Kalt loft norðurundan

Kalt loft er nú í biðstöðu við Norður-Grænland. Það er reyndar ekkert sérstakur asi á því - það bíður í rólegheitum eftir því að tvær lægðir fari hjá - en síðan á það að breiða úr sér til suðurs - og yfir landið. 

En asi er á lægðunum. - Kortið hér að neðan gildir síðdegis á miðvikudag (21. október)

w-blogg211015a

Lægðin sem fór yfir landið í dag (þriðjudag 20. október) er þarna komin til Noregs. Lægðin fyrir sunnan land hreyfist hratt til austurs - án þess að gera mikið hér - og verður komin austur til Svíþjóðar síðdegis á fimmtudag - eins og rauða örin á að sýna. Lægðin fyrir sunnan Grænland verður á fimmtudaginn hins vegar komin langleiðina til okkar - og á að fara yfir landið á föstudaginn. Það er svo í kjölfar hennar sem kalda loftið fær loksins tækifæri til að gera sig gildandi.

Kuldinn sést vel á þessu korti, við sjáum -15 stiga jafnhitalínu 850 hPa-flatarins við Norðaustur-Grænland. Hún á að komast langleiðina til Íslands á laugardaginn. 

Seinna kort þessa pistils sýnir ástandið í 500 hPa-fletinum á sunnudagsmorgun - eins og evrópureiknimiðstöðin metur það.

w-blogg211015b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - það er norðvestlæg átt uppi í 5 km hæð. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Loftið yfir landinu er á þykktarbilinu 5100 til 5160 metrar. Það táknar að frost mun mælast á öllum veðurstöðvum landsins - sé þykktarspáin rétt - og að víða muni verða frost allan sólarhringinn. 

Það snjóar sjálfsagt fyrir norðan - eins og venjulega í norðanátt - en óljósara er með úrkomu um landið sunnanvert - og allt of snemmt að segja nokkuð um það á þessum vettvangi - hlustið frekar á Veðurstofuna. 

En það er rétt að fylgjast með kuldanum - ritstjóri hungurdiska gefur þykktinni yfir miðju landinu sérstaklega gaum og veit því að gildi undir 5120 metrum eru ekki algeng í október. Sé miðað við hádegi hefur þykkt í þeim mánuði ekki farið svo neðarlega síðan 1996 - og aðeins þrisvar að auki á þeim tíma sem áreiðanlegar mælingar ná til (frá 1949). Sé tekið mark á bandarísku endurgreiningunni gerðist það hins vegar sjö sinnum á tímabilinu 1926 til 1948 - en það var sem kunnugt er sérstakt hlýindaskeið hér á landi.

En þessi lága tala, 5120 metrar, er enn bara spá - . 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.11.): 26
  • Sl. sólarhring: 209
  • Sl. viku: 2083
  • Frá upphafi: 2411881

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1760
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband