Óvenjuhlýr júnímánuður á landsvísu

Júnímánuður 2016 varð mjög hlýr á landsvísu, ekki alveg jafn hlýr og bróðir hans 2014 en ekki munar miklu. Landsmeðalhiti í byggð reiknaðist 10,2 stig, sem dugar í 4. til 7. hlýjasta sæti frá upphafi mælinga. Aðeins hlýrra var í júní 2014 og einnig 1933, sjónarmun hlýrra 1871 (ef við getum tekið mark á svo gamalli tölu), en jafnhlýtt 1909, 1846 og 1953 - og ómarktækt kaldara var í júní 1941. 

Myndin sýnir tímaröðina - ásamt 10-ára keðju.

w-blogg010716a

Tíu ára keðjan stendur nú í 9,1 stigi, fór fyrst yfir 9 stig á árabilinu 2001 til 2010 og hefur verið þar rétt við síðan. Hún fór einu sinni ómarktækt ofar á árum áður, var 9,2 stig 1932 til 1941, en 9 stiga tíminn hafði þá miklu minna „úthald“ heldur en nú er orðið. Þrjátíu ára keðja er nú í 8,54 stigum, komst áður hæst í 8,53 á árunum 1925 til 1954. 

Enn má telja einkennilegt hvernig hlýindi þessarar aldar virðast hafa frekar valið suma mánuði úr til hlýinda frekar en aðra. Sjálfsagt ræður tilviljun því - en ekki endilega þó. 

Júnímánuður einn og sér getur litlu ráðið um ársmeðalhitann - bæði er hann aðeins einn af tólf - og þar að auki er breytileiki hitans minni í júní en er í vetrarmánuðunum - sem þannig fá meiri þunga í meðaltölum. 

En samt er dágott samband á milli júníhita og ármeðalhitans. Það stafar væntanlega af því að meiri líkur eru á hlýjum júní þegar almennt er hlýtt. Við skulum til gamans líta á mynd.

w-blogg010716b

Lárétti ásinn sýnir júníhitann (landsmeðaltal í byggð) - en sá lóðrétti ársmeðaltalið. Greinilegt er að hlýjum júnímánuðum „fylgja“ hlý ár - eða kannski frekar öfugt - júní er helst hlýr í hlýjum árum. 

Við sjáum þó að talsvert getur þó brugðið út af. Þrír rauðir hringir hafa verið settir utan um „afbrigðilega“ punkta. Lengst til vinstri má sjá að júní 1851 hefur reiknast mjög kaldur - en ársmeðalhitinn samt orðið ofan meðaltals tímabilsins alls. 

Hinumegin á myndinni eru þeir mjög hlýju júnímánuðir 1871 (3. sæti) og 1909 (4. til 7. sæti - eins og nú). Eitthvað hafa vindáttir og veðurstaða hitt vel í júní þessi árin miðað við ástandið almennt. Toppjúnímánuðirnir 1933 og 2014 eru hins vegar einfaldlega hluti af afspyrnuhlýjum árum. 

Þriðji hringurinn er settur í kringum nokkra punkta á efra jaðri skýsins - kaldir júnímánuðir - en hlý ár. Þar má m.a. sjá (myndin skýrist sé hún stækkuð) 1946 og 2011, ár þegar júnímánuður var kaldur - en árið hlýtt. 

Hvar skyldi árið lenda nú? Það hefur auðvitað hingað til verið hlýtt á langtímavísu - eins og öll ár á þessari öld - er í efsta þriðjungi síðustu 70 ára - en afskaplega ólíklegt er að það lendi í einhverri toppbaráttu. -  

Við gætum velt vöngum yfir því síðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bestu þakkir Trausti fyrir ítarlegt og gott yfirlit júníhita á Íslandi 1830 - 2016.

"Tíu ára keðjan stendur nú í 9,1 stigi, fór fyrst yfir 9 stig á árabilinu 2001 til 2010 og hefur verið þar rétt við síðan. Hún fór einu sinni ómarktækt ofar á árum áður, var 9,2 stig 1932 til 1941, en 9 stiga tíminn hafði þá miklu minna „úthald“ heldur en nú er orðið. Þrjátíu ára keðja er nú í 8,54 stigum, komst áður hæst í 8,53 á árunum 1925 til 1954."

Samkvæmt ofansögðu skilst mér að þrjátíu ára keðjan í dag sé 0,01 stigi hærri en 1925 - 1954. Er það rétt skilið?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.7.2016 kl. 01:11

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt skilið Hilmar - enginn munur auðvitað. 

Trausti Jónsson, 1.7.2016 kl. 01:20

3 identicon

Við "keðju"grafið hér að ofan má gera þá athugasemd að byrjað er á mjög köldu tímabili eða um 1830, þ.e. á "litlu ísöldinni". Forvitnilegt væri að sjá graf sem byrjaði um 1920 jafnvel 1930 (1925?) og til dagsins í dag. Þá stigi bláa línan, sem sýnir "hlýnunina", lítið sem ekkert!

Það myndi hjálpa leikmanninum að glöggva sig á því hvort um raunverulega hlýnun sé að ræða á síðustu hundrað árum eða svo, a.m.k. í júnímánuði! 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 1.7.2016 kl. 07:19

4 identicon

sem betur fer komu eldíngar ekki niður á mínu svæði svo ég viti sem efðu þítt skúraveður næsta hálfan mánuð. um efnið. en er ekki tilhbeigíng að veðurbreitíngar vilgi tungli. þettað virðist vera orðið minstur en jaðrar  við að sé eðlilegt veðurfar nú um stundir grænland virðist enn halda verndarhendi yfir okkur enþá hvað sem það endist leingi 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 1.7.2016 kl. 08:51

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi, við getum oft ráðið leitniútkomu með þvi að velja okkur tímabil sem hentar þeirri niðurstöðu sem við óskum eftir. Hér er einfaldlega notað allt það tímabil sem hægt er að nota (og rúmlega það reyndar - því landsmeðaltöl eru mjög óáreiðanleg fyrir 1880). - En hlýindi þessarar aldar eru orðin nægilega langvinn og ákveðin til þess að jákvæð leitni reiknast í þessa talnaröð nærri því hvar sem byrjað er (nær þó engin sé byrjað 1925). Leitnin hefði svo orðið ívið meiri en hún hér sýnist hefði verið byrjað 1880. En reiknuð leitni fortíðar segir aldrei neitt um framtíðina ein og sér og spávirði ekkert.

Trausti Jónsson, 1.7.2016 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband