Snörp vestanátt

Á morgun, föstudag 6. febrúar, gengur snarpur vestanstrengur austur yfir landið. Suðvestanáttin er að vísu búin að vera mjög hvöss víða um landið norðvestanvert (og á fáeinum stöðum í öðrum landshlutum). Loftið hefur verið mjög stöðugt og við þær aðstæður magna fjöll vind í neðstu lögum - bylgjur sem myndast í stöðugu lofti draga hreyfiorku niður undir jörð. 

En eftir að kuldaskil hafa gengið yfir landið tekur öðruvísi vestanátt við. Loftið í henni er mjög vel blandað - og óstöðugt - eftir hraðferðina yfir hlýtt Grænlandshafið vestur af landinu. Mikill þrýstibratti sér til þess að búa til hvassan vind - reyndar storm eða rok allvíða - en þessi vindur sér fjöllin mun verr en sá fyrri. 

Það er því blöndunin sem sér um að koma vindorkunni niður - líka þar sem vindur stendur beint af hafi - engin fjöll þurfa að koma vindinum niður. Þetta þýðir að sterkar hviður eru enn tilviljanakenndari heldur en í stöðuga loftinu - og að meðaltali minni en í því stöðuga (miðað við sama þrýstibratta). 

Nú, þetta skildist væntanlega ekki mjög vel. Við látum Veðurstofuna um að vara okkur við því hvar og hvenær vindurinn verður mestur í vestanáttinni og hvenær hann gengur niður. Ferðamenn ættu að hafa vara á og fylgjast með spám og athugunum - og trúlega er alveg óhætt að gera ráð fyrir að heiðar verði kolófærar meðan veðrið stendur. 

En Veðurstofan sér um það. Við lítum hins vegar á þrjár myndir. Sú fyrsta sýnir einfaldlega vindstefnu (örvar) og vindhraða (litir) um hádegi á morgun, föstudag.

w-blogg060215a

Kortið er úr harmonie-líkaninu. Hér er veðrið ekki búið að ná sér fyllilega á strik - vindur er rétt að ná stormstyrk vestur af landinu. - Sé að marka spána nær veðrið hámarki síðdegis suðvestanlands en eitthvað síðar á Vestfjörðum og Norðurlandi. 

Við sjáum á bylgjunum sem liggja þversum á vindinn undan Suðausturlandi að kuldaskilin eru ekki farin þar yfir - Vatnajökull er að trufla. 

En nú höldum við í háloftin í fræðsluskyni - textinn er kannski ekki nema fyrir þá kortaþolnustu. Fyrir valinu verður mættishita- og vindsnið norður eftir 23 gráðum vestur - rétt við vesturströndina. Sjá má sniðið á innfelldu korti efst til hægri á myndinni.

w-blogg060215b

Litir sýna vindhraða - en hann og stefnu vindsins má einnig sjá á hefðbundnum vindörvum. Heildregnar línur sýna mættishita. Við lesum stöðugleika af því hversu ört mættishitinn stígur upp á við, hitastigli hans (hljómar alltaf illa í þessu falli). Neðst er þrýstingur 1000 hPa (Snæfellsnes og Vestfirðir skjóta kryppum upp í loftið), en efst er þrýstingurinn 250 hPa - í um 10 kílómetra hæð. 

Heimskautaröstin æðir yfir - vindur er þar allt upp í 50 til 60 m/s. En það er tvennt sem við eigum að taka eftir. Hið fyrra að fjöllin trufla vindinn ekki svo mjög - draga hann nokkuð niður yfir Vestfjörðum - en annars er bylgjugangur ekki mjög mikill. Hitt atriðið er mættishitinn. Svarta örin bendir á 276K (Kelvinstig, +3°C) jafnmættishitalínuna. Það vekur sérstaka athygli að að þetta er neðsta línan á myndinni. 

Mættishitinn er sum sé jafn að heita allt frá yfirborði og upp í 800 hPa - í um 2 km hæð. Hér er loft greinilega mjög vel hrært - engin lagskipting. Við sjáum að nú virðist Snæfellsnesið mynda skjól - [ekki er því svo sem alveg að treysta].

Að lokum lítum við á samskonar mynd sem gildir kl. 18 á laugardag - rétt rúmum sólarhring síðar.

w-blogg060215c

Hér hafa orðið miklar breytingar. Fjölmargar jafnmættishitalínur eru nú á milli 800 hPa og jarðar. Mættishiti í 800 hPa er kominn í 290K (= +17°C), hefur hækkað um 14 stig og við jörð hefur hann hækkað um 4 til 5 stig. Mættishitastigull hefur vaxið úr 0 til 1 stigi upp í að minnsta kosti 10 stig sunnan til í sniðinu (vinstra megin). Loftið er orðið stöðugt - enda eru Snæfellsnes og Vestfirðir farnir að draga vind að ofan niður á við - hlémegin. 

Smávilla leiðrétt í texta kl. 09:40


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 72
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1993
  • Frá upphafi: 2412657

Annað

  • Innlit í dag: 70
  • Innlit sl. viku: 1744
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 62

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband