Kalt áfram

Kuldinn virðist ekki eiga að yfirgefa okkur á næstunni. Kortið sýnir háloftaástandið um hádegi á morgun (laugardag 25. apríl). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg250415a

Það grillir í Ísland hulið bláum lit á miðri mynd. Það er 5040 metra jafnþykktarlínan sem skiptir bláu litunum yfir landinu. Hún fer afskaplega sjaldan inn á landið í síðustu viku aprílmánaðar. Miðja kuldans er ekki fjarri Scoresbysundi - og tekur nú snögga beygju vestur yfir Grænlandsjökul - en við sitjum samt áfram í bláum litum. 

Austur við Noreg er lægðarsvæði sem sendir heldur hlýrra loft í átt til landsins á sunnudag og mánudag - en það er lítt til bóta því úrkoma og vindur fylgir. Hótun er um hríð nyrðra.

Þegar svona kalt loft að norðan kemur út yfir hlýjan sjóinn myndast fljótt él sem leggjast í garða samsíða vindáttinni. Í skjóli landsins verður hann óstöðugur á áttinni og sú staða getur gefið tilefni til þess að snúningur (og ístreymi) myndi litlar lægðir - jafnvel með töluverðri úrkomu. 

Oftast berast þessar smálægðir hratt til suðurs í átt frá landinu og eyðast - en stundum nær úrkoma þeirra að snerta land. Þegar loftið er jafnkalt og er nú fellur úrkoman sem snjór.

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 24. apríl) er lægð af þessu tagi að myndast. Él hennar sjást vel á ratsjá - en hvort snjókoman nær nú til Vestmannaeyja veit ritstjórinn ekki - saknar mjög veður, skýja- og skyggnisathugana frá Stórhöfða. - En honum er sagt að slíkur söknuður sé úreltur - jú, sitthvað gott hefur komið í stað hefðbundinna athugana - en útrýmir ekki tómtilfinningunni.

Nútíminn býður t.d. upp á býsna góðar reiknaðar spár, t.d. þá hér að neðan úr sýndarheim evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 15 síðdegis á morgun (laugardag 25. apríl).

w-blogg250415b

Hér sést mjög snarpur úrkomubakki skammt undan Suðurlandi á mótum hægrar austanáttar beint suður af landinu - og ívið stríðari norðaustanáttar vestan við - við getum ímyndað okkur að við sjáum hægrihandarsnúning lægðarinnar verða til. 

En fyrir austan land fellur loftvog og þrýstilínum yfir landinu fjölgar, Við það verður norðanáttin ákveðnari - og lægðamyndandi áttasamspil undan Suðurlandi á erfiðara uppdráttar. Það ástand á að vara fram eftir næstu viku.

Eins og venjulega eru reiknimiðstöðvar ekki sammála um veður í meir en 3 til 5 daga. Evrópureiknimiðstöðin gerir harla lítið úr smálægðum eftir miðja næstu viku - býr þær þó til - en bandaríska veðurstofan sýnir stöðuna hér að neðan. Kortið gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni (30. apríl). 

w-blogg250415c

Á kortinu má fyrir utan jafnþrýstilínur, vind og úrkomu sjá hita í 850 hPa. Það er -10 stiga línan sem liggur umhverfis lægðina litlu - það hefur lítið sem ekkert hlýnað á landinu - og ekkert hlýtt loft í nánd.

Hvort sem þessar spár rætast eða ekki eru þær gott dæmi um snjókomu á Suðurlandi að vorlagi - upp úr þurru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband