langt austur fyrir land. - Líkur á að einhvers staðar hitti í með háum hita verða því að teljast töluverðar. 

Landsdægurhitamet 12. febrúar er eitt þeirra lægstu í febrúar, 13,7 stig. Það er því augsýnilega í mikilli „hættu“. -  „Meðallandsdægurmet“ (dálítið skrýtið hugtak) febrúarmánaðar er 15,0 stig. Kannski það náist. 

Hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar hér á landi er 18,1 stig, sett á Dalatanga 17. febrúar 1998 - þá var þykktin á þeim slóðum ekki „nema“ 5470 metrar (sem er óvenjumikið). - Ef jafnvel „hittir í“ nú og þá eru 20 stigin innan seilingar - í fyrsta sinn í febrúar. 

En við nokkuð ramman reip er að draga - þungt og kalt loft í neðri lögum og þó snjólaust sé í byggð fer orka lofts að ofan í að bræða snjó í fjöllum á leið þess niður á láglendi. 

Myndin hér að neðan er nokkuð erfið - og einkum fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir - aðrir bæta engu við og geta snúið sér að öðru.

w-blogg110217c

Myndin sýnir vind- og mættishitaþversnið yfir landið frá vestri til austurs eftir 64,8°N. Venjulegar vindörvar sýna vindátt og vindstyrk og að auki er vindhraði sýndur í litum, - kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð. Jafnmættishitalínur eru heildregnar og merktar í Kelvinstigum - draga þarf 273 frá til að fá út Selsíusstig. 

Lóðrétti kvarðinn sýnir hæð (sem þrýsting), en sá lárétti lengdarstig. Gráu fletirnir neðst á myndinni eru fjöll landsins, Hofsjökull hæstur í þessu sniði fer upp fyrir 850 hPa. Mikil háloftaröst er hér vestur af landinu. 

Mættishiti vex (nær) alltaf með hæð - en mishratt. Séu línur á svona þversniði þéttar er loftið mjög stöðugt, en hallast til ólstöðugleika eftir því sem þær eru gisnari.

Á einum stað í sniðinu fer 300K jafnmættishitalínan niður í 850 hPa - þar er mikið niðurstreymi norðan Vatnajökuls - örin bendir á pokann, 300K eru 27°C. 

Ef við rýnum betur í er margt að sjá. Við töluna 1 er sett ör þar sem jafnmættishitalínurnar eru sérlega þéttar - þar eru hitahvörf við Vesturland. - Hinumegin - austan við land - eru hitahvörfin miklu neðar (við töluna 2). Niðurstreymi austanlands hefur orðið nokkuð ágengt. 

Við sjávarmál á Vesturlandi er hiti um 279K - 6°C, við Austfirði er hann um 286K, um 13 stig. Tuttugu stig nást þar sem loft með mættishita 291K nær til sjávarmáls á Austurlandi, það loft er því 18°C í 1000 hPa (291-273), síðan bætast um 2 stig við niður að sjávarmáli vegna þess að sjávarmálsþrýstingur er um 1024 hPa. 

Sjá má að 291K jafnmættishitalínan er í um 925 hPa hæð yfir Austurlandi - eða í ríflega 800 metra hæð þegar spáin gildir. Til að ná 20 stigum þarf loft því að hreyfast „óskaddað“ (án íblöndunar) niður úr þeirri hæð til sjávarmáls - nokkuð mikið til ætlast en reynslan sýnir það það er alls ekki útilokað. 

Í snjólausu sólskinsveðri að sumarlagi getur sólarylur hitað landið, sem undir loftinu liggur, nægilega mikið til að vinna gegn áhrifum íblöndunar - líkur á að koma hlýindum niður eru þá meiri en að vetrarlagi - en - það er alltaf eitthvað en - vindur er yfirleitt minni að sumarlagi og frekar skortur á vindafli til að búa til þá bylgjuhreyfingu sem til þarf. 

Svo sjáum við hvað gerist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband