Tangarsókn á norðurslóðum

Töluvert er um að vera á norðurslóðum um þessar mundir - og hefur óbein áhrif á veður hér á landi. Kortið sýnir háloftastöðu á norðurhveli síðdegis á mánudag (4. júlí) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg020716-ia

Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd og 20. baugur vesturlengdar gengur niður eftir henni um Ísland til Kanaríeyja. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og segja til um vindátt og vindhraða, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. - Litakvarðinn ætti að skýrast sé kortið stækkað. - Ef vel er að gáð má reyndar sjá að hann er sprengdur í smábletti yfir Íran - hvítur blettur þar sem þykktinni er spáð meiri en 6000 metrum. 

En mörkin á milli gulra og grænna lita eru við 5460 metra - við viljum helst vera í gula litnum á þessum tíma árs. Meðaltalið í júlí er reyndar nákvæmlega á þessum mörkum hér á landi - þannig að dvöl í ljósasta græna litnum (þykkt á bilinu 5400 til 5460 metrar) er mjög algeng. Reyndar er líka algengt að landið sé í næsta þykktarbili (og lit) þar fyrir neðan (5340 til 5400 metrar) - en okkur finnst það samt kalt - og viljum helst vera laus við slíkt.

En við norðurskautið er nú öflugur kuldapollur - þeir hafa svosem oft sést kaldari á þessum tíma - en um miðjuna hringa sig fjórar jafnhæðarlínur - gott fóður í djúpa lægð og á ein slík að sýna sig - fara niður fyrir 980 hPa á þriðjudag. - Er það önnur djúpa lægðin á þessum slóðum á stuttum tíma - heldur óvenjulegt að sögn. 

En það sem skiptir máli fyrir okkur er að sótt er að kuldapollinum úr tveimur áttum samtímis - sannkölluð tangarsókn. Gríðarlega hlýtt loft streymir til norðurs bæði yfir Norður-Kanada og yfir Norður-Rússlandi, hér merkt með stórum rauðum örvum. - Hvað gerir kalda loftið þá? Það verður að leita undan.

Til allar hamingju virðist meginkuldinn ætla að hrekjast í áttina frá okkur - en hluti hans hefur þó farið í útrás til suðurs - eins og bláu örvarnar sýna. Þetta er svosem ekkert hættulega kalt loft - en samt heldur til ama - og eins og allt loft sem kemur í háloftum að norðan ber það í sér lægðarbeygju sem eykur líkur á úrkomumyndun og skýjum. - Það breiðist þar að auki yfir stórt svæði og hindrar aðsókn hlýrra lofts - sem reynir þó að nálgast - en verður aðallega að sveigja af til austurs. 

Bláu hringirnir á kortinu sýna annars vegar krappan kuldapollinn (sá minni) en hins vegar gróflega legu heimskautarastarinnar sem hringar sig um norðurhvel á 40. til 50. gráðu norðurbreiddar - ekkert ósvipað og að meðaltali. En jafnframt sést vel hversu miklar hlýju kryppurnar eru - langt norðan við sína „eðlilegu“ bústaði. 

Við skulum til gamans líta á meðalkort júlímánaðar fyrir tímabilið 1981 til 2010. - Litakvarði þykktarinnar er sá sami og á efra korti - en athuga ber að jafnhæðarlínurnar eru dregnar þéttar en á fyrra korti, með 30 metra bili, en ekki 60 metra.

w-blogg020716-ib

Bláu hringirnir eru teknir af fyrra kortinu. Við sjáum að heimskautaröstin er ekkert fjarri sinni venjulegu stöðu - og líka að það er að meðaltali kaldara „hérna megin“ norðurskauts heldur en handan þess - kalda loftið nær miklu sunnar vestan við okkur heldur en Síberíu- og Kyrrahafsmegin. - Við sjáum líka að innri hringurinn er líka nærri venjulegri stöðu - að vísu mun snarpari í dag heldur en á meðalkortinu. 

En hér vantar hlýju „töngina“. - Um svipað leyti í fyrra var myndin nokkuð önnur - við skulum að lokum rifja þá stöðu upp.

w-blogg020716-ic

Stóri, blái hringurinn er enn settur á kortið til samanburðar. - Hér er enginn innri blár hringur. - En hlý hæð er í námunda við norðurskautið - kalda loftið hefur hrakist suður - m.a. hingað til lands - kaldasta loft norðurhvelsins alls er við austurströnd Grænlands vestur af Íslandi - og afleiðing þessarar röskunar er sömuleiðis að hringurinn stóri breiðir meira úr sér í átt til Kyrrahafs heldur en nú (hvítur hringur). 

Einhvers staðar verður kalda loftið að vera - en því líður samt best á heimaslóðum - yfir Norðuríshafinu þar ver það sig best og lengst fyrir upphitunaröflunum - sé það hrakið annað hlýnar það fljótar - sérstaklega ef það lendir yfir meginlöndunum í júlímánuði. - Um leið og sól lækkar á lofti verður hins vegar breyting á - þá fara meginlöndin að verða kalda loftinu vinsamlegri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki veit ég alveg um óbeinu áhrifin af tangarsókninni þinni Trausti!
Beinu áhrif sjást hins vegar ágætlega á áhorfendum á hestamannamótinu í hinum "skjólsæla" skagfirska dal, Hjaltadalnum, þar sem þeir sátu skjálfandi á beinunum á áhorfendasvæðinu, vafðir inn í teppi og klæddir eins og um hávetur! Enda bara 5-6 stiga hiti um hásumar. Hnattræn hlýnun hvað?
Hér á höfuðborgarsvæðinu fór hitinn niður í 4,3 stig í nótt (við Korpu) og það hefði snjóað í Skálafelli ef einhver hefði verið úrkoman (1,2 stig).

Ef hnattræna hlýnunin, og hlýjasta árið nokkurn tímann í sögu veðurfarsmælinga, hefur ekki meiri áhrif en þetta þá held ég að Andri Snær, og fleiri, þurfi ekki að hafa mikla áhyggjur!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 3.7.2016 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 108
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 2029
  • Frá upphafi: 2412693

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 1777
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband