Enn fréttist ekkert af hlýindum (nema í útlöndum)

Framrás vorsins er kannski ekki alveg í biðstöðu - sól hækkar enn á lofti - en lítið gengur. Mikil hæð er enn í nágrenni Grænlands og lægðir fyrir austan og sunnan. 

Kortið hér að neðan sýnir háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir hún kl. 18 síðdegis á föstudag (8. maí). 

w-blogg060515a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu. Þetta er allt frekar gisið - „lítil orka í mynstrinu“ eins og amerísku veðurbloggararnir segja að hætti galdralækna (æ). - Allt slakt og kuldatungan austan Grænlands fær alveg að vera í friði. Þykktin er að venju sýnd í lit - kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. 

Í maí viljum við vera í grænum litum - helst gulum (en það er kröfuharka) - en þriðji blái litur (þykkt minni en 5160 metrar) er allt of kalt. Öll úrkoma sem gerir vart við sig í kulda sem þessum er snjór - í besta falli slydda. Litlar líkur eru á því að landshámarkshitinn komist í meir en átta stig eða svo - ef hann fer hærra fer kuldinn að velta sér og búa til úrkomu - og þar með él eða snjókomu. 

Við spyrjum véfréttina hversu oft þykktin yfir miðju landi hefur verið undir 5170 metrum síðustu 60 árin fyrstu 9 daga maímánaðar. Ekki stendur á svari: Átta sinnum. Sennilega vantar einhver tilvik þegar þetta hefur gerst hluta úr degi. Ískyggilegast var kuldakastið mikla í maíbyrjun 1982 - þá fór þykktin niður í 5070 metra þegar verst lét. - Auðvitað muna veðurnördin eftir því (alla vega þau eldri).

Ef við leitum lengra aftur (ágiskun endurgreininga) rekumst við líka á ámóta kuldakast þessa sömu (nærri því sömu) daga í maí 1943. Einhverjir muna það - og einhverjir þekkja það kuldakast af afspurn. 

Fyrir nokkrum dögum bentu hungurdiskar á þráláta viðveru -10 stiga jafnhitalínunnar í 850 hPa yfir landinu. Á föstudaginn - þegar kortið að ofan gildir á hún að vera nærri Reykjavík. Við leit í háloftathugunum yfir Keflavíkurflugvelli kemur í ljós að þetta er ekkert sérstakt á þessum árstíma. Kaldasta dæmið er frá 3. maí 1982 - þá mældist frostið í 850 hPa yfir Keflavík -17,7 stig.

Það sem við höfum verið að gera hér að ofan kallast „að norma“. Við stillum okkur af í atburðarúminu þannig að við náum áttum - og finnum hvenær rétt er að byrja að kveina undan ástandinu. Við gerum það auðvitað sé ástæða til - en það er varla að svo sé - ennþá. 

Kuldasnerpan hefur sum sé áður verið meiri en nú - en svo er það úthaldið. Ekki sér enn nein sérstök mæðieinkenni á kuldakastinu. Svo er það þetta með snjóinn ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 169
  • Sl. sólarhring: 208
  • Sl. viku: 2090
  • Frá upphafi: 2412754

Annað

  • Innlit í dag: 160
  • Innlit sl. viku: 1834
  • Gestir í dag: 147
  • IP-tölur í dag: 141

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband