Veturinn - hvar er hann?

Veturinn er svosem mættur á völlinn, en virðist samt ætla að forðast okkur um sinn (séu spár réttar). 

w-blogg151016a

Háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag (16. október) sýnir stöðuna vel. Enn er mikill hæðarhryggur fyrir austan land og beinir hann til okkar suðlægum áttum. Á kortinu er Ísland þó ekki í gula sumarlitnum eins og oftlega undanfarna daga - en svo virðist sem hann nái jafnvel til okkar enn og aftur þegar háloftavindröstin sem nú æðir um Norður-Ameríku þvera grípur í leifar fellibylsins Nikkólínu. 

Nikkólína er óvenju stór um sig af fellibyljaleifum að vera - alveg á við litla bylgju í vestanvindabeltinu. Ekki er nú víst að hringrás hennar komist alla leið hingað - en hins vegar er gefið í skyn að hlýindin geri það - og þá með viðeigandi úrkomugusu. 

En veturinn hefur lagst nokkuð rækilega yfir norðanverða Asíu - meginkuldapollur þeirrar heimsálfu, sá sem við höfum óformlega kallað Síberíu-Blesa, er orðinn að efnilegum fola. Kanadíski kuldapollurinn „okkar“, Stóri-Boli er enn öflugri þessa dagana - og ygglir sig að venju vestan Grænlands og blæs kulda úr nösum. 

Við sjáum að hlýindin í Alaska virðast vera að gefa sig - tími til kominn segja heimamenn - órólegir yfir afbrigðileika haustsins þar um slóðir. 

En austan Grænlands virðist litið lát á hlýindum.

w-blogg151016b

Þetta kort sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga (heildregnar línur) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar, meðalþykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik sem sýnd eru með litum. Þeir sem stækka kortið munu sjá að vikið austan Grænlands er nærri því 190 metrar - hiti í neðri hluta veðrahvolfs hátt í 10 stig ofan meðallags októbermánaðar. Við Ísland er vikið um 70 til 100 metrar, þriggja til fimm stiga jákvætt hitavik. 

Kalt er aftur á móti vestan Grænlands, þar má sjá svæði þar sem neikvætt vik er meira en -100 metrar - um fimm stig. Frekar svalt fer yfir sunnanverðum Bretlandseyjum - en ekki þó kaldara en oft gengur og gerist þar um slóðir. 

Jú, veturinn er þarna í alvörunni - hann gæti rétt eins ráðist á okkur með litlum fyrirvara rétt eins og hann virðist vera gera í Alaska - en sýnist samt ætla að láta það vera enn um stund. Við skulum bara þakka fyrir það, eigum hlýjan október alla vega inni - þeir hafa verið sárasjaldgæfir síðustu áratugina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fárviðrið 29 jan. 1966.

Það þóttu tíðindi í Vestmannaeyjum í ágætis veðri að heyra af þessum ósköpum. Kl 23 þann 28. voru V 2 vindstig á Stórhöfða og kl 23 þann 29. var logn á sama stað. Það breyttist þó von bráðar þegar gekk til A áttar. 2. feb. var vindhraði allt að 90 hnútar (15 vindstig) 4.feb. var veðurathugunarmanni vandi á höndum þegar vindmælir sýndi minni vindhraða en mat athugunarmanns var, mælir hlaut þó að ráða. 5. feb. kl 8 var  mælirinn hættur að snúast þó áætluð vindstig væru 10 og þá varð að taka upp fyrri hætti og áætla vindhraða. Það var svo ekki fyrr en 23. maí sem nýr mælir var settur upp. 

"Allir vindhraðamælar brotnir á Stórhöfða enda kominn tími til á þeim stað" sagði storkurinn í Mbl.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.10.2016 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 82
  • Sl. sólarhring: 231
  • Sl. viku: 1047
  • Frá upphafi: 2420931

Annað

  • Innlit í dag: 75
  • Innlit sl. viku: 924
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband