Svalur - en ...

Við lítum á tvö spákort í dag. Það fyrra sýnir ástandið í háloftunum á norðurskautssvæðinu (og suður til okkar), en það síðara er hefðbundið sjávarmálskort af Norður-Atlantshafi - báðar gilda spárnar síðdegis á sunnudag (25. júlí).

w-blogg250715a

Norðurskaut er nærri miðri mynd, en Ísland alveg neðst. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í fletinum. Ísland er í algjörri flatneskju varla nokkra línu að sjá við landið. 

Litirnir sýna þykktina, en hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við ættum þessa dagana að vera í gula litnum - en það er langt í frá. Grænu litirnir eru þrír, sá ljósasti hlýjastur - en við erum í þeim í miðið - hiti veðrahvolfs langt neðan meðallags. Snarpur kuldapollur við Norðaustur-Grænland er sá langkaldasti á kortinu - þar sér í bláa litinn - sem við viljum helst ekki sjá hjá okkur fyrr en í október - en það er óskhyggja.

Reiknimiðstöðvar eru sammála um að senda kuldapollinn til vesturs í hringsól um heimskautaslóðir. Annar kuldapollur - mun minni - er við Vestur-Grænland og hreyfist suðaustur - hann á að fara til austurs fyrir sunnan land í næstu viku - og heldur við kuldanum hjá okkur - þrátt fyrir að vera þó ekki mjög vondrar gerðar.

Við verðum sum sé í svalanum áfram - svo lengi sem vindur er hægur er kalt loft í háloftunum bein ávísun á síðdegisskúrir inn til landsins - þar sem sólaryls gætir mest. 

En ef við rýnum í myndina sjáum við að þó að hæðarsviðið sé marflatt er lítilsháttar bratti á þykktarsviðinu - það er aðeins kaldara fyrir norðvestan land heldur en fyrir suðaustan. Það þýðir að norðaustanátt er í neðri lögum. Hún er ekki mikil en sést samt vel á sjávarmálsþrýstikortinu hér að neðan. Það gildir á sama tíma - klukkan 18 síðdegis á sunnudag.

w-blogg250715b

Hér er fjögurra hPa bil á milli þrýstilína - en sú sem liggur yfir landið er mjög sveigð og krumpuð - greinileg norðaustanátt er norðvestan- og suðaustan við land. Grænir blettir eru yfir Suðurlandi og yfir innsveitum norðanlands. Hér er líkanið að búa til síðdegisskúrir - önnur líkön eru ekki alveg jafnviss með magnið. Af því sjáum við að það eru trúlega nokkur átök á milli ýmissa veðurþátta í gangi - sem hin aðskiljanlegu líkön ota mismikið fram. - En við veltum okkur ekki upp úr því að þessu sinni.

Rétt er að benda á lægðina yfir Svíþjóð. Hún á að valda allmiklu illviðri í Niðurlöndum, Danmörku og Þýskalandi á morgun (laugardag) - á sunnudag í Svíþjóð og Noregi. Koma þar við sögu eldingar og síðan mikið hvassviðri í kjölfar lægðarinnar - heldur leiðinlegt - mjög leiðinlegt. Hér sjáum við að önnur lægð fylgir eftir á svipaðri braut á mánudag - er á kortinu við Bretland - og reyndar hugsanlega fleiri - sjáið t.d. lægðina syðst á kortinu - en um það eru reiknimiðstöðvar auðvitað ekki sammála - margir dagar - margs konar spár. 

En við virðumst sem sagt sitja í svalanum - en sleppum við meiriháttar illviðri. Kannski sjást þó stöku eldingar - nái síðdegisskúrirnar sér á strik. Jú, svo heldur þurrkurinn um norðvestanvert landið væntanlega áfram - með viðvarandi gróðureldahættu - og bjartar, hægar nætur í köldu lofti - ja ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Já... Ég hitti einn sem sagði að veðurbreyting yrði ekki fyrr en á höfuðdag, svei mér ef hann hittir ekki naglan á höfuðið.

Annars var ég að slá blettinn í annað skiptið í sumar í dag, í lopapeysu og dýryndis gluggaveðri. Þann 20 apríl var 20 stig + inni í sveit, daginn eftir var -4 og snjókoma, nú horfir maður á hitamælinn á Oddskarði sýna á milli 2 - 5 stig alla daga. Ætli hann hækki nokkuð fyrr en í september....

Sindri Karl Sigurðsson, 25.7.2015 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband