Óvenjulegar spár (ekki þó hér við land)

Þeir sem fylgjast best með erlendum veðurfréttasíðum - bloggi, fjasbók og tísta sjá þar minnst á óvenjulegar veðurspár þessa dagana - eða ætti e.t.v. að segja að óvenjulegu veðri sé spáð? Það er alkunna að sýndarheimar reiknilíkana sýna oft alls konar afbrigðilegt veður - sem svo ekki skilar sér í raunheimum. Sérstaklega á þetta við spár sem ná meir en 4 til 7 daga inn í framtíðina.

Nýjasta afbrigði bandaríska spálíkansins gfs er nú - eftir aðeins 6 mánaða birtingu - orðið nær alræmt fyrir alls konar skrýtna hluti. - Vonandi verður sem fyrst komist fyrir þau vandræði. Þetta er ekki heppilegt - vegna þess að veðrið er þrátt fyrir allt stundum óvenjulegt og gfs-líkanið hefur líka oft á réttu að standa. 

Líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar er öllu stöðugra - alla vega berast færri tilkynningar um sérdeilis óvenjulegt veður úr þvi húsi. 

En - gfs-spáin bandaríska og spá bresku veðurstofunnar eru þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi 30. maí) sammála um að óvenju djúp lægð verði nærri Skotlandsströndum síðdegis á mánudag (1. júní). Þrýstingur verði um 970 hPa í lægðarmiðju og breska líkanið kemur þrýstingnum niður í 967 hPa um hádegi á þriðjudag. 

Reynd veðurnörd á Bretlandi átta sig á því að hér er um óvenjulegar tölur að ræða - hugsanlega er verið að slá lágþrýstimet Bretlandseyja fyrir júnímánuð. 

Það er árásin kalda úr vestri sem fjallað var um í hungurdiskapistli í fyrradag sem þessu veldur. 

En - nú er evrópureiknimiðstöðin öllu hógværari - hjá henni fer þrýstingur ekki niður fyrir 975 hPa - óvenjulágt samt. Við skulum líta á spákort hennar sem gildir á mánudag (1. júní) kl. 18.

w-blogg310515a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar að vanda, úrkoma sýnd með litum og hiti í 850 hPa með strikalínum. Hér á landi er leiðinleg norðaustanátt - hiti í 850 hPa um -5 stig - snjókoma á fjöllum norðanlands og jafnvel í byggð. Það skiptir okkur máli hversu djúp lægðin verður - verði hún dýpri en hér er sýnt verður því meiri norðanátt á þriðjudag. 

Reikni miðstöðvar rétt eiga bretar von á fleiru óvenjulegu því í lok vikunnar á sérlega hlýtt loft að fara þar hjá. Það sýnir kort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan.

w-blogg310515b

Kortið gildir kl.18 laugardaginn 6. júní. Litirnir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sitjum í dökkgrænum litum að vanda - engin hlýindi að sjá við landið. En England fær á sig fádæma hlýtt loft, því er spáð að þykktin fari yfir 5700 metra - enda segja sjálfvirkar spár að hiti fari í 30 stig í London - og hiti í 850 hPa í 17 stig. Kannski fer hiti í 36 stig í Frakklandi - eins og sést hefur á tístinu. 

En - veruleg óvissa er í þessari spá - hún er satt best að segja harla ótrúleg og rétt að taka hana sem hverju öðru skemmtiatriði þar til nær dregur. En spáin fyrir Ísland og nágrenni er ekkert sérstaklega uppörvandi dagskráratriði - jú, það gæti verið miklu verra.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

mikklu verra. mýflugan ekki komin í byrjun júní her um slóðir. er nokkuð óvenjulegt er heldur bjartsítni en trausti í lok næstu viku verður komið sprettuveður hér um slóðir í uppsveitum suðurlands. en eflaust fá veðurfræðíngar skamir á 17.júní

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 31.5.2015 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 902
  • Sl. sólarhring: 1114
  • Sl. viku: 3292
  • Frá upphafi: 2426324

Annað

  • Innlit í dag: 802
  • Innlit sl. viku: 2958
  • Gestir í dag: 784
  • IP-tölur í dag: 721

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband