Bland (kannski leynist þar eitthvað af vetri)

Nú virðist kólna nokkuð og vetur gæti meira að segja sýnt sig. Háþrýstisvæðið sem fært hefur okkur hlýindin undanfarna daga er á undanhaldi og lægðir verða nærgöngular í vikunni. 

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna síðdegis á þriðjudag (20. október).

w-blogg191015a

Þá á myndarleg lægð að vera skammt fyrir suðvestan land á hraðri leið til austnorðausturs. Í kjölfar hennar fylgir skammvinn norðanátt og kannski eitthvað hvítt nyrðra. En suðvestur í hafi er önnur lægð. Sú hreyfist hratt til norðausturs og er því í framhaldinu spáð að hún fari fyrir sunnan land. - Slíkt myndi hnykkja aðeins á norðanáttinni. Yfir Labrador er síðan enn ein lægð og á hún - að sögn - að vera komin að landinu á föstudag. 

Þótt engin hlýindi fylgi lægðunum þremur - kemst veturinn þó varla heiðarlega að fyrr en þær eru allar komnar hjá - og þá er kominn laugardagur - sem er einmitt fyrsti vetrardagur íslenska tímatalsins gamla - gormánuður hefst. 

En þetta er allt í framtíðinni - spár taka mjög misdjúpt í árinni með fyrstu lægðirnar tvær. Þær gætu orðið meinlitlar - en rétt er samt að gefa þeim gaum og þeir sem hyggja á ferðalög milli landshluta - á hálendinu eða sinna sjó ættu að hafa spár Veðurstofunnar við höndina. 

Þriðja lægðin er mun óljósari í spánum - en þó er nú sem stendur furðugott samkomulag um kaldan laugardag. 

En lítum líka á norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar á sama tíma (þriðjudag kl.18).

w-blogg191015b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í fletinum. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mikill þykktarbratti er við Ísland, stutt á milli bláu og gulu litanna. 

Lægðin sem verður suðvestur í hafi á þriðjudaginn sést hér sem skarpt lægðardrag nokkuð austur af Nýfundnalandi - með mjög hlýtt loft innanborðs - en það hlýjasta á að fara alveg fyrir sunnan land. Þriðja lægðin - sú yfir Labrador er allt öðru vísu - breið og mikil - og hægfara - og á hér eftir að ná í hlýtt loft sér til styrktar - aðalspurning síðari hluta vikurnar er sú hvort hún nær í eitthvað yfirleitt. Í kjölfar hennar kemur e.t.v. lægðardrag sem á kortinu er við Norðvestur-Grænland. Þar er blái liturinn orðinn ansi dökkur - þykktin komin niður fyrir 4980 metra - það er alvöruvetur. 

Það er þetta lægðardrag sem reikniniðstöðvar draga suður á Grænlandshaf á laugardaginn - en ef af slíku yrði hefur það hlýnað um 150 til 200 metra á leiðinni - en verður samt það kalt að getur talist til vetrarins. 

Það er auðvitað óttalegt hringl í spánum svona marga daga fram í tímann þannig að kuldinn getur varla talist fullvís. 

En vikan verður blönduð - snjór sést í fjöllum og á stöku stað á láglendi um skamma hríð í vikunni - tíðni næturfrosta vex. - Æ. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er merkilegt hve mörgum Íslendingum er illa við veturinn, miðað við hve norðarlega á hnettinum við búum - og vitum að veturinn er óumflýjanlegur.

Æ-ið þitt, Trausti, er hluti af þessum furðulegheitum! Einnig tilhneiging þín til að draga úr kuldaspám, sem kemur fram í þessum pistli, sem að mínu mati á orsök sína í sérstökum áhuga þínum á hitametum. Kannski til að staðfesta hnattrænu hlýnunina. 

Málið er það að spáin framundan er eindregin kulda- og vetrarspá. Spáð er allt að 9 stiga frosti í Reykjavík aðfararnótt mánudagsins, þ.e. eftir viku, og að fyrsti snjórinn falli nú á fimmtudagskvöldið.

Á norðanverðu landinu snjói strax núna á miðvikudaginn. Því má búast við að snjór sjáist víðar en á "fjöllum og á stöku stað á laglendi [-] og um skamma hríð", því að spáð er áframhaldandi frosti fyrir norðan næstu daga og meiri snjókomu. 

Því má frekar búast við að jörð verði alhvít allt frá Vestfjörðum, norður um land og suður á austfirðina.

Þá bendir fátt til þess að árhitinn hér í Reykjavík verði um eða yfir 5,3 eins og þú vonaðist til á Hungurdiskum. Gamla spáin um 4,3-4,6 stig virðist nærri, en það þýðir kaldasta árið á þessari öld.

Svo væri fróðlegt að sjá úrkomutölur hjá þér, svo til tilbreytingar við hitatölurnar. Mörg úrkomumetin munu hafa verið slegin í þessum mánuði, er ekki svo?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 19.10.2015 kl. 09:18

2 identicon

ekkert Æ við lifum á íslandi. annars er atlandshafsspáin skritin skrýtin lægð að angra hæðina sem á að koma yfit grænland í lok vikunar 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 19.10.2015 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 46
  • Sl. sólarhring: 437
  • Sl. viku: 1597
  • Frá upphafi: 2421976

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1450
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband