Eitthvað kólnar

Nú er útlit fyrir kólnandi veður - eftir hlýindi sem staðið hafa linnulítið frá því snemma í október. Við vitum ekki hvort um einhver varanleg umskipti er að ræða - eða aðeins tilbreytingu sem stendur í fáeina daga. 

w-blogg141116a

Hér er norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á þriðjudag, 15. nóvember. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Brúni strikahringurinn sýnir í grófum dráttum legu heimskautarastarinnar - en hún bylgjast þó norður- og suðurfyrir á nokkrum stöðum. 

Kanadakuldapollurinn - sem við höfum yfirleitt kallað Stóra-Bola hefur hér breitt úr sér til austurs í átt til Íslands - en er annars ekkert sérlega öflugur. 

Bróðir hans - Síberíu-Blesi er mun álitlegri og farinn að sýna fjólubláa litinn - þar er þykktin minni en 4920 metrar. 

Við horfðum á ámóta kort fyrir nokkru hér á hungurdiskum (sjá pistil 1. nóvember). Þá lá kuldinn liggur eftir Síberíu endilangri - en mun hlýrra var yfir Norðuríshafi - þar var mun hlýrri hæðarhryggur sem aðskildi alveg Bola og Blesa. - Þannig er þetta enn (rauða strikalínan sýnir hrygginn). Í millitíðinni gerðist það reyndar að Síberíukuldinn teygði sig um stund vestur á bóginn - alveg til Bretlands þegar mest var. Þegar kalda loftið kom vestur yfir óvenjuhlýtt Eystrasalt gat það numið þar raka og óvenjumikið snjóaði víða í Svíþjóð - og mjög kalt varð um stund í Austur-Noregi. 

Á kortinu hér að ofan eru vestrænar sveitir Stóra-Bola hins vegar að blása hlýju Atlantshafslofti inn yfir sunnanverð Norðurlönd - og Síberíu-Blesi hörfar aðeins. 

Mörkin á milli bláu og grænu litanna á kortinu eru við 5280 metra þykkt, en það er einmitt meðalþykkt yfir Íslandi í nóvember. Mörkin á milli rigningar og snjókomu við sjávarmál liggja venjulega á bilinu 5200 til 5280 metrar. Blási vindur af hafi gilda neðri mörkin (loft líklega óstöðugt) - en þau efri standi vindur af landi (loft stöðugt). 

Á þessu þriðjudagskorti er þykktin yfir Íslandi innan við 5220 metrar (næstljósasti blái liturinn). Líkur á að úrkoma falli sem snjór eru því töluverðar, jafnvel þótt vindur standi af hafi. 

En lítum til gamans lengra fram í tímann - ekki beinlínis til að taka mark á heldur aðeins til að lýsa hinni almennu stöðu um þessar mundir betur.

w-blogg141116b

Hér eru bæði Norðuríshafshryggurinn og Síberíu-Blesi nokkurn veginn í sömu stöðu og á fyrra korti - en kuldinn að vestan hefur breitt úr sér allt austur til Noregs. Það er hins vegar mjög eftirtektarvert að þessi kuldi er í raun og veru afskaplega linur. Langstærsti hluti svæðisins milli Grænlands og Noregs er ljósblár - hvergi alvarlegan kulda að sjá á svæðinu öllu. - Við þurfum að fara langt vestur fyrir Grænland til að finna 5160 metra jafnþykktarlínuna - eða alveg norður undir norðurskaut. 

Norðanskotið sem nú er í pípunum virðist því varla geta orðið mjög kalt. - Jú, þar sem nær að snjóa og síðan létta til getur gert talsvert frost - sé vindur jafnframt mjög hægur - en það er þá heimatilbúinn kuldi en ekki aðfluttur. 

Að lokum lítum við á meðalspá næstu tíu daga, 13. til 23. nóvember. 

w-blogg141116c

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, jafnþykktarlínur stikaðar, en þykktarvik eru sýnd í lit. Nokkuð kalt er suðvestan við land - þar er mesta vikið -66 metrar. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs rúmum 3 stigum neðan meðallags - en sjórinn sér væntanlega um að draga úr vikunum í neðstu lögum. Hér á landi er vikið á bilinu -20 til -50 metrar, hiti yfir okkur þá -1 til -2,5 stig undir meðallagi. 

Þetta slær eitthvað á hlýindi nóvembermánaðar - en hann hefur það sem af er verið í hópi þeirra 10 til 15 hlýjustu. - En við sjáum að hlýtt er alls staðar í kring um okkur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Það er verið að spá amk átta dag frosti frá og með miðvikudeginum. Þetta er nú ekki einhver kólnun heldur gjörbreyting á veðurfari, snöggkólnun. 
Frostið fer mest í -8 stig í Reykjavík sem þykir nú ágætt! Það gæti hins vegar verið heimatilbúinn kuldi en ekki aðfluttur - sem er mun skárra!

Hlýtt verður í kringum okkur, jú, jú, enda umsnúningur einnig þar. Búið að vera mjög kalt á Norðurlöndunum undanfarið. Þeir kalla það Síberíukulda. 
Þannig er þetta oftast. Veðráttan hér á þessu skeri er yfirleitt andhverfan á veðrinu í Skandinavíu.

Torfi Kristján Stefánsson, 14.11.2016 kl. 00:22

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi. Kíktu á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á yr.no á sama tíma og sömu daga fyrir Grímsey - frostlaust alla dagana. [Gæti þess vegna orðið rétt - fyrir bæði Reykjavík og Grímsey - veit ekkert um það.]

Trausti Jónsson, 14.11.2016 kl. 01:27

3 identicon

Ja, þetta er skrítið. Gæti þýtt mikla bleytuhríð á annesjum fyrir norðan, sem leggst á rafmagnslínur og sligar þær.

Það virðist ætla að snjóa mjög mikið fyrir norðan með þessu en kannski ekki eins hvasst og Veðurstofan er að spá (norðan stórhríð á fimmtudag). Ef spáin stenst hins vegar ættu Norðlendingar að hafa varann á: "Ef ég ætti úti kindur, myndi ég setja þær allar inn, elsku besti vinurinn".

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 14.11.2016 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 64
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 2511
  • Frá upphafi: 2434621

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 2231
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband