Snjór - nú og í fyrra

Reiknilíkanið harmonie heldur utan um snjóbúskap sinn. Í líkaninu fellur snjór á landið og hann bráðnar aftur, allt eftir kúnstarinnar reglum. Ekki er þessi „sýndarsnjór“ þó endilega til staðar þar sem sá raunverulegi liggur og alls ekki er víst að hann sé í sama magni. 

Uppgjörseining snævarbúskapar er kíló á fermetra - í fljótandi formi myndum við tala um lítra á fermetra eða í úrkomueiningunni millimetrum. Allt er þetta jafngilt tölulega, en hins vegar segir ekkert um snjódýptina sjálfa - því líkanið geymir ekki eðlismassa snævar sem getur verið mjög misjafn. Önnur líkön eru notuð til að fylgjast með henni og við skulum ekki velta okkur upp úr því hér.

Nú skulum við bera saman sýndarsnjómagn á landinu í dag (föstudaginn 30. janúar 2015) og 30. janúar 2014, fyrir nákvæmlega ári síðan. Bolli Pálmason korta- og harmoniesérfræðingur á Veðurstofunni gerði kortið. 

Við fyrstu sýn kann að vera erfitt að henda reiður á því - en við nánari skoðun ættu langflestir lesendur að átta sig. 

w-blogg310115a

Tölurnar á kortinu verða mun skýrari sé myndin stækkuð. Litakvarðarnir eru tveir, sá sem fer um grátt, síðan hvítt og fjólublátt yfir í blátt sýnir svæði þar sem snjór nú er meiri heldur en sama dag í fyrra - sá sem fer úr gulbrúnu yfir í dökkbrúnt og grænt liggur yfir svæðum þar sem snjór er nú minni heldur en í fyrra. 

Eftir að hafa horft á kortið smástund ætti að koma í ljós að meiri snjór er nú á mestöllu vestan- og sunnanverðu landinu heldur en í fyrra. Langmestur munur er á ákomusvæðum jöklanna stóru. Mýrdalsjökull er dálítil undantekning - þar er snjór nú mun meiri á jöklinum vestanverðum heldur en í fyrra - en talsvert minni neðantil á honum austanverðum og sömuleiðis er minni snjór á allnokkru svæði norðan jökulsins heldur en á sama tíma í fyrra. 

Sunnan undir Vatnajökli austanveðum er snjór minni en í fyrra þótt hann sé hins vegar mun meiri þegar ofar dregur. Smámunasamir taka eftir því að minni sýndarsnjór er nú á Eiríksjökli heldur en á sama tíma í fyrra. 

Norðantil á Vestfjörðum og á öllu Norður- og Austurlandi er snjór nú minni en í fyrra - nema - og takið eftir því - í lágsveitum og við sjóinn. Melrakkaslétta og Hérað eru grálituð - sem táknar meiri snjó en í fyrra (að vísu munar mjög litlu). Hér verðum við vel að gæta að - gríðarlegt flökt er í snjóhulu sé snjómagn lítið. Líta má svo á að þar sem snjór var lítill í fyrra og er líka lítill nú sé litur korts dagsins nánast tilviljunarkenndur.

Snjór er samkvæmt líkaninu rétt rúmlega sá sami í Mývatnssveit og í fyrra (+20) - en er nú samkvæmt mælingu meiri nú. Mælingar á Mýri og Svartárkoti í Bárðardal sýna minni snjó nú en í fyrra, það munar um 20 cm á snjódýpt þá og nú. Á háfjöllum norðan- og austanlands er snjór nú miklu minni en í fyrra - að sögn líkansins. Munar meiru en tonni á fermetra þar sem mest er. 

Snjódýpt dagsins má finna á vef Veðurstofunnar - athugið að hægt er að bakka um nokkra daga.

Nú er um það bil miður vetur - þessi mynd gæti gjörbreyst á stuttum tíma - t.d. ef alvarlegt norðaustanhríðarkast gerði nyrðra og eystra.

Ef mikið snjóar vestanlands um helgina myndi það ekki breyta miklu fyrir ásýnd kortsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Já við höfum sloppið mjög vel hingað til fyrir Austan. Það var lítill sem enginn snjór í Neskaupstað, ef ég man rétt, á þessum tíma í fyrra, aftur á móti var allt á kafi í snjó fyrir ofan 2-400 metra. Nú er þetta svona "smotterí" heilt yfir og varla þannig að það taki því að tala um það.

Eins og alþjóð veit er veðurminnið mjög glöggt þannig að þetta er hæfilega hátíðlegt.

Ein spurning; er ekki gefið út snjódýptarkort með fráviki á milli ára og mánaðarsamanburður?

Sindri Karl Sigurðsson, 31.1.2015 kl. 22:13

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Nei, engin slík kort eru gefin út, mælingar eru allt of gisnar til þess. Snjóhulumeðaltöl eru þó til fyrir landið allt og þannig fæst samanburður milli ára og mánaða.

Trausti Jónsson, 31.1.2015 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 2396
  • Frá upphafi: 2410698

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2111
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband