Af lágum (og háum) loftþrýstingi í ágúst

Við lítum til gamans á línurit sem sýnir lægsta og hæsta loftþrýsting á landinu á hverjum degi í ágúst og september 1949 til 2014. Línuritið sýnir vel hvað telst óvenjulegt og hvað ekki - og líka hluta árstíðasveiflu - en þrautseigir lesendur hungurdiska vita að slíkar sveiflur eru sérlegt áhugamál ritstjórans. - Ekki víst að aðrir áhugamenn séu margir - en hvað um það.

Lægsti (rautt) og hæsti (blátt) loftþrýstingur hvers dags á landinu  1949 til 2014

Lárétti ásinn sýnir dagatal - frá 1. ágúst til 30. september, en sá lóðrétti er merktur þrýstingi (í hPa). Rauða línan sýnir lægsta þrýsting sem mælst hefur hvern dag á landinu á tímabilinu 1949 til 2014. Sú bláa sýnir hæsta þrýstinginn á sama hátt.

Áberandi er hve rauði ferillinn lækkar til hægri á myndinni - lægðir verða því dýpri eftir því sem nær dregur hausti. Vel sést að allt undir 980 hPa er mjög óvenjulegt fyrstu tvær vikur mánaðarins rúmar - athugum að hér er um ítrustu lágmörk alls tímabilsins að ræða, 66 ár. Þetta táknar að við ættum að gefa lægðum sem dýpri eru en 980 hPa á þessum tíma gaum - sýni þær sig í nágrenni landsins. 

En loftþrýstingur hefur verið mældur miklu lengur hér á landi og vitum við um þrýsting á að minnsta kosti einum stað á landinu á hverjum einasta degi síðan 1. desember 1821 - það styttist í 200 ára samfelldar þrýstimælingar. 

Svo vill til að lægstu tölur ágúst- og septembermánaða alls tímabilsins falla utan þess tíma sem myndin sýnir, Ágústmetið (sýnt með stjörnu) er frá 1927, en septembermetið frá aldamótaárinu, 1900. 

Einnig má sjá árstíðabundna leitni háþrýstingsins - en ekki mikla þó. Þrýstingur ofan við 1030 hPa er frekar óvenjulegur í báðum mánuðum - algengari í september. Háþrýstimet ágústmánaðar er frá 1964, en septembermetið frá 1983 - bæði á myndinni. 

Því er á þetta minnst einmitt núna að evrópureiknimiðstöðin er að sýna okkur býsna djúpa ágústlægð í spá sinni þessa dagana - kortið hér að neðan gildir á hádegi á fimmtudag. Lægðin á þá að vera 967 hPa djúp nokkuð fyrir suðvestan land. 

w-ecm0125_nat_msl_t850_6urk_2015080812_120

Langt í frá er víst að þessi spá rætist - og á kortinu er bærilegasta veður á Íslandi - en lægðasvæði verða viðloðandi í námunda við landið næstu vikuna - nema hvað? Við gefum þessu frekari gaum síðar - ef ástæða þykir til. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Slide16
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 144
  • Sl. sólarhring: 220
  • Sl. viku: 1706
  • Frá upphafi: 2452812

Annað

  • Innlit í dag: 135
  • Innlit sl. viku: 1577
  • Gestir í dag: 133
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband