Austan- og síðan norðaustanátt

Hlýtt loft er nú (seint á mánudagskvöldi 24. ágúst) er nú yfir landinu. Ekki er þó um nein afbrigðileg hlýindi að ræða - en samt með því hlýjasta í sumar. Í dag fór hiti á sjálfvirku stöðinni á Mánárbakka í 22,3 stig - og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu öllu í sumar. 

Þetta hlýja loft kemur úr austri - angi af miklum hlýjum hól eða hæð sem setið hefur um hríð yfir Skandinavíu. Þessi hóll er nú heldur að trosna í sundur - og heldur verður ánægjan skammvinn hér á landi - en er á meðan er.

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á morgun, þriðjudaginn 25. ágúst - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og vindstefnu, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Litakvarðinn skýrist sé myndin stækkuð.

w-blogg250815a

Mikið lægðasvæði er sunnan við land og austanáttin norðan við það ber til okkar hlýja loftið. Þykktin yfir landinu er meiri en 5500 metrar - og á þessum árstíma er slíkt almenn ávísun á að hiti komist einhvers staðar á landinu yfir 20 stig - en til þess þarf vindur að blása af landi, og helst þarf líka að vera sólskin. 

Við sjáum að lægðardrag teygir sig til norðausturs frá meginlægðinni - um Skotland. Þetta lægðardrag er á leið til norðvesturs og því fylgir mjög rakt loft sem mun um síðir ná til okkar - og jafnframt mun lægðardragið snúa áttinni meira til norðausturs. 

Staðan á miðvikudaginn sést á kortinu hér fyrir neðan - þetta er hefðbundið sjávarmálskort með jafnþrýstilínum og úrkomusvæðum. Einnig má sjá hita í 850 hPa-fletinum markaðan með strikalínum.

w-blogg250815b

Hér er úrkomusvæði komið upp að Norðausturlandi - sýnist vera býsna bústið. Vindur virðist vera stríður norðan og vestan lægðasvæðisins. Hér er kalda loftsins norður undan ekki farið að gæta - það kemur þegar vindur snýst meira til norðausturs - á fimmtudag og föstudag. 

Á kortinu má sjá mikinn hæðarhrygg teygja sig yfir mestallt kortið vestanvert - alveg frá Baffinsflóa og suður til Nýfundnalands. Þessi hæðarhryggur er á leið til austurs og honum fylgir líka nokkuð hlýtt loft - sem gæti komist hingað um helgina - eða upp úr henni. Kuldakastið - ef yfirleitt úr því verður - stendur því stutt. Satt best að segja yrði nokkur tilbreyting að fá sæmilega hlýtt loft úr vestri - kannski að veðurbreyting verði á höfuðdaginn í ár?

Kortið hér að neðan er spá um veður þann dag (laugardag 29. ágúst).

w-blogg250815c

Kalda loftið (ekki svo mjög kalt þó) er yfir landinu - en hlýrra loft úr vestri mjakast í átt til landsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér sýnist nú kuldaspáin alveg halda sér, þ.e. að mjög kalt loft komi yfir landið um helgina. Hitinn hér í Reykjavík fari alveg niður undir frostmark á sunnudagsmorgninum.

Þá er spáin eftir helgi ekki heldur burðug, hitinn rétt nær 10 stigum þegar best lætur hér á horninu. Vestanáttin verður nú ekki hlýrri en það.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 25.8.2015 kl. 07:27

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hitinn fór reyndar í 22,7 stig á mönnuðu stöðiunni á Mánárbakka.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.8.2015 kl. 10:06

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Um hitann á mönnuðu stöðinni á Mánárbakka - og fleira - má lesa í pistli á fjasbókarútibúi hungurdiska.

Trausti Jónsson, 25.8.2015 kl. 10:50

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ef það verða nokkur ár svona í röð, - þá er ekki byggilegt á Norðanverðu landinu.  

Svo ætla framsóknarmenn að stórauka hér landbúnaðarframleiðslu!

Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.8.2015 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 914
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3304
  • Frá upphafi: 2426336

Annað

  • Innlit í dag: 814
  • Innlit sl. viku: 2970
  • Gestir í dag: 796
  • IP-tölur í dag: 732

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband