Vondur landsynningur - en skárri útsynningur

Illviðri þriðjudagsins (10. mars) verður af landsuðri og virðist ætla að ganga blessunarlega hratt hjá. Svo snýst hann eins og venjulega í suðvestur - eða útsuður en við sleppum trúlega við versta vestanskotið sem fylgir lægðinni - það fer vonandi að mestu vestan við land eins og spár gera nú ráð fyrir. 

Þetta má sjá á sjávarmálsspákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 21 annað kvöld (þriðjudag). 

w-blogg100315a

Kortið sýnir líka þrýstibreytingar milli kl.18 og 21, fall er litað rautt, en ris er blátt. Svo mikill gangur er í kerfinu að vindsnúningurinn sem var rétt að verða um landið suðvestanvert kl.18 er hér þremur tímum síðar komin nærri því út af landinu í norðaustri. Sjá má að þrýstilínur eru mjög þéttar í suðaustanáttinni yfir Norðausturlandi, en mun gisnari yfir landinu vestanverðu.

Svo er mikið og þétt línuhneppi nokkuð fyrir vestan land. Litlu má muna að við fáum það í hausinn - en spárnar gera þó ráð fyrir því að við sleppum - en það er samt ekki meira en svo. Hirlam-líkanið er t.d. með strenginn sjónarmun nær landi - og þar að auki er eitthvað drasl á ferðinni í suðvestanáttinni síðar - um nóttina eða enn síðar. Alla vega er full ástæða til að gefa spám Veðurstofunnar gaum - jafnvel þótt veðrið virðist gengið niður. 

Svo er framhaldið í svipuðum dúr og verið hefur. Við veljum af tilviljun spákort sem gildir á miðvikudagskvöld (11. mars kl. 24).

w-blogg100315b

Þarna virðast nokkuð efnismiklir éljabakkar vera yfir landinu vestanverðu. Illviðrislægð þriðjudagsins er komin í skjólið norðaustan við Hvarf á Grænlandi en tvær illilegar lægðir hnykla sig í biðröðinni. Þær eru óþægilega nærri hvor annarri. Á kortinu er sú sem austar er snarpari. Hennar eðlilega leið væri til norðausturs um Færeyjar - en nærvera síðari lægðarinnar „lyftir“ henni til norðlægari brautar - við það dregur vonandi úr afli hennar (síðari lægðin er að loka fyrir kalda loftið úr vestri) - en aldrei skyldi maður vera viss. 

En þessi spáruna reiknimiðstöðvarinnar segir lægðina munu fara yfir landið austanvert á aðfaranótt föstudags - en hún hafi þá grynnst að mun. Landsynningur síðari lægðarinnar eigi síðan að skella á undir kvöld á föstudags - með svo öðrum hnykk af sömu átt á laugardagsmorgni. 

Bandaríska veðurstofan vill hins vegar fara með fyrri lægðina alveg fyrir austan land - en dregur líka úr afli hennar. Þar á bæ á síðari lægðin líka að koma undir kvöld á föstudag - en útsynningur að taka strax við - með svo nýrri krappri lægð úr suðri á sunnudag - evrópureiknimiðstöðin sýnir hana 6 til 12 tímum síðar.

Svona er ástandið - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg030425c
  • w-blogg030425b
  • w-blogg030425a
  • w-blogg030425i
  • w-blogg020425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 390
  • Sl. viku: 1941
  • Frá upphafi: 2457926

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 1763
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband