Hiti - 365 daga keðjumeðaltal (aftur)

Í tilefni af hlýindum ársins 2016 skulum við líta á uppfærða gerð af línuriti sem birtist á hungurdiskum 1. október 2013. Það sýndi 365-daga meðaltal hita sjálfvirkra stöðva í byggð frá 1995 til birtingardags. Hér er línuritið framlengt til dagsins í gær (30. desember 2016) - en fyrsta ár þess gamla reyndar klippt burt. 

w-blogg311216

Lóðrétti ásinn sýnir hita - í þessu tilviki meðaltal 365 daga. Lengst til vinstri er 31. desember 1996. Þau ár sem eru merkt á lárétta ásinn eru alltaf sett við 1. júlí. Stöðvasafnið var frekar gisið fyrsta árið og rétt að hafa það í huga.

Rauða línan sýnir leitni tímabilsins. Hún segir okkur að hiti hafi hækkað um 0,7 stig á tímabilinu öllu. Það er og verður álitamál hvenær kuldaskeiðinu sem hófst um 1965 lauk - en vafalaust telst 1995 - sem ekki er með á þessari mynd til þess.

Nú mun hver líta sínum augum á línuritið. Fáir munu þó komast hjá því að sjá hversu afbrigðilegur hitinn virðist hafa verið 2002 til 2004, hann skellur snögglega á sem einskonar holskefla miðað við aðrar sveiflur - og hjaðnar líka hratt. Síðan kemur sérlega flatneskja. Í langtímasamhengi var hún mjög  óvenjuleg - venjulega ganga allstórir öldufaldar og öldudalir yfir með 2 til 5 ára millibili - meira að segja á fyrri hlýskeiðum 20. aldar.

Frá og með 2013 virðumst við hafa yfirgefið flatneskjuna því síðustu 3 ár hafa einkennst af töluverðum öldugangi - líkari því sem eðlilegur má teljast í langtímasamhengi. 

Næstu tveir mánuðir verða nokkuð spennandi - janúar og febrúar ársins 2016 voru fremur kaldir miðað við það sem algengast hefur verið á öldinni - verði þeir mjög hlýir nú á 365-daga hitinn möguleika á að slaga upp í toppinn 2002 til 2003. Við skulum þó ekki búast við slíku. 

Viðbót um vindhraða á sama tímabili (bætt inn kl. 15 á gamlársdag). 

Til (áramóta-)gamans er hér líka meðalvindhraði sjálfvirkra stöðva í byggð reiknaður á sama hátt fyrir sama tímabil. 

w-blogg311216f

Hér sjáum við óreglulegar sveiflur - en þó var áberandi hægviðrasamt 2010 og svo aftur nú upp á síðkastið. Árið 2016 er það hægasta á tíð sjálfvirku mælinganna. En árið 2015 var aftur á móti eitt hið hvassasta. Við skulum ekki taka mark á rauðu leitnilínunni - en hún skýrir myndina fyrir augað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það segi nú ósköp lítið hvað hitinn á ársvísu verður.
Mjög hlýtt var í janúar og febrúar 2013 og 2014. Árið 2013 varð samt það kaldasta frá árinu 2000 á meðan árið 2014 varð það næst hlýjasta (næst á eftir 2003).

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 31.12.2016 kl. 03:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 57
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 1806
  • Frá upphafi: 2348684

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 1582
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband