Uppbrot á norðurslóðum

Illviðrin sem gengu hér yfir fyrr í vikunni dældu miklu magni af hlýju lofti langt norður í höf. Önnur slík árás á kuldann á norðurslóðum er líka í pípunum yfir Alaska. Þetta hefur valdið því að reglubundin hringrás hefur brotnað mjög upp og mun taka að minnsta kosti nokkra daga fyrir hana að ná sér aftur á strik.

Þetta sést allvel á kortinu hér að neðan. Þar er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna í 500 hPa síðdegis á sunnudag (3. janúar). 

w-blogg020116a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassara er í lofti. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - meðalþykkt hér á landi í janúar er um 5240 metrar, í daufasta bláa litnum. 

Á sunnudaginn er landið hins vegar þakið grænum lit - hiti í lofti er því fáein stig yfir meðallagi. Niður undir jörð situr þó væntanlega kaldara loft yfir landinu - vindur á hverjum stað ræður því hvort það blandast upp í það hlýrra (og öfugt) eða hvort það flettist alveg af. 

Við sjáum langan grænan borða hlykkjast langt norður í höf og austur með Rússlandi norðanverðu og myndar þar mikla hæð - lyfti veðrahvörfunum þar yfir um um nokkra kílómetra. Sú lyfta olli kólnun í heiðhvolfinu og við borð lá að hringrásin þar raskaðist líka (ekki alveg útséð um það - en sennilega jafnar hún sig).

En kuldinn á norðurslóðum hverfur ekki við svona aðsókn heldur leitar hann líka undan og hefur m.a. stór og mjög kaldur pollur lokast af yfir Rússlandi. Hann er reyndar tvískiptur - sá víðáttumeiri er á þessu korti norðaustan Svartahafs og mun reika um Rússland næstu daga - kólnandi. Sá minni er á kortinu yfir Finnlandi. Þar hefur verið mjög hlýtt að undanförnu - en kólnar nú rækilega.

Þessi Finnlandskuldi á síðan að fara til vesturs Svíþjóð og Noreg næstu daga og reyndar um síðir (miðvikudag) ná alveg til okkar - eða fara til vesturs fyrir norðan land - spár eru ekki sammála um smáatriði málsins. En Ísland er vel varið fyrir kulda beint úr austri - hlýir hafstraumar milli Íslands og Noregs sjá um þá vörn - sé kuldinn ekki því  meiri og sneggri í förum. 

Þeir sem reglulega fylgjast með þykktarkortum taka líka eftir því að fjólublái liturinn - (þykkt minni en 4920 metrar) er vart sjáanlegur (aðeins smáblettur við norðurskautið - ef vel er að gáð). Fjólublái liturinn er að jafnaði mjög áberandi á þessum tíma árs - en fjarvera hans sýnir vel að bylgjur að sunnan hafa greinilega brotnað inn í annars vel varinn norðurslóðakuldann og blandað hlýrra lofti að sunnan saman við hann. Niðurstaðan er sú að venjulegan heimskautavetrarkulda er hvergi að sjá. - Tökum samt fram að það er ekkert einsdæmi á þessum tíma árs - en samt. 

Kuldinn nær sér fljótt á strik aftur um leið og blöndun að sunnan lýkur og væntanlega verða fjólubláu svæðin komin í venjubundna stærð nokkrum dögum eftir að bylgjubrotinu að sunnan linnir. - En Alaskabylgjan er býsna öflug og stuggar við öllum litlum kuldapollum - vonandi að þeir hrekist ekki hingað. 

En við skulum til gamans líta aðeins betur á Evrópukuldapollana. Kortið hér að neðan gildir á sama tíma og það fyrra, kl. 18 á sunnudag 3. janúar. Það er ekki alveg eins - reiknimiðstöðvar eru sjaldan alveg sammála.

w-blogg020116b

Hér sést vel að þykktin í kuldapollinum yfir Finnlandi er minni en 5040 metrar. Þótt hitinn við 5040 metra sé allaf sá sami að meðaltali í veðrahvolfinu neðanverðu - sama hvar er í heiminum, er stöðugleiki mjög breytilegur. Hann er að jafnaði mun meiri yfir Finnlandi að vetrarlagi heldur en hér. Þess vegna má búast við því að kuldi í Tampere við 5040 metra verði meiri heldur en við sömu þykkt í Reykjavík. 

En lítið þýðir fyrir ritstjóra hungurdiska að vera að velta sér upp úr því hversu kalt verður í Finnlandi - hann á nóg með sig. 

Sé eitthvað að marka framtíðarspár mun Rússlandskuldinn ekki ná til Vestur-Evrópu og Bretlands - þar halda lægðir áfram að ganga yfir eða stranda. Framtíðarstaða við Ísland er mjög óljós - hlýtt loft verður ekki fjarri sunnan við land og má vera að það hindri bæði kulda úr austri - og síðar norðri til að ná til landsins. - En sparkið frá Alaska er ansi öflugt og gæti bætt í norðanáttina hér verði kuldinn að hörfa undan úr Íshafinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 5
  • Sl. sólarhring: 927
  • Sl. viku: 2327
  • Frá upphafi: 2413761

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 2146
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband