Smálægðir - snjókomubakkar

Vestanáttin er nú lítil orðin við sjávarmál (en heldur áfram ofar) en norðanáttin nær sér illa á strik. Kuldi er í lofti yfir hlýjum sjó. Þetta eru góðar aðstæður til myndunar smálægða og élja- eða snjókomubakka. Snævi þakið landið kólnar hratt og drepur uppstreymi - lægðarmiðjurnar dansa þá kringum landið frekar en að fara yfir það. 

Þetta er heldur erfið staða - sums staðar getur snjóað býsna mikið - en svo sleppa aðrir staðir alveg. Vindur getur rokið upp skamma stund - að því er virðist að tilefnislitlu. 

Þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi) er nokkuð efnismikill bakki við Suðvesturland (sé rétt ráðið í ratsjármyndir) - og fleiri verða þeir. Ekki ræður ritstjóri hungurdiska við að fylgjast með því öllu. En brugðið er upp mynd sem sýnir sjávalmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 síðdegis á mánudag (30. mars). 

w-blogg290315a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma er sýnd með gulum, grænum og bláum litum - og jafnhitalínur 850 hPa-flatarins eru strikaðar. Smálægðaþyrpingin sem fer framhjá landinu á sunnudag er komin austur fyrir - úrkomu gætir enn austast á landinu en annars virðist landið nokkuð hreint. Næsta smálægðaþyrpingin er hins vegar á Grænlandshafi og ætti að koma við með snjókomu á þriðjudag - síðan gæti hreinsað til.

Annars sjáum við vestanstrenginn mikla sem liggur nærri beint vestan frá Labrador og austur um eins langt og séð verður á þessu korti. Nokkuð krappar bylgjur ganga í strengnum austur um til Bretlands. 

Mjög kröpp lægð veldur miklu norðanveðri við Norðaustur-Grænland. Það er enn -10 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem liggur yfir landinu sunnanverðu - þetta er ekkert sérlega kalt loft miðað við árstíma - en -15 línan er rétt norðan við land - en ekkert ber á kaldara lofti. Þessi krappa lægð grynnist ört - en á samt að koma til suðurs rétt fyrir austan land á miðvikudaginn - þá gæti gert hríð um tíma á Norðausturlandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætlar þessi vetrarhryssingur alddrei að hætta?

Við hér á landi höfum örugglega fengið versta veðrið á byggðu bóli þennan veturinn.  Þrálát kuldatíð með mikill úrkomu, aðallega snjókomu, er búinn að vera viðvarandi í allan vetur.  Nú höfum við fengið að jafnaði þrjá storma á viku í allan vetur, normalið er þrír stormar yfir veturinn. 
Föstudaginn 3. apríl nk. eru nákvæmlega 6 mánuðir síðan fyrsti stjórinn kom hér á suðvesturhorninu.  Sennilega munu veðurguðirnir halda upp á þessi tímamót með því að senda okkur ærlega snjókomu og kulda.

Maður getur ekki annað en horft öfundaraugum til nágranna okkur í Evrópu. Þar hefur nákvæmlega enginn vetur komið í vetur. Á Bretlandseyjum hafa menn upplifað sumarblíðu eins og hún gerist best á Íslandi, sól og blíða og hiti 10-13 stig og snjórinn hefur ekki látið sjá sig þar.  Svipaða sögu eru að segja af frændum vorum í Skandinavíu, nema hvað að þeir hafa upplifað vorveðráttu eins og hún gerist best á Íslandi, nær enginn snjór og hiti 5-8 stig. Maður þarf heldur ekki að fara lengra en til Færeyja. Þar hefur nánast enginn vetur verið.
Og svona blíðu eru þessar nágrannaþjóðir okkar að upplifa annan veturinn í röð efti tvö metsumur sem hafa verið einstaklega sólrík og hlý. Það er eitthvað annað en við hér á Fróni.

Maður er farinn að kvíða sumrinu hér loksins þegar það kemur.  Ætli að það verði ekki enn eitt sumarið með vætutíð og sunnan roki þar sem lægðir í reglulegum áætlunarferðum hingað yfir landi leika aðalhlutverkið.

Ö. Jónasson (IP-tala skráð) 29.3.2015 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 908
  • Sl. sólarhring: 1118
  • Sl. viku: 3298
  • Frá upphafi: 2426330

Annað

  • Innlit í dag: 808
  • Innlit sl. viku: 2964
  • Gestir í dag: 790
  • IP-tölur í dag: 727

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband