Langvinnur lágþrýstingur framundan?

Langvinnum lágþrýstingi að sumarlagi fylgir yfirleitt dauf tíð. Útlitið að þessu sinni getur þó ekki talist illkynjað að neinu leyti. Þótt engin verði hlýindin er ekki beinlínis verið að spá kuldakasti heldur - og teljandi hvassviðrum er heldur ekki verið að spá. - Kannski er bara engin ástæða til að kvarta?

En við vildum kannski samt fá að sjá meiri hlýindi og sólskin. 

w-blogg260616a

Hér er spá um ástandið í 500 hPa síðdegis á mánudag, 27. júní. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - heldur gisnar að sjá - en mikil háloftalægð ríkir hér um kring - á mjög stóru svæði - og kuldapollur er vestan við Grænland. Hluti af honum á að fara til austurs fyrir sunnan land og viðhelda ástandinu. 

Þykktin er sýnd í lit. Við viljum helst vera í gula litnum - en sá daufgræni er mjög algengur hér á þessum tíma árs - telst ekki beinlínis kaldur - en engin hlýindi fylgja honum - og þegar hann liggur í lægðasveigju eins og hér eru skúrir og bleyta fylgifiskar. 

Litlar breytingar er að sjá á þessu næstu vikuna - og þær spá sem lengra ná sjá engar breytingar heldur í þeirri framtíð. Síðara kort dagsins sýnir úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga.

w-blogg260616b

Heildregnu línurnar sýna meðalloftþrýsting, lægð situr yfir landinu, Litirnir sýna úrkomu sem hlutfall af meðallagi áranna 1981 til 2010. Þeir bláu gefa til kynna úrkomu yfir meðallagi - landið er þakið slíkum litum. Blettir eru með mun hærri tölum - allt upp í fjórfalda meðalúrkomu. - Það eru væntanlega merki um einhver öflug úrkomusvæði sem líkanið finnur á tímabilinu - ekki víst að þau komi fram - og enn síður áreiðanlegt það það verði nákvæmlega þar sem kortið greinir. Þurrara svæði er fyrir suðvestan land. 

Þó þetta sé dauf spá getum við vonað að hún feli samt í sér marga góða daga. -


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hlýindin, sem eru búin að vera nær allan júnímánuð, eru sem sé búin - og í hönd fer venjulegt grátt og kalt íslenskt sumar?!

En kannski falla þó einhver hitametin í bleytutíðinni sem er framundan, rétt eins og gerðist rigningasumarið í hitteðfyrra. Maður getur sem sé farið að hlakka til!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 26.6.2016 kl. 19:59

2 identicon

Er ekki viðeigandi að fyrirsögnin sé "langvinn kuldatíð framundan"?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.6.2016 kl. 20:10

3 Smámynd: Birnuson

Er ekki viðeigandi að fyrirsögnin sé „Nýtt tilefni fyrir nöldrarann“?

Trausti tekur sérstaklega fram að ekki sé verið að spá kuldakasti. Langtímaspá fyrir dagana 27. júní til 5. júlí gerir ráð fyrir meðalhitanum 10,5°C í Reykjavík. Það yrði 0,5°C yfir meðaltali áranna 1961–1990 en 0,9°C undir meðaltali áranna 2001—2015. Menn geta kallað það kuldatíð ef þeir vilja.

Birnuson, 27.6.2016 kl. 00:50

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Það falla varla nokkur alvarleg hitamet alveg á næstunni - en ekki vantaði mikið upp á í júní sem er hvað hita varðar í einu toppsætanna víðast hvar á landinu (ekki þó við suðurströndina).

„Daufar veðurhorfur - en ekki illkynja“ er fyrirsögnin á pislinum á fjasbókarsíðu hungurdiska. Að tala um langvinna kuldatíð er ekki gert nema eftirá - eða þá í æsifréttaskyni.

Trausti Jónsson, 27.6.2016 kl. 01:04

5 identicon

Trausti segir að það sé ekki "beinlínis" verið að spá kuldatíð, og vill heldur nota hugtakið "dauf tíð" (sem ég held reyndar að sé ekki mikið notað innan veðurfræðinnar!). 
Svo kemur þú Birnuson með upplýsingar um spána, að hitinn næstu 10 daganna verði um einni gráðu lægri en síðustu 15 árin.
Það er nú talsvert. Hitaspáin liggur mun nærri meðalhitanum á köldu árunum ´61-´90 en á hlýskeiðinu, þannig að það er mun nær að tala um kuldatíð en hlýindi.
En það er auðvitað gott þegar menn eru nægjusamir og geta glaðst yfir litlu. Pollýönnuhugsunin er skárri en nöldrið!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 27.6.2016 kl. 07:46

6 identicon

"Daufar veðurhorfur - en ekki illkynja enn sem komið er" er e.t.v. lendingin. Þetta er einföld eðlisfræði. Atlantshafið heldur áfram að kólna, AMO-sveiflan er neikvæð og La Nina hefur tekið öll völd í Kyrrahafinu. Er ekki í lagi að kannast við staðreyndir?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 27.6.2016 kl. 11:00

7 Smámynd: Birnuson

QED

Birnuson, 28.6.2016 kl. 01:43

8 Smámynd: Birnuson

„Atlantshafið heldur áfram að kólna, AMO-sveiflan er neikvæð og La Nina hefur tekið öll völd í Kyrrahafinu.“

Aðrir gætu dregið það fram að minni ís hafi mælst á norðurskautinu í vetur en nokkru sinni áður—eða „frá því að mælingar hófust“—, meðalhiti febrúarmánuðar þessa árs hafi tekið stærra stökk upp á við en áður hefur sést, o.s.frv.

Ekkert af þessu segir okkur þó nokkuð um þróun mála þegar til lengri tíma er litið, og þess vegna er það „nöldur“ að vera sífellt að draga slíka hluti fram til þess að færa rök fyrir því að veröldin sé að hlýna—eða ekki að hlýna—eða ýja að því að blogghöfundur sé hallur undir heimsvermingaráróður.

Birnuson, 28.6.2016 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband