Tvær djúpar lægðir (miðað við árstíma)

Sé miðað við afl vinda á norðurhveli nær sumarið hámarki sínu, og vindafl þá lágmarki, í fyrsta þriðjungi ágústmánaðar. Vindrastir veðrahvolfsins aukast hraðar að afli handan lágmarks heldur en á undan því. Lægðir verða þá dýpri og snarpari og munar nokkru hvað þetta varðar á fyrstu viku ágústmánaðar og þeirri síðustu. 

Nú hagar þannig til að tvær nokkuð djúpar lægðir eru samtímis í augsýn, sú sem er sjónarmun fyrr á ferð nær mestum krafti á sunnudag (14. ágúst) og fer þrýstingur líklega niður í um 970 hPa í lægðarmiðju sem þá verður suðaustur af Hvarfi á Grænlandi. Hin lægðin er við norðurskautið og verður hvað dýpst síðdegis á mánudag - hugsanlegt að þrýstingur í miðju hennar fari jafnvel niður fyrir 965 hPa - slíkt væri mjög óvenjulegt - og kannski ólíklegt að gerist. 

Fyrra kortið sýnir sunnudagslægðina í um það bil dýpstu stöðu og gildir það kl. 9 á sunnudag. 

w-blogg130816b

Sýndur er sjávarmálsþrýstingur og vindur í 100 metra hæð. Nokkuð snarpur stormur er suður af lægðinni. Hún dælir til okkar hlýju og röku lofti - en það verður skýjað og helst útlit fyrir að hlýjasta loftið standi stutt við - en það má gera sér vonir. 

Hitt kortið sýnir stærra svæði og gildir seint á sunnudagskvöld. Litir sýna hita í 850 hPa, á bláu svæðunum er hann lægri en -6 stig. Þá er lægðin suðvestur í hafi farin að grynnast - en sú við norðurskautið að taka vel við sér. 

w-blogg130816a

Það er mjög hlýtt loft frá Síberíu sem gengur inn í kuldapollinn öfluga sem hefur verið viðloðandi yfir Norðuríshafi í nær allt sumar. Þetta illviðri mun hreyfa við ísbreiðunni - en ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að segja neitt um afleiðingarnar - kannski verða þær engar. 

En við skulum líka rifja upp mynd sem sýnir lægsta og hæsta loftþrýsting hvers dags í ágústmánuði hér á landi á tímabilinu 1949 til 2015 (aðeins mannaðar stöðvar). 

w-blogg140816c

Bláa línan sýnir lágmörkin. Við sjáum að lægsti lágþrýstingur lækkar mjög eftir því sem á mánuðinn líður - og hefur mjög sjaldan farið niður fyrir 970 hPa á tímabilinu. Allra lægsta ágústtalan (960,9 hPa) er reyndar eldri - frá 1927. Þá fór mjög djúp lægð yfir landið suðaustanvert, leifar fyrsta (og reyndar sterkasta) hitabeltisfellibyl þess árs.

Rauða línan sýnir aftur á móti hæsta þrýsting hvers dags í ágúst. Leitni yfir mánuðinn er engin og við sjáum að 1030 hPa eru sjaldgæf hér á landi í þessum mánuði. 

Gráa þrepalínan sýnir mesta þrýstimun á landinu á hverjum degi sama tímabil. Hér sjáum við vel hvernig afl lægðanna vex eftir því sem líður á mánuðinn. Fyrstu dagana verður munur hæsta og lægsta þrýstings á landinu (yfir sólarhringinn - ekki endilega samtímis) vart meiri en 15 hPa (sem er reyndar ekki svo lítið) - en í lok mánaðarins er þessi mælitala jafnvel farin að slá upp fyrir 25 hPa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sé þarna örlitla hæð yfit gtænlandi gæti hún ekki þrýst lægðinni örlítið austar, en kabski ekki svo slæmt að fá lægðir núna ef það stittir síðan upp í september. hún er áhugaverð lægðinn yfir norðurpólnum

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 06:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 946
  • Sl. sólarhring: 1118
  • Sl. viku: 3336
  • Frá upphafi: 2426368

Annað

  • Innlit í dag: 843
  • Innlit sl. viku: 2999
  • Gestir í dag: 823
  • IP-tölur í dag: 758

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband