Svalt undir hlýindum

Ritstjórinn hikstar dálítið á birtingu háloftarita á hungurdiskum - þau eru mjög sérhæfð og þarfnast oftast langra skýringa fyrir þá sem ekki þekkja til - og þannig er auðvitað farið með langflesta. Út af fyrir sig væri sú lausn möguleg að fjalla ekki um neitt annað langtímum saman í þeim tilgangi að fjölga áhangendum slíkra upplýsinga. - En ekkert verður þó úr slíku. 

Í dag lítum við þó á bút úr háloftariti sem sýnir athugun yfir Keflavíkurflugvelli á hádegi í dag, laugardaginn 14. maí 2016. Myndin af bútnum er birt tvisvar hér fyrir neðan í þeirri von að einhverjir glöggvi sig á skilaboðunum. 

w-blogg150516a

Hvað í ósköpunum sýnir þetta svo? Þykka, rauða línan sýnir hita sem háloftaritinn mældi á 5 sekúndna fresti á leið sinni upp í háloftin - upp á myndinni sýnir vaxandi hæð. Í stað þess að merkja hæðina í hinum venjulegu metrum inn á ritið er notaður þrýstingur. 

Rauði ferillinn byrjar í stöðvarhæð (um 50 m yfir sjávarmáli). Hann fer fljótlega yfir svarta línu sem liggur þvert yfir myndina og er merkt sem 1000 hPa. Um hádegið var sá þrýstingur í um 180 metra hæð yfir sjávarmáli í Keflavík - svo er áfram haldið. Næsta lína er við 850 hPa - í dag í um 1500 metra hæð yfir Keflavík. 

Aðrar svartar heildregnar línur eru lagðar á ská upp á við til hægri. Þær sýna hitann. Þykk svört lína sýnir frostmark 0°C en einnig má sjá 10°C og 20°C lengra til hægri - og bútur úr -10°C línunni er líka sjáanlegur (efst til vinstri).

Með lagni getum við séð að hitinn á hádegi í Keflavík hefur verið um 7 stig við háloftastöðina, hann fellur mjög hratt með hæð rúma hálfa leið upp í 850 hPa - upp í um 800 metra, og er þar rétt undir frostmarki þar sem kaldast er. Þá rís hann aftur og nær hámarki í 1400 til 1500 metra hæð - við sjáum að þar er hann í kringum 5 stig. Fellur síðan aftur og fer framhjá frostmarkinu í um 2800 metra hæð. 

Einnig má sjá bláa þykka heildregna línu og sýnir hún daggarmark. Þar sem lítill munur er á hita og daggarmarki er loftið rakt, þar sem hann er mikill er það þurrt. Á ritinu klessast daggarmark og hiti saman þar sem kaldast er í um 800 metra hæð. Þar eru ský. Neðar er stutt á milli - og þar er rakt.

Á bilinu þar sem hiti hækkar með hæð er svo mikill munur á hita og daggarmarki að bláa línan hverfur út úr myndinni til vinstri. Þarna er greinilega sérlega þurrt. 

Ef vel er að gáð má sjá þrjá bókstafi, a, b og c sem ritstjórinn hefur bætt inn á myndina. Við bókstafinn a er rauða línan bröttust, sá bútur hennar nær ekki nema upp að 1000 hPa-fletinum - í um 180 metra hæð yfir sjávarmáli. Síðan tekur við bútur sem merktur er með bókstafnum b - þar er bratti línunnar aðeins minni. Bókstafurinn c sýnir það bil sem hitinn hækkar með hæð - þar eru svokölluð hitahvörf. 

Ritstjórinn notar ætíð fleirtölumynd orðsins - hitahvörf - en ekki hitahvarf. Skylt er að geta þess að ekki er samkomulag meðal íslenskra veðurfræðinga um þetta - en ritstjórinn er samt mjög stífur á sínu. 

Á ritinu eru fleiri línur - við þurfum líka að vita hvað rauðu strikalínurnar merkja. Með því að fylgja þeim getum við séð hvernig hiti lofts breytist sé það á hreyfingu lóðrétt. - Við getum t.d. séð að loftið sem er í 850 hPa-hæð yrði um 18 stiga heitt ef hægt væri að ná því óblönduðu niður í 1000 hPa. - Farið þar sem heildregna rauða línan sker 850 hPa - og rennið ykkur síðan niður samsíða rauðu strikalínunni (halda sömu fjarlægð frá henni alla leið).

Ef við leikum sama leik rétt neðan hitahvarfanna - í 800 metra hæð endum við í 8 stigum í 1000 hPa. 

Þetta var nokkuð snúið. Sama mynd aftur:

w-blogg150516b

Aðalatriðið er þetta: Kalt og rakt loft lá í dag undir mjög hlýju og þurru. Staða sem þessi er ein hin algengasta hér á landi á þessum árstíma. 

En áhugasamir ættu að kynna sér háloftarit betur - gætu t.d. byrjað á einföldum skýringarkafla á vef Veðurstofunnar

Háloftaathuganir hvers dags eru aðgengilegar á vef Veðurstofunnar

Þeir sem vilja geta einnig reynt að lesa viðhengið. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1005
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3395
  • Frá upphafi: 2426427

Annað

  • Innlit í dag: 895
  • Innlit sl. viku: 3051
  • Gestir í dag: 871
  • IP-tölur í dag: 805

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband