Fyrirferðarmikil lægð

Alloft verða lægðir svo fyrirferðarmiklar að þær ná yfir mestallt N-Atlantshaf - og dæla um leið köldu lofti frá Kanada alveg austur um til Bretlands og langt norður í Ballarhaf. Þannig var það í dag (föstudag 6. mars).

w-blogg070315a

Myndin er tekin kl.23 nú í kvöld (föstudag 6. mars) og kanadaloftið á eftir að hreinsa upp Bretlandseyjar norðanverðar - en mun gera það og lægðin verður þá nánast einráð ásamt afleggjaranum sem sjá má sem sérstakan sveip suður af Jan Mayen. Norðanstrengurinn við Norðaustur-Grænland þrjóskast þó enn við, leitar lags suður á bóginn - og á að slást inn á Vestfirði um tíma á morgun (laugardag) en ekki af neinu afli - og hörfar svo aftur undan útsynningsloftinu. 

Á milli Nýfundnalands og Suður-Grænlands má sjá skemmtilegan lægðarsveip sem snýst upp við jaðar norðvestanvindrastar. Hann sést vel í tölvulíkönum þrátt fyrir smæðina.

w-blogg070315c

Hér má sjá sveipinn - mörk bleiku og bláu litanna er við 24 m/s - mikil snerpa hér á ferð. Nýfundnaland er við vinstri jaðar myndarinnar og efst sér rétt í Hvarf á Grænlandi. Sé reikningum trúandi mun sveipurinn fara til austsuðausturs - en ekki lifa alla leið til Skotlands - týnist í núningi við umhverfið þegar orkulindir þrýtur. 

w-blogg070315b

Þetta kort sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar jafnþrýstilínur) og hita í 850 hPa-fletinum um miðnætti á föstudagskvöld 6. mars. Hér sést stærð lægðarinnar vel og sömuleiðis kuldaskil sem liggja allt frá Noregi í austri til vestsuðvesturs allt vestur til suðurríkja Bandaríkjanna.

Varla er að sjá neina misfellu á skilunum - um leið og þau sveigjast eitthvað til vaxa líkur á myndun nýrra lægða. Reiknimiðstöðvar búa til margar misstórar á næstu dögum - þeim verður ýmist skotið á Grænlandshaf, Ísland, Færeyjar eða Bretlandseyjar. Hvort þær verða fjórar, fimm eða sjö næstu vikuna skiptir ekki miklu máli að svo stöddu - kannski best að þær verði svo margar að engin nái máli - en við getum haldið áfram að fylgjast spennt með. 

Lægðin stóra vestan við okkur sér þó um veðrið um helgina - útsynning aðallega með éljum um landið sunnan- og vestanvert - en bærilegasta veður ætti að verða norðaustanlands. Evrópureiknimiðstöðin sagði miðjuþrýsting lægðarinnar hafa farið niður í 940 hPa síðdegis - það er sérlega lágt í mars - ekki met að vísu - en samt. Lægsta tala dagsins á Íslandi sýnist vera 954,6 hPa á Gufuskálum. 

Í fyrrasumar voru reiknimiðstöðvar sífellt að gefa undir fótinn með hitabylgjur undir lok spásyrpa, á 8. til 10. degi - en aldrei komu þær. Síðustu daga hafa sömu reiknimiðstöðvar varið að veifa framan í okkur mikilli breytingu á veðurlagi - eftir 9. til 10. daga - en hætt svo við - hvað eftir annað. Það á auðvitað ekkert að vera að nefna þetta - en samt, en samt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Norska stöðin er enn með þetta. Það hlýni þann 13. og verði hlýtt a.m.k.til 16. Vorið er á leiðinni!

Annars stenst þetta með Kyndilmessuna greinilega, amk þetta árið ("Þegar sól í heiði sést" osfrv.). Það hefur snjóað nær samfellt síðan.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 7.3.2015 kl. 08:53

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þú átt við evrópureiknimiðstöðina - yr.no birtir hráar spár frá henni sé spátíminn lengri en um tveir og hálfur sólarhringur. Evrópureiknimiðstöðin valtar yfir allar aðrar spámiðstöðvar um þessar mundir í margra daga spám - en hefur samt auðvitað oft á röngu að standa - .

Trausti Jónsson, 7.3.2015 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 490
  • Sl. sólarhring: 577
  • Sl. viku: 3652
  • Frá upphafi: 2428374

Annað

  • Innlit í dag: 435
  • Innlit sl. viku: 3279
  • Gestir í dag: 417
  • IP-tölur í dag: 401

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband