Landsynningurinn knái snýr aftur

Eftir þriggja vikna kuldakast snýst vindur nú til suðaustanáttar um stund. Útlit er fyrir að henni fylgi nokkur rigning - ekki veitir af - og hlýrra veður. Þetta verður þó ekki neitt sérlega hlý sunnanátt, en ætli hiti fari samt ekki yfir tíu stig sums staðar - jafnvel um 15 stig þar sem best lætur. En suðaustanáttin verður nokkuð hvöss um landið vestanvert aðfaranótt fimmtudags - sé að marka spár. 

Við lítum á eina slíka, þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna í 925 hPa-fletinum sem gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni 14. maí. 

w-blogg130515a

Flöturinn er hér í um 700 metra hæð yfir landinu vestanverðu. Jafnhæðarlínurnar eru heildregnar (og merktar í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Vindhraði og vindátt eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Vindur er nokkuð mikill í strengnum við Vesturland, um 25 m/s í fletinum - en væntanlega minni víðast hvar á láglendi. 

Litafletir sýna hita, hann er hér á bilinu 0 til 4 stig yfir landinu. Það er í 700 metra hæð. Hiti fellur með hæð - oft um um það bil 2 stig á hverja 300 metra. Við getum því bætt um 5 stigum við til að giska á hita við sjávarmál - en þar sem ekki rignir og loft í 700 metrum nær niður óblandað er óhætt að bæta 7 stigum við hitann á kortinu. Svo er enn hlýrra loft fyrir ofan - reiknimiðstöðin segir mættishita í 850 hPa verða um 12 til 14 stig - kannski sjá það einhverjir á mælum fyrir norðan á fimmtudaginn.

Næsta lægð fylgir svo á eftir - þannig að vindur nær varla að snúast alveg í suðvestur. Lægðin sú er mjög djúp (miðað við maímánuð) en virðist ætla að leggjast vel að landinu - reyndar mun vera spurning með norðanáttina sem á að fylgja í kjölfarið - en það er framtíðarmál. 

Stundum unga reiknimiðstöðvar út ólíkindaspám sem geta varla ræst - ein slík fæddist hjá bandarísku veðurstofunni nú í kvöld. Við skulum líta á kortið - til gamans aðeins - þetta getur tæplega verið rétt.

w-blogg130515b

Eins og sjá má er þykktin nærri 5600 metrum yfir landinu - sem væri glæsilegt maímet. Hita í 850 hPa er spáð yfir 13 stig - það væri auðvitað maímet líka - og ekki fjarri hæsta sumarhita sem þekktur er yfir landinu.

Varla þarf að taka fram að evrópureiknimiðstöðin er með eitthvað allt annað - og jarðbundnara - væntanlega verða ameríkumenn líka með eitthvað annað í fyrramálið - en er á meðan er.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skelfilega svalt framundan á Reyðarfirði hjá yr.no. Tveggja til þriggja stiga hiti næstu 10 daga með stanslausri rigningu. Held að þetta hljóti að vera tóm vitleysa hjá Nojurunum. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.5.2015 kl. 13:25

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Spár yr.no eru teknar beint út úr spám evrópureiknimiðstöðvarinnar. Um 20 km eru milli punkta í því líkani. Sá punktur sem er notaður fyrir Reyðarfjörð er um 8 km fyrir vestan þéttbýlið í um 480 metra hæð. Yr.no tekur hitann í þeim punkti og hækkar hitann síðan upp í það sem samsvarar hæðarmun staðanna. Þar með er orðin til spá um hita á Reyðrarfirði. Hjá evrópureiknimiðstöðinni er Reyðarfjörður talinn í 68 metra hæð (ég veit ekki hvers vegna). Hvort hæðin er sú sama hjá yr.no veit ég ekki - kannski er hún minni. En í líkaninu er snjór í punktinum vestan Fagradals - í 480 metra hæð. Hann hefur áhrif á hitann og bráðnun hans heldur hitanum niðri. Væntanlega bráðnar sá snjór ekki á þeim tíu dögum sem spáin nær til. Meðan snjór er í reiknipunktinum - er hætt við að yr.no spái of lágum hita á Reyðarfirði - sérstaklega eftir að snjólaust er orðið á láglendi. Fleira flækir að vísu málið - það skiptir t.d. máli hver vindáttin er - sé austanátt - og vindur á leið upp Austfjarðafjöll líkansins kólnar loftið meira heldur en jafnaðarhæðarleiðrétting hitans segir til um - það eykur enn á mun raunverulegs hita og þess sem spáð er í líkaninu. Vestanáttin ætti að gefa réttari niðurstöðu. Það er mikilvægt að hafa þessa hluti í huga þegar lesið er í hinar vélrænar spár yr.no og annarra. - Það er hins vegar þannig að ekki er spáð neinum sérstökum hlýindum næstu daga - en ég sé þó að hitinn á Reyðarfirði hefur komist í 9,7 stig í dag. - Og rigningu er spáð á svæðinu.

Trausti Jónsson, 13.5.2015 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 15
  • Sl. sólarhring: 782
  • Sl. viku: 2337
  • Frá upphafi: 2413771

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 2156
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband