Af lítilli úrkomu

Úrkoma hefur verið með minnsta móti víðast hvar um landið sunnan- og vestanvert í maí. Ritstjóri hungurdiska vill þó ekki gera mikið úr því - að svo stöddu. Einn eða tveir úrkomusamir sólarhringar - eða jafnvel aðeins ein skúr - geta gjörbreytt stöðunni á meta- og metingslistum. 

Það er þó í góðu lagi að líta á málið - og ekki er sérlega mikla úrkomu að sjá í reiknuðum veðurspám fyrir næstu vikuna - og þegar hún er liðin fer að styttast í mánaðamótin.

Úrkoman í Reykjavík það sem af er maí hefur mælst aðeins 7,2 mm. Það er þegar ljóst að ekkert met verður slegið. Við vitum af tveimur maímánuðum fyrri tíðar þegar úrkoma var minni en þetta - allan mánuðinn. Það var 1931 þegar mánaðarúrkoman var ekki nema 0,3 mm og 1946 þegar hún mældist 4,8 mm.  

Síðan koma maí 1932 (heildarúrkoma 7,3 mm), 1958 (9,2 mm), 1949 (10,0 mm) og 7 mánuðir aðrir með minna en 15 mm. - Í raun og veru má sáralítið rigna til mánaðamóta til þess að þessi maí verði ofar á þurrklista en í 10. sæti (af 120). 

Í Stykkishólmi hefur úrkoman það sem af er maí ekki mælst nema 5,7 mm. Við vitum um 5 mánuði þar sem úrkoma í maí öllum var minni (147 ár). 

Mjög þurrir maímánuðir hafa ekki verið algengir á Suður- og Vesturlandi síðustu 30 ár. Á þurrkalista hungurdiska fyrir landið allt er maí 2005 þó í 5. sæti (frá 1924 að telja). Sá mánuður nær ekki inn á þurrkatopp-tíu fyrir Vesturland - en er í 4. sæti á Suðurlandslista (sem nær aftur til 1885) - fyrir ofan eru aðeins 1915, 1958 og 1894.

Segja má að maí 2005 hafi náð svona langt á endasprettinum - því þann 19. hafði úrkoman mælst 11,4 mm í Reykjavík, en lokatalan varð ekki nema 13,8 mm, síðasti þriðjungur mánaðarins skilaði ekki nema 2,4 mm og mánuðurinn endaði sem sá 10. þurrasti í Reykjavík. 

Vorið hefur verið harla þurrt. Úrkoma í apríl var aðeins helmingur meðalúrkomu í Reykjavík og tæpur fjórðungur hennar í Stykkishólmi. Mars var hins vegar nærri meðalagi á báðum stöðum. 

Úrkoma hefur mælst 16,7 mm síðustu 30 daga í Reykjavík og hefur frá 1949 aðeins einu sinni verið minni á sama tíma - það var einmitt 2005 (12,7 mm). 

Myndin sýnir úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu 10. daga (18. til 28. maí). Litir sýna hlutfall úrkomu af meðallagi.

w-blogg190516a

Þetta er þurrkleg spá - gulir og brúnir litir sýna úrkomumagn undir meðallagi (kvarðinn skýrist sé myndin stækkuð). Megnið af Íslandi er undir lit sem sýnir 25 til 50 prósent af meðallagi. Tökum við spána bókstaflega (sem við skulum varla gera) er Reykjavík í rúmum 50 prósentum - meðalúrkoma 10 maídaga í Reykjavík er um 13 mm. Verði sú raunin ætti heildarúrkoma mánaðarins við lok þessa tímabils að vera komin í 20 mm (7+13) - og þrír maídagar eru þá enn eftir. Þetta magn skilar mánuðinum í um það bil 20. sæti þurrklistans - ámóta þurrt var síðast í maí 2012. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Trausti.
Samkvæmt spá á yr.no verður úrkoman í Reykjavík næstu 10 daga aðeins 5,1 mm.
Og ef það rignir ekki þá 3 daga sem þá er eftir af mánuðinum verður mánaðarúrkoman aðeins 12,3 mm.
Það ætti að nægja í eitthvað af 10 efstu sætunum (af 120!).

Þetta er eitt þeirra meta sem margur maðurinn vildi gjarnan vera laus við! Svo ekki sé talað um gróðurinn ...

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 19.5.2016 kl. 06:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 70
  • Sl. sólarhring: 434
  • Sl. viku: 2392
  • Frá upphafi: 2413826

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 2209
  • Gestir í dag: 66
  • IP-tölur í dag: 66

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband