Hitinn fyrstu sjö mánuði ársins 2015 - er hann lágur?

Veðurstofan birti á dögunum yfirlit um hita í Reykjavík og á Akureyri fyrstu sjö mánuði ársins 2015. Þar kom fram að hitinn í Reykjavík er -0,3 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990, en +0,2 stig ofan við það á Akureyri. Þetta er auðvitað enginn óskahiti en í langtímasamhengi ekkert sérstaklega lágur.

Rétt er að taka fram að hér er ekki verið að fjalla um sumarhitann fyrir norðan og austan - hann hefur verið óvenjulágur í raun og veru. 

Lítum á mynd sem sýnir meðalhita fyrstu sjö mánaða ársins í Reykjavík 1871 til 2014.

w-blogg100815a

Jú, hitinn í ár er miklu lægri en verið hefur að undanförnu - þess vegna finnst flestum hafa verið kalt - en aðeins fyrir 13 árum hefðu þessir sjö mánuðir verið taldir alveg eðlilegir hvað hita varðar. - Það eru undanfarin 12 ár sem hafa verið allsendis óvenjuleg. 

Meira að segja á hlýskeiðinu 1925 til 1965 (og maklega er rómað) voru sjö fyrstu mánuðir ársins hvað eftir annað ámóta og nú - og 1949 og 1951 töluvert kaldari. Var hlýskeiðið 1925 til 1965 búið með „kuldanum“ fyrstu sjö mánuði ársins 1931? Það var ekki heldur búið 1949 eða 1951. Það stóð í 40 ár.

Núverandi hlýskeið sýnist á þessari mynd hafa staðið í aðeins 12 ár - ríki einhver regla í „hlýskeiðasveiflum“ ætti það þá ekki að standa 28 ár til viðbótar? Nei - það er engin þannig regla - því miður (eða til allrar hamingju). Núverandi hlýskeið gæti þess vegna verið búið - það er engin fortíðarregla sem verndar það - það er heldur engin regla sem segir - að sé það búið - hljóti kuldi þess vegna að standa í áratugi - síður en svo. 

En ljóst er að árið verður ekki sérlega hlýtt. Fyrstu sjö mánuðir ársins segja mikið um meðalhita þess í heild. Það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg100815b

Lárétti ásinn sýnir meðalhita fyrstu 7 mánaða ársins í Reykjavík - en sá lóðrétti meðalhita ársins alls. Mikil fylgni er á milli. Lóðrétta strikalínan sýnir hita það sem af er ári 2015, hún sker rauðu aðfallslínuna við 4,3 stig. Svo kalt ár hefur ekki komið í Reykjavík síðan 1995 - en þá var meðalhitinn hins vegar talsvert lægri eða 3,8 stig.

Við sjáum að eitt ár - kaldara er þetta - náði að hala sig upp í fimm stig áður en því var lokið. Það var 1958.

Það má líka taka eftir því að árin sem voru áberandi hæst á efri myndinni (1964 og 1929) sprungu á limminu - stóðu ekki alveg undir væntingum. Það gerðu hins vegar 2003, 2014, 2010, 1941 og 1939.

Við lékum sama leik fyrir mánuði - þá gaf aðfallsspáin ársmeðalhitann 4,2 stig - en gefur 4,3 stig nú - júlímánuður hefur dregið ársspána upp um 0,06 stig. - En nú eru aðeins fjórir og hálfur mánuður til að vinna árið upp í 5 stig - eins og árið 1958 gerði - það er harla ólíklegt að slíkt takist. 

Eitt ár hlýskeiðsins gamla lenti að lokum undir fjórum stigum. Við eigum meiri möguleika á því heldur en að ná fimmu. Keppnismenn: Hvoru liðinu fylgið þið? Því hlýja eða því kalda? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hef trú á því hlýra, það virðast vera minni sveuplur í núverandi hlískeiði  en hlýskeiðinu milli  1918-1955 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 10.8.2015 kl. 06:55

2 identicon

Það er nokkuð sérkennilegt að tala um að árið í ár 2015 sé ekkert óvenjulegt hvað hitastig varðar. Það séu aðeins íðustu 12 ár sem hafa verið óvenjulega hlý.Það raunverulega óvenjulega við þetta ár er hversu miklu kaldara það er en undanfarin ár.

Reyndar er annað ár á þessu tímabili einnig kalt, en það var í hitteðfyrra (2013). Þá var ársmeðalhitinn undir fimm gráðum (4,9) en öll hin árin voru yfir það. Skrítið að það skuli ekki koma fram á grafinu hér að ofan. Líkleg skýring er sú að síðustu fimm mánuðir þess árs hafi verið mjög kaldir. Nú stefni í árshita upp á 4,3 stig sem er harla mikið hrap niður á við - og hlýtur að teljast óvenjulegt - en gæti orðið enn verra ef það hagar sér eins og 2013.

Einnig talar Trausti um að fyrra "hlýskeiðið" hafi staðið í 40 ár, frá 1925-1965 eða þar um bil. Sambærilegar tölur, sem eru til frá 1949, segja þó annað. Ársmeðaltalshitinn fer sjaldan upp fyrir 5 stigin á þessu tímabili (aðeins árin 1953, 1956-1960, 1964-65).Kannski má segja að fyrra hlýskeiðið hafi staðið í 20 ár, frá 1925-1945? Það er þá ekki svo langt frá lengd seinna hlýskeiðsins sem var 12 ár (2002-2014, eða kannski frekar 2003-2012?!).

Ég tel a.m.k. hæpið að tala um hlýskeið þegar ársmeðaltalshitinn er undir 5 stigum. Síðasta hlýskeiði lauk því um áramótin 2012-2013 (2014 undantekningin sem afsannar ekki regluna!). Árið í ár er annað árið (af þremur) sem sýnir, að mínu mati, að nýtt "kuldaskeið" sé hafið, svipað hitafar og á köldustu árunum 1979-1995. Þetta nýja kuldaskeið gæti þannig staðið í 15 ár ...

Leiðinlegt en því miður bendir margt til þess að svo verði. Þetta er hins vegar engin keppni eða óskhyggja - hvað þá metingur!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 10.8.2015 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1498
  • Frá upphafi: 2348743

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband