Sólskinsmet í Reykjavík?

Í dag mældust 19,4 sólskinsstundir á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík - þetta er jafnmikið og mældist 20. júní 2008 - meira en annars hefur mælst á reykvískri veðurstöð. 

Á gamla kúlumælinum urðu sólskinsstundirnar 18,0 í dag - meira en áður hefur mælst 13. júní og nokkurn veginn það mesta sem mælst getur á gamla mælinn á Veðurstofunni - hefur alloft mælst 18,0 - en aðeins einu sinni meira, 18,3 stundir. Það var 17. júní 2004. Sólskinsstundirnar mældust nokkrum sinnum fleiri á einum degi meðan mælt var við Skólavörðustíg (hvað sem veldur). Þar mældust mest 19,3 stundir, þann 18. júní 1924 - hefur sumum veðurnördum þótt sá dagur og nokkrir aðrir í maí og júní það ár grunsamlegir. 

Rétt er að fara yfir mælingar dagsins áður en við staðfestum metið. En kalt var í veðri, hitinn í Reykjavík um -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. 

w-modis-150613_1435

Sólríkur dagur á Vesturlandi (og víðar). Á myndinni má einnig sjá einkennilegt örþunnt (bláleitt) skýjaband sem liggur frá vestnorðvestri til austsuðausturs fyrir suðvestan land - það sást þó vel af jörðu niðri og má sjá fleiri myndir á fjasbókarútibúi hungurdiska. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Talandi um met má benda á að miðað við fimm fyrstu mánuði þessa árs, og 10 fyrstu dagana nú í júní, stefnir allt í kaldasta ár síðan ísaldarárið 1979. Hitinn það sem af er árs er 2,4 stig. Ef það hitastig er borið saman við hitann fyrri hluta tveggja síðustu ára, 2013, sem var kalt (4,9 stiga meðalhiti allt árið) og 2014, sem var hlýtt (ársmeðalhiti 6 stig), stefnir í 3,1-3,3 stiga ársmeðalhita í ár. Það er kaldara en köldu árin 1981 og 1983 (3,4 stig) og 1989 og 1995 (3,8 stig)! 
Svo eru hlýnunarsinnar að segja að þetta ár sé alls ekki svo kalt, það sé aðallega maímánuður sem hafi verið kaldur en ekki hinir mánuðurnir! Já, afneitunin tekur á sig margar skrítnar myndir.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 14.6.2015 kl. 07:25

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þessi athugasemd, Torfi, á nú við eitthvað annað en pistilinn hér að ofan - kannski eldri pistil - nú eða eitthvað á fjasbók. Árið það sem af er hefur verið kalt - er nú í 51. sæti af 67 á hitalistanum í Reykjavík (hærra á lista í flestum öðrum landshlutum). Meðalhitinn það sem af er ári er nú 1,94 stig (ekki 2,4), árið 1979 var hann -0,05. Eftir 1979 eru það 1995,1989,1988,1983,1994 og 1981 sem enn eru fyrir neðan hita það sem af er ári 2015. Það sem skrifað stóð í pistli hungurdiska 24. maí á enn vel við:  „... haldi árið áfram með svipuðum hætti og verið hefur muni ársmeðalhiti í Reykjavík 2015 enda í um 4 stigum. En en verði bara „venjulega“ kalt - er 4,4 fullt eins líkleg tala. Til að komast upp fyrir 5 stig þarf mikið átak - marga mjög hlýja mánuði. Það er hugsanlegt - eins og 1958 - en varla líklegt - en samt líklegra heldur en fyrir 60 árum. Verði óvenjulega kalt það sem eftir lifir árs gæti ársmeðalhitinn í Reykjavík endað niðri í 3,5 stigum.“ Enginn fyrstu fjögurra mánaða ársins getur talist afbrigðilega kaldur - það var maí hins vegar.

Trausti Jónsson, 14.6.2015 kl. 13:47

3 identicon

Ég gleymdi að taka það fram að þetta átti við Reykjavík, ekki landið allt. Þú átt líklega við meðalhita á landinu þegar þú segir hann vera 1,94 stig en ekki 2,4 (sem hann er í Rvík nema ég hafi reiknað svona vitlaust). 

Ég veit svo sem ekki hvað er afbrigðilegt en mér sýnist að allir mánuðir það sem af er þessu ári hafi verið í kaldara lagi.
Janúar var sá kaldasti í Rvík frá 2007, febrúar sá kaldasti frá 2008, mars var sömuleiðis undir meðaltalinu og sérstaklega votviðra- og illviðrasamur, apríl var einnig kaldur (vel undir meðaltali síðustu 10 ára) og allir vita hvernig maí var. Síðan er búið að vera mjög kalt það sem af er júní.
Þetta er 5. kaldasta byrjun árs í Reykjavík frá 1979 (ekki 7. eins og þú gerir ráð fyrir).
Hin árin sem þú nefnir sem kaldari, voru mun hlýrri það sem eftir var ársins en leitnin hefði átt að segja til um. Enda byrjaðu þau ár mörg hver að hlýna strax í maí og júní (en ekki nú), svo sem 1995, 1989 og 1991. Að það skuli ekki vera að hlýna þegar komið er fram í miðjan júní, finnst mér afbrigðilegt og að það stefni í kuldamet síðustu 36 ára.

 

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 14.6.2015 kl. 15:36

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Í svarinu hér að ofan var átt við Reykjavík. Hér er stöðulistinn, 2015 í 15.sæti (nær til miðnættis í gærkvöldi - og til sama dags önnur ár:

1       1       1964    5.41    1312    Reykjavík
2       1       2003    4.48    1312    Reykjavík
2       1       2014    4.48    1312    Reykjavík
51      1       2015    1.94    1311    Reykjavík
52      1       1952    1.87    1312    Reykjavík
53      1       1970    1.83    1312    Reykjavík
54      1       1981    1.82    1312    Reykjavík
55      1       1984    1.80    1312    Reykjavík
56      1       1994    1.76    1312    Reykjavík
57      1       1969    1.74    1312    Reykjavík
58      1       1958    1.73    1312    Reykjavík
59      1       1990    1.67    1312    Reykjavík
60      1       1968    1.62    1312    Reykjavík
61      1       1983    1.40    1312    Reykjavík
62      1       1988    1.32    1312    Reykjavík
63      1       1989    1.17    1312    Reykjavík
64      1       1995    1.08    1312    Reykjavík
65      1       1951    0.98    1312    Reykjavík
66      1       1949    0.82    1312    Reykjavík
67      1       1979    -0.05   1312    Reykjavík
 

Trausti Jónsson, 14.6.2015 kl. 18:08

5 identicon

Ekki dugar að deila við dómarann! Níunda neðsta sætið síðan 1979. Eftir stendur auðvitað að ekki hefur verið kaldara síðan 1995 það sem af er árinu, eða í 20 ár.

Það er ástæða til að velta vöngum aðeins yfir því - þar sem hitastigið þar sem af er ári er svipuðum nótum og það var yfirleitt á kuldaskeiðinu 1961-90 (1966-2002). Eftir því sem lengra líður á árið hlýtur spurningin að verða sífellt áleitnari hvort nýtt kuldaskeið sé að byrja ... ef svo heldur fram sem horfir..

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 14.6.2015 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1031
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3421
  • Frá upphafi: 2426453

Annað

  • Innlit í dag: 919
  • Innlit sl. viku: 3075
  • Gestir í dag: 892
  • IP-tölur í dag: 826

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband