28.4.2016 | 23:13
Heimshiti - hiti hér á landi
Hér fer langur og torræður pistill - varla fyrir aðra en sjóngóða þrekmenn.
Einhvern veginn virðast fjölmargir gera því skóna að eigi hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa sér stað á annað borð hljóti hún að vera samfelld - og þá ekki aðeins á heimsvísu heldur einnig svæðisbundið - og að fyrst svo sé ekki hljóti hlýnunarhugmyndir þar af leiðandi að vera vafasamar.
Í þessum pistli verður ekkert þrasað sérstaklega um þetta - en litið á nokkrar tölur og myndir. Heimshitagagnaröðin sem notuð er er fengin frá bresku hadley-miðstöðinni og nær aftur til ársins 1850 - 166 ár alls. Stykkishólmshitaröðin kemur einnig við sögu - hún hefur verið framlengd aftur til 1798.
Í heimshitaröðinni eru 74 tilvik (af 165) þannig að ár var kaldara heldur en næsta ár á undan - rúmlega 4 sinnum á áratug hverjum að meðaltali. Síðustu 10 árin gerðist það þrisvar. Í jafnstöðuveðurfari byggjumst við að 5 ár á áratug væru kaldari en árið á undan. - Það hefur einu sinni gerst á heimsvísu að aðeins tvö ár af tíu voru kaldari en árið á undan - það var 1961 til 1970. Kólnun var eindregnust á áratugnum 1947 til 1956, þá voru 7 ár af tíu kaldari en árið á undan.
Hvað um það - það er greinilega algengt að ár séu kaldari en árið að undan - þrátt fyrir mikla hnattræna hlýnun. Að það kólni frá einu ári til annars segir ekkert um lengri þróun.
Berum nú saman stærð hitasveiflna á heimsvísu og hér á Íslandi. Til þess notum við fyrst myndina hér að neðan.
Grábláusúlurnar sýna breytileika heimshitans frá ári til árs (stærð hans - án formerkis), en þær rauðu breytileikann í Stykkishólmi. Ef við reiknum stærðarmun talnanna á þessum tveimur ferlum kemur í ljós að meðalbreytileikinn í Stykkishólmi er 7,4 sinnum meiri heldur en heimsbreytileikinn [0.67 stig á móti 0,09 stigum]. - Af þessu má sjá að hitasveiflur frá ári til árs hér á landi ráðast ekki neitt af heimshitanum. - Sé miðað við norðurhvel eingöngu er munurinn ívið minni - eða 5,6 faldur.
En - förum við í saumana á fylgni árabreytileikans kemur samt nokkuð óvænt í ljós - það sýnir næsta mynd.
Lárétti ásinn sýnir mun á heimshita hvers árs og ársins á undan, en sá lóðrétti það sama fyrir Stykkishólm. Hér er Stykkishólmskvarðinn sexfaldur miðað við heimskvarðann.
Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram marktæk neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi.
Séu hitaraðir hadley-miðstöðvarinnar rýndar hver um sig kemur í ljós að það eru fyrst og fremst norðurhvels- og landhlutar hennar sem eru að skila þessu merki - ekki suðurhvel, hitabelti eða heimshöfin.
Við skulum nú ekki fara að gera neitt úr þessu - en það sýnir alla vega svart á hvítu að hlýtt ár á heimsvísu er ekkert endilega vísun á einhver aukahlýindi hér á landi. Eins og venjulega er auðvelt að finna skýringar á þessu háttalagi - en mjög erfitt að finna rétta skýringu - við látum það liggja milli hluta.
Hins vegar hefur hlýnað bæði á heimsvísu og hér á landi síðustu 150 árin - þannig að fylgni er á milli heimshita og hita í Stykkishólmi. Sú fylgni er hins vegar ekki tilkomin af breytileika frá ári til árs - heldur eingöngu af lengri þróun.
Næsta mynd sýnir heimshita á móti Stykkishólmshita - frá ári til árs.
Heimshitavikin (lóðrétti kvarðinn) eru hér miðuð við tímabilið 1961 til 1990 - og Stykkishólmsvik líka. Fylgnin líka marktæk - .
Úti til vinstri á myndinni er rauður hringur utan um nokkur mjög köld ár hér á landi. Kuldinn þá virðist hafa haft eitthvað með hafísinn að gera - eins konar staðbundinn aukakuldi hafísjaðarsins sem heimshitinn hefur enga hugmynd um. - Við sjáum líka að breidd Stykkishólmsskýsins (á hverju hitabili heimshitans) er að minnsta kosti 3 stig. - Svo vill til að það er einmitt sá breytileiki sem auðvelt er að skýra með því að mismunandi vindáttir ríkja frá ári til árs - og að loft er af mismunandi uppruna.
Hringrásarbreytileikinn er miklu stærri heldur en sá sem fylgir hnattrænu breytingunum. - Heimshlýindin á síðustu árum hafa slitið skýið í sundur - upp á við - á því svæði er breytileiki Stykkishólmshitans ekki nema um 2 stig. Það er í raun allt of lítið miðað við reynsluna - hvort við eigum þá inni kaldari ár eða hlýrri eða hvort tveggja skal ósagt látið - en aðalatriðið er við eigum meiri breidd inni. Eitt mjög kalt ár getur því vel komið - án þess að bresti í heimshlýnun sé um að kenna. - Svo eigum við líka inni aukakulda úr norðri snúi hafísinn aftur - en fráleitt er að útiloka það algjörlega - þrátt fyrir rýrð í íshafinu. - Myndin gefur til kynna að hafís bæti við 1 til 2 stigum í átt til meiri kulda.
Síðasta myndin sýnir heimshitann og Stykkishólmshita sem tímaraðir - auk 10-ára keðjumeðaltala.
Samfelldu ferlarnir sýna 10-ára keðjurnar. Hér kemur í ljós að áratugabreytileiki í Stykkishólmi þarf ekki nema þrefaldan kvarða á við áratugabreytileika heimshitans - þurfti sexfaldan til að koma breytileika frá ári til árs heim og saman. - Þessi þrjú stig sem munar eru e.t.v. hringrásarbreytileikinn - áratugabreytingarnar þurfum við að skýra með einhverju öðru en legu og uppruna háloftavinda.
Heildarleitnina er sjálfsagt að skýra með auknum gróðurhúsaáhrifum - en áratugabreytileikinn er enn óskýrður að fullu. - Það er hins vegar tilgangslaust að reikna leitni og nota til framtíðarspádóma. - Við lendum fljótt í alls konar dellumakeríi ef ekki er varlega farið.
Sem dæmi má nefna að sé leitni beggja hitaraða reiknuð frá 1850 fáum við út 0,5 stig á öld fyrir heimshitann, en 1,0 stig á öld fyrir Stykkishólm. Stykkishólmsleitnin er tvöföld á við heimshitaleitnina - Sé tímabilinu frá 1798 bætt við Stykkishólm lækkar aldarleitnin þar hins vegar niður í 0,8 stig - það var tiltölulega hlýtt um skeið framan af 19. öld. Hverning var heimshitinn á sama tíma?
Það er varla eðlilegt að byrja leitnireikninga í lágmarki. Ef við byrjum hins vegar 1920 dettur aldarleitnin í Stykkishólmi niður í 0,4 stig, en heimsleitnin magnast í 0,8 stig - verður tvöföld á við hitaleitni hér á landi. - Nú, og sé miðað við tímann eftir 1965 fer Stykkishólmsleitnin upp fyrir 3 stig á öld - heldur það áfram?
Tímaleitnireikningar geta skýrt gögn á ýmsa vegu - og eru ekki gagnslausir - en við skulum varast að nota þá sem hjálpartæki við framtíðarspár - framtíðin á sig sjálf. Eins og ritstjóri hungurdiska hefur einnig oft tekið fram áður telur hann sveiflugreiningar sama eðlis - gagnlegar til greiningar - jú, en annars gagnslausar - nema - og það er mikilvægt nema - einhver aflræn skýring sé að baki sveiflanna. Hann trúir þannig í blindni á bæði dægursveiflur og árstíðasveiflur - fellur fram og tilbiður þær.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 29.4.2016 kl. 15:38 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Sæll.
Hér snjóar og frúin á heimilinu segir góðlátlega að ég hugsi betur um skógarþrestina en heimilismeðlimi. Þrestirnir eru í framhaldinu heimilsmeðlimir, eða öfugt. Burt séð frá því og að meginmálinu: Mér finnst alveg nauðsynlegt að halda utan um mælingar á umhverfisþáttum og jafnramt tryggja að þær mælingar séu sambærilegar á milli áratuga og helst alda.
Það sem pirrar einhverfuna í sjálfum mér eru hlutir eins og breyting á mælistöðum, breyting á jarðargróðri, byggingar og annað sem truflar klárlega allar mælingar, hvort heldur hitastig eða úrkomu. Tölfræðilegar leiðréttingar á hitagildum, aftur í tímann út frá stöðunni í dag, getur aldrei verið annað en ákveðin ágiskun útfrá þeim forsendum sem þar eru settar. Góðar sem slíkar en ekki til að alhæfa nokkuð um, eða hvað? Í þeirri umræðu sem er um upphitun/kólnun er miður að hafa ekki meira af skotheldum frambærilegum gögnum, til að sýna fram á "þetta eða hitt".
Stykkishólmur er nokkuð ósnortinn gróður- og byggingarlega séð, þannig að sá mælikvarði er örugglega betri en margur annar. En hver er viðmiðunin þegar kemur að framsetningu gagna? Harbour Grace á Nýfundnalandi? Eða mælistaðir sem búið er að flytja ótal sinnum vegna áhrifa byggðar og/eða annara þátta?
Allt of mörg spurningamerki uppi, að mínu mati, til að geta staðið undir alhæfingum. Og skiptir þar engu hvort farið er upp eða niður hitaskalann. Ég er þar af leiðandi einn af þeim sem fylgist vel með en tek ekki trúarbrögð sem sjálfsögð.
Sindri Karl Sigurðsson, 29.4.2016 kl. 00:03
Persónulega held ég að eðlilegri og nærtækari skýringar eigi frekar við en þær sem eru settar fram hér að ofan, og ekki nærri eins flóknar!
Skýringin á þessum kuldatímabilum mitt í hnattrænni hlýnun liggur í þvi hve hægt hlýnar í raun. Einna síðustu tölur sem ég sá var hlýnun upp á 0,87 stig frá því um 1800 (jafnvel frá 1750 eða frá byrjun iðnbyltingarinnar). Reyndar hafa komið fram nýjar tölur um að síðustu tveir eða þrír mánuðir hafi á heimsvísu verið einni gráðu hlýrri en meðaltölin en það breytir ekki stóru myndinni.
Þetta er auðvitað engin hlýnun að ráði og því skiljanlegt að við finnum afskaplega lítið fyrir henni, sérstaklega hér á norðurslóðum.
Málið er einfaldlega það, að allt of mikið hefur verið gert úr þessari hnattrænu hlýnun og slæmum afleiðingum hennar. Að baki liggur þörf vísindamanna til að sýna fram á mikilvægi rannsókna sinna - og fá styrki til að halda þeim áfram. Það er skiljanlegt praktískt séð en ekki heiðarlegt.
Heiðarleiki er reyndar vandfundinn eiginleiki hjá fólki nútildags.
Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 29.4.2016 kl. 08:31
gott gott og meira af góðu. hvað skildi breitilegur hiti sjávar gera í hita jarðar. gétur verið að við séum að fara inní óróleikatímabil á jörðuni. höfum haft það nokkuð gott meðan maðurinn hefur verið á jörðuniskilst að nokkur supereldfjöll séu komin á tíma vatnajökull sé komin virkt tímabil ymis önnur fjöll komin á tímma. sem mun breita veðurfari til skams tímma hér á landi. skildi holuhraun hafa breit veðri næst sér. skildi maður þurfa panta far á 1.farími á henni botníju til canada
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 29.4.2016 kl. 10:43
Ég þakka Trausta fyrir fróðlegan pistil og einnig þeim sem skrifa skynsamlegar athugasemdir hér fyrir ofan.
Umræðuefnið er býsna fróðlegt og fær mann til að velta hlutunum fyrir sér.
Mig langar til að benda á rúmlega vikugamalt stutt erindi Dr. Richards Siegmund Lindzen prófessors emeritus við hinn þekkta háskóla MIT, en hann er meðal þekktustu núlifandi loftslagsfræðinga. Hann talar af skynsemi þykir mér á þessum 5 mínútum. Jarðbundinn maður og skynsamur eins og Trausti:
What Do Scientists Say?
Climate change is an urgent topic of discussion among politicians, journalists and celebrities...but what do scientists say about climate change? Does the data validate those who say humans are causing the earth to catastrophically warm? Richard Lindzen, an MIT atmospheric physicist and one of the world's leading climatologists, summarizes the science behind climate change.
https://www.youtube.com/watch?v=OwqIy8Ikv-c
Ágúst H Bjarnason, 29.4.2016 kl. 11:43
Takk fyrir fróðlegan pistil Trausti. Mér finnst eins og margt fólk geri lítið úr hitabreytingum upp á hálfa til eina gráðu. Kannski út af því að hitabreytingar eru ekki settar í samhengi við hvað gerist til að mynda í gróður-og dýraríkinu. Hver eru áhrifin af 0,5 - 1,0 gráðu hitahækkun á okkar landi? Ef þessi hitahækkun er á vaxtatíma gróðurs þá færast gróðurmörk ofar í fjöll um tugi metra. Ef til er hægt að plægja og sá korni viku til 10 dögum fyrr. Hægt að hafa kýr á beit hálfum mánuði lengur. Svona atriði geta skipt höfuðmáli t.a.m. fyrir landbúnað og einnig sjávarútveg þegar suðlægar tegundir flytja sig norðar.
Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 29.4.2016 kl. 13:06
Eg verð að segja, - að það er aveg ítrúlegt að lesa þessi komment. Ótrúlegt. Bendir ekki til að neinn kommentahöfundur hafi lesið pistilinn mjög vel allavega.
Almennt um glóbal hlýnun að meðaltali, - að þá er um 1 gráðu hlýnun á 100-150 ár afar mikið.
Gróðuhúsakenningin er vel þekkt og það að hiti að meðaltali glóbalt hafi aukist um 1 gráðu frá iðnbyltingu, - er gríðarlega alarming fyrir framtíðina!
Vegna þess að við vitum að mannskepnan hefur haldið áfram og heldur áfram að setja gróðurhústegundir útí loftið.
Það er ekki eins og þetta séu einhver geimvísindi.
Það er engu líkara en fólk hafi aldrei farið í grunnskóla og lært um Gróðurhúsakenninguna.
Gróðurhúsakenningin var kennd í 9. bekk þegar eg var í grunnskóla, - og það er langt síðan.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 29.4.2016 kl. 13:33
Þetta er áhugaverður pistill, mér varð hugsað til greinar sem ég rakst á nýverið, byggð á rannsókn frá Bresku veðurstofunni þar sem kom fram að árlegð vaxtartímabil á mið-Englandi hefur lengst um mánuð (29 daga) á 10 ára tímabili. þetta finnst mér með ólíkindum, en samkvæmt því sem þú segir er slíks ekki að vænta á Íslandi vegna staðsetningu og nálægðar við önnur veðurkerfi, hafís o.þ.h.? Það er raunar tekið fram að þessi breyting sé tvíeggjað sverð fyrir landbúnað í Englandi. Er eitthvað til hliðstætt úr íslenskum langbúnaði eða gróðraraðstæðum yfirleitt (garðagróðri o.þ.h.)? Til að byrja með er líklega ekki hægt að skilgreina upphaf vaxtartíma á sama hátt og í Endlandi, þ.e. þegar hitastig er yfir 5 gráður samfellt í 5 daga..., er til slík skilgreining fyrir Ísland?
http://www.carbonbrief.org/englands-growing-season-now-almost-a-month-longer-says-met-office
Guðmundur Hrafn Jóhannesson, 29.4.2016 kl. 17:31
Trausti þakka greinina. Ágúst þakka góðar upplýsingar en þetta og næsta Utube eru góð fyrir alla skeptíska. Það væri gaman ef þú Trausti segðir hvað þú héldir persónulega eins og þessir U tube fræðingar. Ómar við vitum öll að gróðurhús eru af hinu góða en hversvegna telur þú gróðurhúsa áhrif slæm.
Heldur þú að það sé bara eitt veðurkerfi á þessum hnetti. Það er búið að hræra upp í skólakrökkum síðustu tugi ára svo þau eru eins og róbótar í hugsun og það var gaman að einn að þessum í U túpunni er stofnandi Greenpeace en hann gefir skít í þessi vísindi er hann segir ekki hægt að kalla vísindi.
Ég segi gefum þessu frí í einhver þúsund ár og eða gleymum þessu alveg og njótum lífsins á stórum jeppum og étum baunir og nautakjöt.
Valdimar Samúelsson, 29.4.2016 kl. 17:56
Til gagn og gamans
https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=iEPW_P7GVB8
Valdimar Samúelsson, 29.4.2016 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.