Tvær fyrirstöður

Nú sitja tvær risastórar fyrirstöðuhæðir í vestanvindabeltinu. Ekki er það óalgengt en þær eru samt með öflugra móti miðað við árstíma og hefur önnur þeirra mikil áhrif hér á landi. 

w-blogg081016a

Kortið gildir síðdegis á laugardag 8. október og sýnir stóran hluta norðurhvels - norðurskaut ekki fjarri miðju og Ísland ekki langt þar neðan við. Rauðu örvarnar benda á fyrirstöðurnar, aðra við Norður-Noreg, en hina yfir Alaska. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og gefa þær til kynna vindátt og vindstyrk. Allmikill sunnanstrengur stendur yfir Ísland langt norður í höf og sveigist svo í kringum fyrirstöðuna.

Þykktin er sýnd með lit - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við 5460 metra - gula megin markanna ríkir sumarhiti í veðrahvolfi - og jafnvel líka niður undir jörð.

Töluvert lægðardrag er fyrir vestan land og því fylgir greinilega kaldara loft - en spár gera ekki ráð fyrir því að neitt kólni að ráði - þótt kannski verði ekki beinlínis um sumarhita að ræða. 

Ámóta ástand er svo yfir Alaska - en allmikill kuldapollur er aftur á móti yfir Evrópu - þótt norðurlandabúum þyki þetta ekki sérlega kalt í október er annað að segja um ástandið í Mið-Evrópu - hiti þar töluvert undir meðallagi. 

Á kortinu má einnig sjá fellibylinn Matthew - sem sumir fjölmiðlar hér af einhverjum ástæðum kalla Matthías. Jú það getur verið gaman að því að íslenska nöfnin - ritstjóri hungurdiska stendur oft í slíku - en er guðspjallamaður sá sem enskir kalla Matthew ekki yfirleitt kallaður Matteus hér á landi? - En þetta er aukaatriði. 

Matteus á að verða að hálfgerðri afturgöngu sem hringsólar á nærri Bahamaeyjum eftir að hafa undið úr sér undan ströndum Bandaríkjanna nú um helgina - mörg orð og bólgin eiga eftir að falla um hann á samfélagsmiðlum og í fréttaskeytum - fellibyljanördin eru mörg. 

Þarna er líka stafrófsstormurinn Nicole (Nikkólína? - ekki þó sú ofan úr sveit) og á að verða á sveimi á svipuðum slóðum svo langt sem lengstu (háupplausnar-) spár sjá.

w-blogg081016b

Sé eitthvað að marka spá reiknimiðstöðvarinnar fyrir fimmtudag í næstu viku má enn sjá til hennar (hvort hún verður svo fyrir vondri trúlofun eins og nafna hennar í kvæðinu kemur í ljós). 

En á þessu korti - sem ekki má taka of hátíðlega - lifa fyrirstöðurnar báðar enn - sú við Noreg hefur teygt sig til Íslands og linast lítillega. Evrópukuldinn hefur aðeins gefið sig - sé eitthvað að marka þessa spá.

Ekki er því annað að sjá en að hlýindi haldi áfram hér á landi - þótt auðvitað kólni fljótt inni í sveitum gangi vindur niður og hjaðni skýjahula. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit
  • Slide14

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 48
  • Sl. sólarhring: 190
  • Sl. viku: 1097
  • Frá upphafi: 2456033

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 995
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband