Svo er það þetta með vindhraða síðasta árs?

Þrýsti- og hitamæliraðir teljast sæmilega öruggar langt aftur á 19. öld - þó við vildum auðvitað eiga meira af slíku. Aðrir veðurþættir eru erfiðari viðfangs. Vindhraði er viðfangsefni dagsins. Hann var lengst af metinn - en ekki mældur og þar að auki hafa til þess verið notaðir fleiri en einn kvarði - meðaltöl hafa verið reiknuð á mismunandi vegu og og og. 

Vonandi leysist úr því í framtíðinni - annað hvort með þrautseigju núeljandi nörda - en líklega þó með einhverjum nýliðum - sem vonandi leynast í grasrótinni (eins og flest það sem til bóta horfir). 

Við getum með svona sæmilegri samvisku horft aftur til ársins 1949 og þeirra sem á eftir fylgdu. Það ár voru gerðar endurbætur á skeytalyklum - sem löguðu ýmis konar ósamræmi sem áður hafði ríkt. - En við erum samt ekki viss um samfelluna. 

Myndin sýnir ársmeðaltöl vindhraða á skeytastöðvum.

Meðalvindhraði á mönnuðum skeytastöðvum 1949 til 2015

Lárétti ásinn sýnir tímann, en sá lóðrétti meðalvindhraðann í metrum á sekúndu. Æjá, árið 2015 var hið vindasamasta síðan 1993 - og er mjög ofarlega á blaði sé miðað við tímabilið í heild. - Þetta er reyndar í takt við loftþrýstinginn lága - og hina háu óróleikavísitölu sem fjallað var um í síðasta pistli. 

Það kemur á óvart á myndinni að vindhraði virðist hafa aukist á tímabilinu í heild - græni ferillinn (10-ára meðaltölin) hefur hækkað um 0,3 til 0,4 m/s (botn í botn). Hversu trúanlegt er það? Koma nú upp hinar verstu grunsemdir. 

Hér verður ekki farið út í að rekja glímu ritstjórans við vindmælingar, hún stendur enn og er bæði sár, erfið og svæsnari en þessi eina mynd gefur til kynna. Síðari mynd dagsins hefur þó aðeins létt undir í baráttunni.

w-blogg260116b

Hér er rauði ferillinn sá sami og sýndur var grænn á fyrri mynd, 10-ára keðjumeðaltal vindhraða allra skeytastöðva. Blái ferillinn sýnir hins vegar 10-ára keðjumeðaltal þrýstióróavísisins. Ferlarnir tveir eru býsna líkir - en þrýstióróavísinn eigum við sæmilega öruggan í nærri 200 ár. Við getum því athugað hver hegðan hans hefur verið aftur fyrir byrjun skeytalykilsins 1949. 

Kemur þá í ljós að hann er einmitt í sérstöku lágmarki einmitt þegar vindhraðinn er í sínu (ótrúlega) lágmarki. Eftir það eru ferlarnir líka býsna líkir. Nú á dögum er tölfræðilegur samanburður keðjumeðaltala litinn mjög illu auga - að nota þau til annars en glansauglýsinga telst svo syndsamlegt að útskúfun úr samfélagi heilagra fræðimanna liggur við (og ekki meir um það ástand).

Við reiknum því ekkert hér - en notum augun til að slá á misræmið (í auglýsingaskyni aðeins - en ekki til fræðafrægðar). Jú, það má sjá misræmi - kannski er það 0,1 til 0,2 m/s - helmingur eða rúmlega það af botn-í-botn leitninni á fyrri mynd? 

En - hvað sem öllu þessu hjali líður: Árið 2015 var vindasamt (í meira lagi). Til eru meðaltöl á landsvísu frá sjálfvirku stöðvunum aftur til 1996 og árið 2015 reiknast það vindasamasta - reyndar munar mjög litlu á því og 2011. Við skulum bara trúa þessu - annað eins er nú borið á borð heimsfrétta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband