Óvenjuleg aprílstaða

Uppgjör Veðurstofunnar um tíðarfar í aprílmánuði sýnir ekki mjög afbrigðilegt veðurfar. Hiti var lítillega yfir meðallagi síðustu tíu ára um meginhluta landsins, en þó aðeins undir því austanlands. Úrkoma var í minna lagi um landið sunnan- og vestanvert - en þó þarf ekki að fara nema aftur til ársins 2008 til að finna lægri tölur. Vindur var hægari en að meðaltali á landinu - og loftþrýstingur frekar hár - en þó ekki langt í ámóta eða hærri tölur í fortíðinni. Snjóalög voru víðast hvar undir meðallagi - nema inn til landsins norðaustanlands - þar sem þau voru reyndar óvenjumikil - mest þó fyrningar fyrri mánaða vetrarins. - Lengst af fór vel með veður - helst að leiðindahret í síðustu vikunni hafi spillt ásýnd mánaðarins. 

Jú, og ekki gerði neinar hitabylgjur - gróður fór ekki á stökk. Enda voru norðlægar áttir ríkjandi. En hvers vegna var þá ekki kalt? 

Lítum fyrst á sjávarmálsþrýsting við Norður-Atlantshaf og vik hans frá meðallagi áranna 1981 til 2010 - í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg030516a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar - vik eru sýnd í lit, neikvæð í bláu, en jákvæð í bleikgráu. Hæðin yfir Grænlandi var í öflugra lagi og við sjáum af dreifingu vikanna að norðanáttarauki er töluverður. - Þetta ætti að vera ávísun á kulda. 

Háloftakort (500 hPa) sýnir óvenjulegri stöðu.

w-blogg030516b

Hér má sjá gríðarsnarpan háloftahrygg skammt vestan við land. Vikahámarkið er rétt tæpir 150 metrar. Meðalhæð yfir Íslandi miðju er 5430 metrar - hefur nokkrum sinnum orðið hærri í apríl - en aftur á móti aðeins einu sinni jafnmikil í norðanátt. Það var í apríl 1973 - muni einhver eftir þeim góða mánuði. [Hann fékk dóminn: „Lengst af hagstæð tíð, hiti nærri meðallagi“ - svipað og mánuðurinn nú]. Sá er þó munur á þessum tveimur mánuðum að 1973 ríkti vestanátt við sjávarmál - en allsterk austanátt nú. 

Bylgjumynstur sem þetta hefur mikil áhrif á hitafar á stórum svæðum - það sést vel á næstu mynd. Hún sýnir þykktarvik mánaðarins. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

w-blogg030516c

Þótt ekki sé alltaf sem best samband á milli þykktarinnar og hitafars við sjávarmál er vikamynstrið hér þó svipað og mynstur hitavika á landinu. Það var hlýrra vestanlands heldur en austan. 

Við sjáum hér greinilega hin dæmigerðu vik sem fylgja þaulsetnum háloftafestum - þetta er kennslubókardæmi. Hlýtt er í hryggjunum - hlýjast í sunnanáttinni vestan við - en hlýindin leka yfir hrygginn inn í norðanáttina austan við - næst miðju hryggjarins. Kuldi fylgir lægðardrögunum, mestur rétt vestan við miðju þeirra - en kuldinn lekur þó líka austur fyrir. 

Vikin yfir Grænlandi eru sérlega mikil nú, nærri 120 metrar þar sem mest er, loftið er 6 stigum hlýrra en að meðaltali. Enn hafa ekki borist fréttir af því hvort mánaðarhitamet hafi verið slegin þar um slóðir. - En kalt hefur verið á Bretlandi og við Vestur-Noreg, þykktarvikin segja frá því að hiti hafi verið meir en 2 stig undir meðallagi aprílmánaðar - varla þó svo mikil við sjávarmál. 

Síðasta myndin er gömul hungurdiskalumma - úr pistli frá 27. október 2011 - og sýnir dæmigerða stóra háloftabylgju og hitafar samfara henni - sunnanhlýindin eru svo mikil að þau leka yfir hryggjarmiðju. Við nutum góðs af því í apríl - þrátt fyrir að þessi hlýindi nái ekki fullu taki á norðankuldanum við Austur-Grænland - hann stingur sér undir fái hann til þess nokkurt færi. 

w-blogg030516d

Það er líka rétt og holt að hafa í huga að lega hryggjarmiðjunnar - frá suðri til norðurs er auðvitað tilviljun hverju sinni - hefði hryggurinn t.d. legið 10 gráðum vestar en nú hefði allt landið legið vel inni í neikvæðu vikunum - sem hefðu þá líka trúlega verið enn meiri en þau voru nú - eftir mikla upphitun hlýsjávar milli Íslands og Noregs. - Hefði hann legið 10 gráðum austar (álíka öflugur og af sömu lögun) hefði verið möguleiki á methlýjum aprílmánuði. - En við fengum óvenjuhlýjar norðanáttir - og sæmilega hagstætt veðurlag - verðum að þakka fyrir það - eða er það ekki? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ágæt grein. nú er hóværðin farin  af trausta. vonandi lánaði hann ríkistjórnini hana. ekki er víst að þettað sé slæmt. þar sem þettað er hlí norðanátt. það sem skiptir máli er rakinn nú um stundir hann erum við að fá ólígt seinustu vorum. þó það snjói fyrir norðan og hvítni jörð á suðurlandi er snjór bara raki. sem verður bara til góðs þegar framí sækir ef spár rætast   

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 3.5.2016 kl. 06:37

2 Smámynd: Birnuson

Jú, við þökkum sannarlega. Vindar voru hægir í apríl og ekki er minna um vert að svo hefur verið að mestu leyti í vetur. Mér telst svo til að í Reykjavík hafi aldrei blásið hægari vindar mánuðina janúar til apríl, og að síðastliðnir 12 mánuðir hafi sama meðalvindhraða og minnstur hefur mælzt áður á 12 mánaða tímabili. Stenzt það?

Birnuson, 3.5.2016 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg220125a
  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 228
  • Sl. sólarhring: 381
  • Sl. viku: 2607
  • Frá upphafi: 2435049

Annað

  • Innlit í dag: 203
  • Innlit sl. viku: 2313
  • Gestir í dag: 192
  • IP-tölur í dag: 186

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband